23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (111)

1. mál, fjárlög 1923

Jón Auðunn Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð út af 12. og 13. breytingartillögu fjárveitinganefndar. Síðari brtt. fer fram á það að fella niður styrk þann, sem augnlæknir hefir haft til þess að ferðast kringum land. Þetta tel jeg mjög misráðið. Mjer er kunnugt um það, að þessar ferðir augnlæknisins hafa borið mikinn og góðan árangur. Margir menn, sem ekki hafa haft efni á því að fara til Reykjavíkur, hafa fengið bót meina sinna hjá augnlæknum á þessum ferðum þeirra. Þó hefir það dregið úr árangri, hve viðdvölin hefir verið stutt á sumum stöðum, en það er ekki nema eðlilegt, þar sem ferðastyrkur augnlæknis er ekki nema 500 kr. Vil jeg nú mælast til þess, að þessi brtt. verði ekki samþykt við þessa umr., en við 3. umr. mun jeg koma fram með till. um að hækka styrk þennan, og ákveða lengri dvalir augnlæknis á helstu viðkomustöðum skipanna. Að því er snertir fyrri brtt. fjvn., þá hefi jeg nú heyrt hjá frsm. (B.J.), að augnlæknir muni ekki vilja takast á hendur ferðir kring um land, ef þessi styrkur verður lækkaður. Þess vegna verð jeg einnig að vera á móti þessari brtt. og æski þess, að hann verði aftur færður upp í sömu upphæð og í stjórnarfrv.