24.04.1922
Neðri deild: 54. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (1061)

82. mál, útflutningsgjald af síld o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Jeg tel óþarfa að orðlengja mikið um þetta mál. Jeg hefi áður látið í ljósi álit mitt á því og sýnt fram á, að þessi tollur er óhæfilega hár.

Síðan á Alþingi 1907 hefir þetta mál öðru hvoru verið tekið til athugunar, en því oftar sem þingið hefir haft það til meðferðar, því fráleitari hafa niðurstöðurnar orðið. Á þingi 1917 var ákveðið að endurgreiða innlendum mönnum nokkurn hluta tollsins, ef varan seldist undir kostnaðarverði. Þetta var auðvitað mikil bót í máli, en þó hvergi nærri fullnægjandi. Innlendir menn hafa því ekki sjeð sjer fært að stunda þennan atvinnuveg nándarnærri eins og þeir annars mundu hafa gert, en hann hefir meira og meira komist í hendur útlendra manna, sem tekið hafa upp þann sið að verka afla sinn á hafi úti, og á þann hátt komist hjá tollgreiðslunni og ýmsum öðrum útgjöldum. Hefir þessi ósanngjarni tollur því fremur orðið til að rýra en auka tekjur ríkissjóðs.

Hv. Ed. hefir nú unnið þarft verk að taka þetta mál til athugunar, enda eru breytingar hennar á lögunum mjög til bóta, þó raunar útflutningsgjaldið sje of hátt enn. Væri það því allilt verk, ef þessi hv. deild eyðilegði málið nú.

Jeg skal svo ekki tala frekar um þetta. Málið er svo augljóst, að hver maður hlýtur að sjá, þegar verðfall er orðið svo mikið á síldinni, að útflutningsgjaldið fer að nema alt að 30% af andvirði hennar, að hjer er á ferðum ósanngirni og rangsleitni, sem ekki er lengur hægt við að una. Jeg vona því, að hv. þm. samþykki frv. umræðulítið eins og það kom frá hv. Ed.