30.03.1922
Neðri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (1207)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Magnús Guðmundsson:

Jeg undrast það, hvernig hv. þm. hafa snúist við þessum brtt. mínum. Hvað snertir þá hlið þeirra, sem fer fram á að skifta dýrtíðaruppbótinni milli ríkissjóðs og sveitarsjóða, þá tók jeg það fram við aðra umr. þessa máls, að jeg teldi enga sanngjarna ástæðu til þess að láta dýrtíðaruppbótina hvíla óskifta á ríkissjóði, aðra en þá, að menn álitu, að ríkissjóðurinn væri færari um að bera hana en sveitarsjóðirnir. Þetta kann nú að hafa verið rjett 1919, en nú á það ekki lengur við. Það er því rangt, að jeg sje með þessum brtt. að ala á nokkrum ríg milli sjávarsíðunnar og sveitahjeraðanna. Jeg fer ekki fram á annað en það, sem sanngjarnt er. Er jeg gat þess, að jeg gæti skilið, að íbúar kaupstaðanna ættu bágt með að fallast á mínar till., þá var það ekki gert í því skyni að ala á neinum ríg, eins og hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) virtist halda, heldur til þess að draga úr honum, með því að viðurkenna, að kaupstaðirnir hefðu nokkuð til síns máls. Jeg er honum alveg sammála um það, að það sje ilt verk og óþarft að ala á slíku ósamlyndi.