10.03.1922
Neðri deild: 19. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (1161)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Jón Þorláksson:

Frv. það, sem hjer er á ferðinni, snertir svo mjög kjördæmi mitt, að jeg get ekki leitt hjá mjer að gera grein fyrir því, hvað hjer er verið að gera.

Þetta frv. fer fram á að fella niður þann lagalega grundvöll fyrir fræðslu barna, sem nú er, án þess að setja neitt í staðinn, sem framkvæmanlegt er, að minsta kosti ekki hjer í Reykjavík. — Eins og menn sjá, er það ætlunin hjer að leggja alla umsjá barnafræðslunnar hjer á herðar prestanna. Það má vera, að þetta geti átt við í sveitunum, þar sem söfnuðirnir eru fámennir, en hjer í Reykjavík og öðrum fjölmennustu kaupstöðum landsins er slíkt fyrirkomulag með öllu óhugsanlegt. Hjer eru að eins tveir sóknarprestar og einn fríkirkjuprestur, og hafa þessir þrír menn svo mikið starf að vinna, að með öllu er óhugsandi, að þeir geti á sig bætt. Það virðist nú líka svo, sem höfundar frv. hafi haft eitthvert hugboð um þetta, því þeir gera ráð fyrir því, að barnaskólar starfi eftir sem áður í bæjunum, og svo yrði það líka að vera, að minsta kosti hjer og í hinum stærri kauptúnum á landinu.

Flest af því, sem hjer hefir verið sagt um ágæti heimilisfræðslunnar, á að eins við um sveitirnar. Í sjávarþorpunum er það meiri hl. heimilanna, sem ekki hefir tök á því að veita börnum þá fræðslu, sem gert er ráð fyrir í frv. Það yrði því óhjákvæmilega að halda áfram skólahaldinu þar. En sjeu menn ásáttir um þetta, þá er mjer það með öllu óskiljanlegt, hvers vegna kippa á burt lagagrundvellinum undan því skólahaldi, sem nú er. Jeg fæ ekki sjeð, að nokkuð geti áunnist með því að kippa burtu skólaskyldunni; en það er viðbúið, að mikið tapist við það. Jeg er þess fullviss, að ef svo stæði lengi, yrði þriðji hver maður í Reykjavík hvorki læs nje skrifandi á fermingaraldri. — Og hvað þær 500–1000 króna sektir snertir, sem talað er um í frv., þá hefi jeg heldur litla trú á þýðingu þeirra. Þær sektir yrðu alls ekki heimtar inn af alþýðumönnum hjer, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir gætu ekki borgað þær.

Þá bætist hjer við, að með þessu frv. yrðu þær breytingar á, að engin lög væru til um stjórn eða reglur þeirra barnaskóla, sem áfram hjeldu, nema þá þær, sem hlutaðeigandi bæjarstjórnir settu, sem eigendur skólanna.

Nú gæti samt verið álitamál, hvort ekki væri rjett að gera á þær breytingar, sem hjer er um að ræða, ef knýjandi nauðsyn bæri til, eins og t. d. af sparnaðarástæðum. En enn þá hefir engin slík ástæða komið hjer fram, því jeg hugsa, að enginn af þeim, sem hjer eru, sje svo blindur að telja það sparnað, þótt sömu gjöldin gangi í gegnum einn sjóð í stað annars, þótt fjeð til barnafræðslunnar sje tekið úr sveitar- og bæjarsjóðum, í staðinn fyrir úr ríkissjóði, úr því að sömu mennirnir gjalda fjeð í þessa sjóði. Það fer jafnmikið af fje þjóðarinnar í þetta eftir sem áður. Um raunverulegan sparnað er þá fyrst að ræða, þegar fje losnar frá einhverju tilteknu sviði, svo að hægt sje að nota það á öðru sviði, þar sem þjóðin þarf þess frekar við. — Þó skal jeg ekki bera brigður á, að einhver ofurlítill sparnaður yrði að þessu til sveita, með því móti þá, að farkensla legðist niður, en prestarnir tækju við kenslunni. En jeg held, ef málið yrði nákvæmlega rannsakað, að sparnaðurinn yrði langtum minni en hv. þm. N.- Ísf. (S. St.) hjelt fram. Einnig finst mjer verða að taka tillit til kaupstaðanna, ef á annað borð á að kosta til kenslu þar til móts við það, sem áður hefir verið.

Jeg neita ekki, að það geti orðið einhver sparnaður að þessu fyrirkomulagi til sveita, en jeg held þó, að þær sveitir finnist, sem þurfi engu minna að leggja til barnafræðslunnar en áður hefir verið. Árangurinn yrði eingöngu sá, að kostnaðurinn kæmi meira niður á barnaeigendum, en minna á þeim, sem fá eða engin börn eiga. — Mjer finst ekki rjett að ráða þessu atriði málsins til lykta áður en rannsakað er, hvort breytingin mundi reynast sveitunum hagkvæm.

Hvað snertir kaupstaðina, hefi jeg áður tekið fram, að þar yrði líklega að stilla svo til, að breytingin, sem af frv. leiddi, yrði sem allra minst. En þó mundi ilt að ráða við, að börn fátæklinganna, sem síst mættu fyrir því verða, færu að miklu leyti á mis við fræðslu.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) kom með rökstudda dagskrá, sem fer í rjetta átt. En jeg skýt því til hv. þm. (Sv. Ó.), hvort hann sje ekki fáanlegur til, eftir upplýsingar þær, sem komið hafa frá hæstv. forsrh. (S. E.), að fella niður fyrirvarann um veitingu kennaraembætta. Hann er þýðingarlaus, hvað þetta mál snertir, því samkvæmt lögunum má segja kennurunum upp, ef þörf krefur. En á hinn bóginn líta kennarar svo á, að drátturinn á veitingunni þýði, að það eigi að halda opnum dyrum til að geta skift um menn. Það er þegar búið að draga skipunina ári lengur en heimilað er í lögunum, og er því ilt að draga hana eitt ár enn, eins og vakir fyrir hv. 1. þm. S.-M.