23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

1. mál, fjárlög 1923

Þorsteinn Jónsson:

Jeg get ekki stilt mig um að gera nokkrar athugasemdir við brtt. háttv. fjvn., á þskj. 117. við 14. gr.

Hún segir í nefndaráliti sínu, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin leggur sjerstaka áherslu á þessa grein, sakir þess, að hjer eru fjárveitingar til flestra þeirra mentastofnana, sem landi og þjóð eru meiri nauðsyn en flest annað og alþjóð manna ann mest. Hún hefir því víða gengið feti framar en stjórnin gerði í frv. sínu og dregið úr aðeins þar, er hún taldi til umbótar, en eigi til skemdar mentun og menning þjóðarinnar“.

Það er því einkennilegra, er nefndin hefir haft þessi orð, hvernig hún fer að í brtt. sínum.

Hin fyrsta brtt. nefndarinnar, sem jeg vildi minnast á, er að hún leggur til að koma á nemendagjöldum við gagnfræðadeild mentaskólans, gagnfræðaskólann á Akureyri, kennaraskólann, stýrimannaskólann og vjelstjóraskólann, og það eigi minna en 100 kr. af hverjum nemanda.

Þetta getur nú ef til vill litið vel út, ef ekkert er annað haft fyrir augum en beinlínis sparnaður á útgjöldum ríkissjóðs.

Mig undrar það stórlega, hvers vegna nefndin vill þá ekki ganga svo langt að láta nemendur borga allan kostnað við skólana, og ljetta skólakostnaði þannig alveg af ríkissjóði.

Ef þessi leið yrði farin, sem hv. fjárveitinganefnd leggur til, sem sje að leggja skólagjöld á flesta nemendur áðurtaldra skóla, þá er afleiðingin auðsæ, og hún yrði engin önnur en sú, að miklu færri sæktu skólana en áður. Og það getur háttv. fjvn. verið þekt fyrir, þrátt fyrir það, þó að það sje viðurkent af öllum mentaþjóðum, að skólarnir sjeu bestu og þörfustu stofnanirnar, sem þjóðirnar eiga.

Hvar kæmi nú þetta gjald harðast niður? Því er fljótsvarað. Það kæmi auðvitað langharðast niður á fátæklingunum. Og afleiðingin yrði einnig sú, að miklu færri myndu sækja þessa skóla úr sveitunum. Reyndin yrði því sú, að skólana sæktu nær eingöngu Reykvíkingar og Akureyringar og einstöku efnamannabörn utan af landi. Fátæka sveitafólkið yrði því að sitja á hakanum. En hvaðan koma nú gáfuðustu og duglegustu unglingarnir? Hvort koma þeir heldur úr sveitum eða kaupstöðum? Hvort eru þeir frekar ríkra eða fátækra manna synir? Jeg býst við, að allir háttv. fjárveitinganefndarmenn verði að taka undir með mjer og svara spurningunni þannig, að þeir komi langtum fleiri úr sveitunum og þeir sjeu að jafnaði fremur fátækir en ríkir, því að reynslan er fyrir löngu búin að sanna það, að þeir menn, sem þegar í æsku hafa vanist á erfiða vinnu og að bjarga sjer sjálfir, verða miklu þrautseigari með að ryðja sjer braut í lífinu en hinir, sem ekkert hafa þurft að hafa fyrir lífinu.

Þessi tillaga háttv. fjvn. gengur því beinlínis í þá átt að sporna við því, að fátækir efnilegir unglingar sæki skólana, og um leið að stuðla að því, að þjóðin fái ljelega embættismenn.

Að vísu hefir nefndin lagt til, að veitt yrði undanþága frá þessum skólagjöldum, en slík undanþága gæti ekki komið til greina, fyr en nemandinn væri búinn að vera að minsta kosti 1–2 ár í skólanum. Yrði hún því að frekar litlu gagni.

Þá hefir háttv. nefnd lagt til að fella niður allan styrk til verslunarskólans og samvinnuskólans, því hún telur nægilegt vera til af lærðum mönnum í þeim greinum hjer. En hæstv. atvrh. (Kl. J.) hefir sýnt fram á, að engin meiri ástæða sje til að leggja þá skóla niður heldur en aðra sjerskóla, eins og t. d. kennaraskólann eða stýrimannaskólann. Annars hefði nefndin verið sjálfri sjer samkvæmust, ef hún hefði lagt til að stíga sporið stærra og leggja niður alla skóla í landinu. Barnafræðslan er vitanlega allra stærsti liðurinn, sem háttv. nefnd vill leggja niður. En um það er þegar búið að ræða svo mikið, að jeg skal ekki fara frekar út í það nú.

Þá hefir nefndin lagt til að fella niður styrk til framhaldsnáms kennara og einnig utanfararstyrk handa kennurum. En það hefir altaf verið talið jafnnauðsynlegt fyrir kennara eins og t. d. lækna að fara utan, til þess að kynna sjer hið nýjasta í fræðigrein sinni. Er því skoðun háttv. fjárveitinganefndar hjer sjerstök eins og svo víða annarsstaðar.

Annars get jeg ekki skilið, að það geti talist löglegt að samþykkja niðurfærslu á upphæðum, sem gildandi lög beinlínis ákveða, að skuli vera hærri. Jeg get því eigi skilið, að þessar tillögur sjeu framkomnar til annars en ef vera skyldi til þess, að háttv. þm. Dala. (B. J.) og aðrir háttv. fjárveitinganefndarmenn geti hælt sjer af því að hafa komið með fjárlögin tekjuhallalaus.

Þá er að minnast á unglingaskólana. Styrkinn til þeirra hefir nefndin hækkað. Það er öðru máli að gegna en jeg vilji mæla á móti þeim. En jeg vildi aðeins benda á, að ef unglingaskólarnir yrðu margir og lögleidd yrði skólaskylda á aldrinum 14–18 ára, eins og helst virðist vaka fyrir háttv. fjárveitinganefnd, hvort ekki myndi verða óánægja með þá, engu síður en barnafræðsluna, og yrði því að breyta í sama horfið aftur. Það er atriði, sem altaf er hægt að deila um, hvort árangurinn af skólagöngu sje mikill eða lítill, og því er haldið fram, að árangurinn af skólagöngu sumra manna sje mjög lítill, og jafnvel enginn, en þetta á við um nemendur jafnt í æðri skólum sem lægri. En út í það skal jeg eigi fara frekar nú.

Það er að eins einn skóli, sem háttv. fjárveitinganefnd hefir þótt ástæða til að styrkja meira en stjórnin lagði til, og það er kvennaskólinn á Blönduósi. Það er víst að sá skóli getur aldrei orðið eins alment sóttur eins og kvennaskólinn í Reykjavík. Og borið saman við hann, er vafasamt hvort rjett sje að auka styrkinn til Blönduósskólans.