30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (1203)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Þorsteinn Jónsson:

Mál þetta hefir nú þegar verið mikið rætt, en nú hafa komið fram 2 nýjar brtt., frá hv. 2. þm. Skagf. og þm. Borgf., sem gefa tilefni til nokkurrar umræðu. Jeg vil lítið ræða þá hlið þessa máls, sem snýr að kennurunum, heldur aðallega víkja að þeirri hliðinni, sem snýr að þjóðfjelaginu. Þó vildi jeg leyfa mjer fyrst að fara nokkrum orðum um fyrri hliðina.

Aðalástæðan, sem til er færð fyrir lækkun á launum barnakennara, er sú, að hjer sje hægt um vik, sökum þess, að nú sjeu allir barnakennarar settir. Fyrverandi landsstjórn hafði sem sagt brotið lögin og sett alla barnakennara, í stað þess að skipa þá, eins og lögin mæltu skýlaust fyrir. Var þetta alleinkennileg aðferð hjá fyrv. stjórn, og skal jeg engar getur að því leiða, hvers vegna hún gerði þetta, þar eð kenslumálaráðherrann, sá sem á sök á máli þessu, er nú ekki lengur til varnar, en nokkuð mætti ráða þetta af orðum fyrv. fjrh. (M. G.), en út í þau skal þó ekki farið, þar eð hann bar ekki ábyrgð á framkvæmd laga þessara.

Sný jeg mjer þá að ástæðum hv. 2. þm. Skagf. (J. S.). Taldi hann fyrst og fremst, að kennaralaunin væru of há, borin saman við laun annara starfsmanna ríkisins. Sannast hjer sem oftar, að sínum augum lítur hver á silfrið. Munu fleiri líta svo á, að ef laun barnakennara sjeu of há, þá sjeu laun flestra annara starfsmanna ríkisins ærið há.

Þessi sami hv. þm. (J. S.) sagði, að það yrði að taka tillit til þess, er launin væru ákveðin: 1) hve mikinn undirbúning starfið heimtaði, 2) hve mikil hin fjármunalega ábyrgð væri, og 3) lengd starfstímans. Þetta er rjett; hefi jeg fyr hjer í hv. deild bent á það, að ekki væri krafist nægilega mikils undirbúnings til kennarastarfa nú, og vildi jeg, ef fært væri fjárhagsins vegna, að krafist væri 3 ára náms á kennaraskóla, að aflokinni gagnfræðamentun. Er það ekki að þakka undirbúningnum, þó að yfirleitt gegni góðir menn og færir þessu starfi nú, heldur áhuga þeirra á starfi sínu. Þá sagði hann, að launin ættu að fara eftir hinni fjármunalegu ábyrgð. Þetta er líka rjett, en hinn hv. þm. (J. S.) verður að gæta þess, að til er önnur ábyrgð, sem er enn þýðingarmeiri en fjármunaleg ábyrgð. Það er ábyrgðin á uppeldi þjóðarinnar. Sú ábyrgð er allri annari ábyrgð meiri.

Sjerstaklega fanst þessum sama hv. þm., að laun skólastjóranna við kaupstaðaskólana væru of há. — Þeir hafa mun hærri laun en aðrir kennarar, en hitt er ekki rjett hjá hv. þm., að þeir hafi 2000 kr. um árið, auk ókeypis húsnæðis, ljóss og hita. Þeir hafa einungis ókeypis húsnæði, því að heimavistarskólar eru enn engir til, en þeir einir skólastjórar áttu að hafa ókeypis þetta tvent. Þessi hlunnindi mat þm. 2000 kr., en það er auðsætt, að þetta er alt of hátt metið, þar sem um húsnæðið eitt er að ræða, nema ef til vill hjer í Reykjavík, en í öðrum kaupstöðum landsins er húsaleiga ekki svona mikil, en enn er þess að gæta, að húsnæðið er þó aldrei nema húsnæði, og þá verða þessar 2000 kr. að duga til alls annars framfæris kennarans.

Þegar tekið er tillit til þess, hvaða starf skólastjórinn við barnaskólann í Reykjavík hefir, þá má fullyrða, að laun hans sjeu miklu lægri en annara embættismanna í jafnábyrgðarmiklu embætti. Hann á að hafa umsjón með 40 kennurum og 2 þúsund börnum. Mun öllum foreldrum í þessum bæ ljós hin afskaplega ábyrgð, sem þessu starfi fylgir.

Þá sagði sami hv. þm. (J. S.), að taka yrði tillit til þess, að starfstíminn væri ekki nema 6 mánuðir. Þetta er rjett, en jafnframt verður að gæta þess, að þjóðfjelagið hefir engan fastan starfa til þess að bjóða þessum mönnum. Veit jeg, að sagt muni, að þeir sjálfir geti útvegað sjer starf. Má vel vera, að þeir geti það stundum, en oft getur það brugðist. En sjerstaklega vil jeg leggja áherslu á það, að starf skólastjóranna við kaupstaðaskólana er svo mikið, að þeim veitir ekkert af því að hafa sumarið til undirbúnings.

Þá sagði hv. þm. einnig, að starfstími skólastjóranna væri stuttur á degi hverjum, lengstur 5 tímar. Skólastjórinn hjer í Reykjavík kennir ekki nema 1 tíma á viku, svo að hv. þm. mun ekki finnast hann eiga að hafa há laun. En þó að skólastjórinn kenni ekki meira, hefir hann samt nóg að gera. Umsjón með skólanum hvílir á honum. Jeg hefði haldið, að hv. þm. (J. S.) þekti svo mikið til kenslu, að hann vissi, að kennarar þyrftu að vinna lengri tíma en þann, sem þeir sitja í tímum. Heimavinna þeirra er eins mikil; leiðrjetting stíla og heimadæma. Og hver sæmilegur kennari býr sig undir kenslustundirnar. Þá kom þm. (J. S.) með samanburð á launum kennara og annara embættismanna.

Skal jeg nú athuga hann nokkru nánar og sýna fram á það, að kennararnir eru ver launaðir en aðrir starfsmenn Tökum t. d. prestana. Árslaun þeirra eru 2000 kr., en kennarar við fasta skóla hafa þetta 1600, 1500 og 1300 kr. Hinir 7 skólastjórar kaupstaðaskólanna hafa að vísu hærri laun, en við laun þeirra miðar þm. laun ýmsra undirtyllustarfsmanna, og svo laun prestanna. Það er rjett, að það er heimtaður meiri undirbúningur undir prestsembætti en kennarastöðu við barnaskóla, en hver leggur meira á sig, kennarinn eða presturinn? Meiri hluti prestanna hefir sáralítið að gera. Þjóðin notar þá ekki. Og enn er þess að gæta, að prestar fá borguð sjerstaklega öll sín aukastörf. Þær tekjur nema miklu í kaupstöðum. Sveitaprestar fá þar að auki til ábúðar úrvals jarðir gegn litlu afgjaldi. Laun þeirra er ekki hægt að bera saman við laun manna, sem búa í kaupstöðum. Það er hægt að taka farkennarana sem hliðstæður við sveitapresta. Laun þeirra hefði hv. 2. þm. Skagf. (J. S.) átt að bera saman. Þá hefði mátt sjá, hve rök hans um há kennaralaun eru rjettmæt. Farkennarar hafa 300 kr. laun, auk fæðis, húsnæðis, ljóss og hita. — En svo er líka hægt að nefna starfsmenn, sem þurfa ekki að verja löngum tíma til undirbúnings starfi sínu, en hafa þó miklu hærri laun en kennarar. Póstmeistarinn í Rvík hefir t. d. 4000 kr., og póstmeistararnir á Ísaf. og Akureyri 3000 kr. Að vísu hafa þessir menn mikla fjármunalega ábyrgð, en hættuleg er hún ekki, ef mennirnir eru vandaðir. Ekki kosta heldur fiskimatsmenn miklu til undirbúnings starfs síns; þó hefir fiskimatsmaðurinn í Rvík 3000 kr. og aðrir 2400 kr. Stöðvarstjóri landssímans í Rvík hefir 3000 kr. og stöðvarstjórar annara aðalstöðva 2600 kr., og auk þessa eru aldurslaunauppbætur miklu hærri en kennara utan kaupstaða.

Og svona mætti lengi telja. En athugum nú, hverjar afleiðingarnar yrðu, ef launalækkun kennara yrði að lögum. Afleiðingin yrði sú, að bestu mennirnir hættu að starfa, því að þó mennirnir hafi löngun til að gefa sig að starfanum. Þá geta þeir það ekki, efnanna vegna. En mundu þá engir fást til starfans? Jú. Það fengjust lausamenn og lausakonur, sem hlypu til þessa starfa, þegar aðra atvinnu væri ekki að fá.

Nú má vel vera, að sú ástæða fyrir launalækkun vaki fyrir mönnum, að kennararnir sjeu ekki færir til starfans eins og nú er. Og þetta er ástæða, sem er vel þess verð, að sje athuguð. Jeg hefi nú athugað þetta eftir því sem föng eru á, aðallega af skýrslum prófdómenda og umsögnum. Má undantekningarlítið sjá af þeim umsögnum, að kennarar frá kennaraskólanum hafa rækt starfann með samviskusemi, en undan öðrum er talsvert kvartað (M. G.: Líka undan hinum.), sjerstaklega kenslu þeirra í reikningi og móðurmáli. Má vera, að það sjeu aðallega þessir kennarar, sem þeir þm. þekkja til, sem telja barnakenslu lítils virði. Hefi jeg sjerstaklega aflað mjer rækilegra upplýsinga um umsagnir prófdómara í einu kjördæmi. Er þar einkum kvartað undan barnafræðslunni í einum hreppi, sem þm. er búsettur í. Segir prófd. þar meðal annars, að menn sjeu mjög daufir í dálkinn með það að leggja nokkuð í kostnað til barnafræðslunnar. Sami prófdómari segir, að í öðrum hreppi í þessu hjeraði hafi ekkert barn verið hæft til þess að taka fullnaðarpróf. Þar er kennarinn búfræðingur. Í einum hreppi þessa sama kjörd. er óskað eftir því, að kenslunni sje haldið lengur áfram. Kennarinn sje illa valinn og heimilin ekki fær um það að annast kensluna. Sjerstaklega lítil þekking barna í móðurmáli og reikningi. Útkoman þarna er ekki góð, enda ekkert sóst eftir kennurum með kennaramentun. Jeg vil nú fara nokkrum orðum um kennaraval í nokkrum fræðsluhjeruðum í þessu kjördæmi. Hefi áður minst í búfræðinginn. Einn kennarinn hafði fengist við kenslu í 15 ár, fór síðan á kennaraskólann og hætti þar próflaust. Einn stundaði nám við gagnfræðaskóla og fjell þar við próf. Og enn má nefna einn, sem tekinn var fyrir kennara, eftir að hafa fallið við 1. bekkjar próf í kennaraskólanum. Er ekki von til þess, að útkoman verði góð, þegar ekki er hugsað meira um að velja hæfa menn til starfans. Má vel vera, að þessir menn sjeu góðir til annara starfa, en þeir hafa lent á rangri hillu. Slíkum mönnum sem þessum mun fjölga í kennarastöðunum, ef laun kennara verða lækkuð. Þeim mun líka fjölga, ef lög verða samþykt, sem koma meira losi á fyrirkomulag barnafræðslunnar.

Aðalskilyrðið til þess, að barnafræðslan verði í góðu lagi, er það að fámenn til kenslunnar, sem eru starfi sínu vaxnir og hafa fengið rjettan undirbúning undir starfið. Gildir hjer hið sama og með önnur störf í þágu hins opinbera. Engin stjett heldur áliti sínu, ef hún hefir marga óhæfa menn innan sinna vjebanda til að gegna starfi stjettarinnar. Tökum t. d. prestana, hvernig færi með álit þeirra, ef söfnuðurnir tækju upp á því að gera leikprjedikara vestan úr Ameríku eða annarsstaðar að að prestum; prjedikara, sem lært hefðu hjá mormónum eða öðrum sjertrúarflokkum þar vestra. Jeg gæti trúað, að mesti glansinn færi af prestastjettinni, ef þannig væri farið að. Hvernig færi um álit dómaranna, ef til dómarastarfa væru valdir ólögfróðir menn, þótt hámentaðir væru, t. d. útlærðir guðfræðingar eða læknar, sem kynnu öll ver aldarinnar vísindi í sinni fræðigrein? Hvernig skyldi lögfræðingum lítast á þetta, og hvaða orð ætli færi af þeim sem dómendum? Leyfi jeg mjer að taka eitt dæmi enn. Verslunarmaður í Reykjavík er þreyttur á starfi sínu, vill fá sumarfrí og dvelja í sveit, en efnahags vegna þarf hann að hafa atvinnu í sveitinni, meðan hann dvelur þar í sumarfríinu. Þá tekur hann það ráð, að hann fær verkaskifti við búfræðing, vanan jarðabótamann, sem á heima hjá hv. 2. þm. Skagf. (J. S.). Búfræðingnum þykir skemtilegt að bregða sjer til Reykjavíkur, og heldur það þægilegt starf að vera þar skrifstofumaður. En hvernig ætli hv. 2. þm. Skagf. (J. S.) þyki skiftin? En ekki mundi sá dómur hans þykja rjettlátur, ef hann teldi jarðabótavinnu allra jarðabótamanna lítils virði, þótt hinn nýi jarðabótamaður hans, verslunarmaðurinn frá Reykjavík, verði ekki sem lægnastur við jarðabótastörfin. Þannig mætti lengi telja upp, en þetta sýnir, að ef ekki er lagt kapp á undirbúningsmentun manna, sem gegna eiga ábyrgðarmiklum störfum, þá fer alt í handaskolum.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Jeg er víst „dauður“ núna; jeg talaði einu sinni í þessu máli fyrir hálfum mánuði; þá var sama umr. og nú, en þá þótti ekki tiltækilegt að bera þessar till. undir atkv., því að þá vantaði einhverja hv. þm. á fund, er líklegir þóttu til stuðnings við þær, en nú munu þeir vera viðstaddir, og má því vænta þess, að það dragist ekki lengur, að atkv. verði greidd um frv. þetta.