20.02.1922
Neðri deild: 5. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í C-deild Alþingistíðinda. (1086)

22. mál, umræðupartur Alþingistíðinda

Flm. (Einar Þorgilsson):

Það er ekki neitt skrum eða orðagjálfur, þótt sagt sje, að hagur ríkissjóðs standi höllum fæti. Það er, því miður, raunhæfur sannleiki. — Ríkissjóður skuldar tugi miljóna króna, og lánstraust er þverrandi, ef ekki nær þrotið. Árlega vexti og afborganir af þeim skuldum má telja í miljónum. Árleg, áætluð tekjuþörf, þó að nær ekkert sje veitt til verklegra framkvæmda og dregið sem mest að unt er — og sumstaðar meira en unt er — úr lögfestum fjárveislum, verður ætíð hærri en hægt er að áætla tekjurnar. Gjöldin eru áætluð upp undir 10 milj. kr., en svo hátt er ekki hægt að teygja tekjurnar, hvernig sem teygt er. Er því árlegur tekjuhalli á fjárhagsáætlun ríkisins, þrátt fyrir svo þunga skatta á einstaklingum og atvinnuvegum, að öll þjóðin stynur undir. Hagur banka, einstaklinga og fjelaga er svo, að skuldir við erlenda banka og verslunarhús má telja í tugum miljóna króna. Íslenskar afurðir eru flestar fallnar í afarlágt verð, og þó enn fallandi. Afleiðingin af þessu öllu er sú, að fjárhagsástæður ríkisins eru lítilsvirtar og íslenski gjaldmiðillinn stórum fallinn í gengi. Það má því segja, að hagur lands og ríkis sje mjög tæpur.

Það er því ekki að furða, þótt háværar raddir heyrist hvaðanæva um það, að eitthvað þurfi að huga til bjargráða, að stjórn landsins, þing og þjóð verði að grípa til einhverra úrræða. Og þá dettur flestum í hug það ráð að spara sem mest á öllum sviðum. Það er ef til vill ekki alleinasta ráðið, en þó það, sem munar mestu. Við flm. frv. á þskj. 22 erum sammála um, að þessi hugsjón sje rjett. Við lítum svo á, að sú kostnaðargrein — prentun á umræðuparti Alþt. — sje ein af þeim, sem megi og eigi að spara, að svo vöxnu máli.

Almenningsafnot af prentun ræðupartsins eru eigi svo mikilvæg, að stór eftirsjá sje í, en hins vegar er kostnaðurinn eigi svo lítil útgjaldagrein fyrir ríkissjóð, þar sem það mun nema nálega 1/7 af alþingiskostnaðinum. Síðasta ár nam alþingiskostnaðurinn 355 þús. kr., en prentun umræðupartsins rúmum 50 þús. kr. þykir oss flm. einsætt að spara þennan kostnað, en gildandi lög um þingsköp Alþingis mæla svo fyrir, að umræður þingdeildanna og sameinaðs Alþingis skuli prenta í Alþingistíðindunum. Þessi kostnaður verður því ekki sparaður nema með lagaboði, og í því skyni er frv. fram komið.

Jeg býst við, að frv. kunni að mæta einhverjum mótbárum, en vona þó, að það fái að ganga rjetta boðleið gegnum deildina, og æski þess því, að frv. verði, að loknum umr., vísað til 2. umr. og þá til fjárhagsnefndar.