31.03.1922
Neðri deild: 37. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (1216)

45. mál, frestun á framkvæmd laga um fræðslu barna og laga um skipun barnakennara og laun þeirra

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg hefi sannarlega ekki neitt á móti eldhúsdegi, áskil að eins, að hæstv. forseti leyfi mjer að segja nokkur orð til andmæla.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) fanst jeg lesa ástæður frv. fjvn. eins og viss herra les biblíuna, en það verð jeg að segja, að hafi þessi herra lesið biblíuna eins vel og jeg ástæðurnar, þá er hann orðinn vel heima í henni og getur ekki borið fyrir sig vankunnáttu í henni! Hv. þm. (P. O.) hefir ekki tekist að hrekja minn skilning á ástæðunum. Það er ómótmælanlegt, að það stendur í ástæðunum, að ef fje losni, þá skuli því varið til styrktar alþýðuskólunum.

Þá sagði hv. þm. (P. O.), að í ástæðunum stæði, að nefndin ætlaðist til, að kennurunum yrði að einhverju leyti sjeð fyrir uppeldi, en í ástæðunum stendur, að nefndin telur sjálfsagt, „að kennurunum verði goldið, svo að þeir missi einskis í“. Þarna sýnist mjer háttv. þm. (P. O.) hafi sjálfur lesið ástæðurnar á líkan hátt og hann telur herrann þar neðra lesa biblíuna. En eigi kennararnir einskis í að missa, og skuli enn fremur því, sem sparast, varið til aukinnar unglingafræðslu, þá er auðsætt, að sparnaðurinn er enginn. Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) og hv. frsm. fjvn. (B. J.) hafa líka viðurkent, að fyrir þeim vekti ekki sparnaður.

Þá sagði sami hv. þm. (P. O.), að jeg hefði ekki trú á unglingafræðslunni. En þetta er rangt; jeg hefi mikla trú á henni. Og til þess að sýna, að þetta eru meira en orð, skal jeg benda hv. þm. á, að þegar jeg var sýslumaður í Skaftafellssýslu, þá barðist jeg af alefli fyrir því, að stofnaður yrði unglingaskóli í Vík í Mýrdal, og ferðaðist um hjeraðið til þess að hvetja menn til að sækja hann, svo að skólinn gæti orðið styrks aðnjótandi. En þó að jeg sje með unglingafræðslunni, þá vil jeg ekki afnema barnafræðsluna, því að með því yrðu unglingaskólarnir að barnaskólum. En jeg hefi þá trú, að heimilin sjeu sumpart ekki fær um að hafa kensluna á hendi og sumpart vanti þau starfskrafta til þess. Afleiðingin mundi því verða sú, að ríku heimilin, eins og t. d. heimili þessa vinar míns, hv. þm. Borgf. (P. O.), mundu lítils í missa, en fátækari heimilunum gerð öll fræðsla ómöguleg. En þetta yrði rothögg á alla fræðslu í landinu. Jeg held, að jeg hafi þá sýnt fram á það, að fræðslumálabiblía hv. þm. (P. O.) er dálítið einkennileg í laginu. Eitt atriði í þessu máli er þó enn eftir, sem jeg vil fara um nokkrum orðum. Hv. þm. (P. O.) vill nota prestana til kenslunnar. En við þetta er það að athuga, að prestaköllin eru stór og nóg í að snúast. það opinbera má því með engu móti varpa þessum vanda á herðar prestanna.

Þá ætla jeg að snúa mjer að eldhúsdeginum í ræðu hv. þm. (P. O.), þar sem hann kom með þá lofsverðu viðleitni að reyna að sanna eyðslusemi mína. Vík jeg þá fyrst að þessum 250 þús. kr. Hefi jeg margsýnt það, að þar var um engan sparnað að ræða, því að það átti að auka unglingafræðsluna með því fje, sem sparaðist við barnafræðsluna, og halda kennurunum á fullum launum. En þó að sparnaður væri, hefði jeg samt sem kenslumálaráðherra ekki getað verið með því að leggja alla fræðslu í landinu í kalda kol. Hv. þm. (P. O.) getur því strikað þennan stóra lið út.

Þá eru 20 þús. kr. til prentunar á Alþt. Jeg skal játa, að jeg var á móti þessum sparnaði, sem raunar var ekki líkt því svona mikill, en jeg var á móti honum vegna þess, að jeg álít, að það eigi ekki að loka þinginu fyrir þjóðinni, og mun slíkt hvergi eiga sjer stað í hinum síðaða heimi, að halda þing fyrir luktum dyrum. Mestu áhugamennirnir í hverri sveit og leiðandi mennirnir lesa þingtíðindin, og það er ekki lítilsvirði, að þeir fái nokkum veginn rjetta mynd af því, sem fer fram á þinginu. Frásagnirnar í blöðunum eru oft æði litaðar og fara nokkuð eftir því, hver í hlut á, og lítillar sanngirni mega þeir oft vænta þaðan, sem lítinn hafa blaðastyrkinn.

Þá var launahækkun til sendiherrans. Jeg hefi nú svo margoft sýnt fram á nauðsyn þessa starfs, og atkv.greiðslur í þinginu hafa sýnt, að mikill meiri hl. þingsins lítur nú líkt á. Skírskota jeg að eins til þess, að 20 þm. hjer í deildinni voru mjer sammála um þetta. — En nú kem jeg að dálitlu skrítnu. Fyrverandi stjórn, sem hv. þm. (P. O.) studdi, hafði alveg sömu afstöðu og jeg til þessa atriðis; gerði enga till. um að lækka laun barnakennaranna, lagði sjálf til hækkun sendiherralaunanna o. s. frv. En hv. þm. (P. O.) vefur hana í rósablæju fyrir það sama, sem hann telur óhæfu hjá mjer. Það eru hillingarnar, sem villa.

Þá reiknar hann grískudócentinn með með 7200 kr. En þann reikning fæ jeg ekki skilið. Maðurinn ætti að hafa 2500 kr. biðlaun og dýrtíðaruppbót af þeim. Þetta gerir um 5000 kr. Og auk þess kemur svo tímakensla í grísku, sem vitanlega hefði orðið heimtuð, sem mundi varla hafa numið minna en 2200 kr. Og hvers virði er svo það, ef jeg kem í veg fyrir það, að há eftirlaun, eins og þessi, verði aftur innleidd á móti vilja þjóðarinnar? Annars verð jeg að segja, að meira vináttuþel hefir ekki verið sýnt nokkrum embættismanni en þessum, með eftirlaunaákvæðinu, og þeir, sem greiddu dagskránni atkv., gerðu honum sannkallaðan Bjarnargreiða. Hann hefði getað grætt stórfje, hefði hann farið frá embættinu með 5000 kr. í eftirlaun og haft svo allan vinnutíma sinn óbundinn. (S. St., lágt: Það efast jeg um).

Þá telur hann mjer til syndar 3000 kr. af launum Guðmundar Finnbogasonar. En hjer við er það að athuga, að margir af bestu lögfræðingum líta svo á, að hann hefði getað fengið sjer dæmd þessi laun til lífstíðar. Og hvar væri þá sparnaðurinn?

Þá skal jeg ekki fara um þetta fleiri orðum, en þakka að eins hv. þm. (P. O.), að hann gaf mjer tækifæri til þess að hrekja lið fyrir lið allar dylgjumar um eyðslusemi mína. Þakka honum einnig, að hann ljet mig njóta sannmælis og viðurkendi, að jeg sem fjármálaráðherra hefði jafnan barist gegn halla á fjárlögunum.