23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að gera örstutta athugasemd við 58. brtt. á þskj. 117 við 18. gr., um að lækka eftirlaun fyrverandi atvinnumálaráðherra Sigurðar Jónssonar. Jeg vil mæla með því, að háttv. deild láti þennan styrk standa óbreyttan, og virðist það smásmuglegt að lækka eftirlaun þessa manns, þar sem mjer er fullkunnugt um, að hann safnaði ekki fje meðan hann var ráðherra. Auk þessa er maðurinn nú orðinn gamall, kominn á sjötugs aldur, og heimafyrir á kona hans við heilsuleysi að berjast. Sýnist mjer því ekki rjett að lækka eftirlaun hans nú, enda er ekki mikill sparnaður að því, og mun jeg ekki telja mig ósparnaðarmann fyrir því, jafnvel þótt háttv. þm. Borgf. (P.O.) haldi því fram. Annars skildist mjer, að þessi háttv. þm. væri því meðmæltur, að veittar væru 4000 kr. til Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar, og fæ jeg ekki betur sjeð en þar hafi þó verið stofnað til eftirlauna. (P.O.: Sá styrkur fellur undir styrk skálda og listamanna, án þess að hann hækki nokkuð frá því sem nú er). Það má alls ekki skilja orð mín svo, að jeg telji þann styrk eftir. Þvert á móti. En það er þó allstór útgjaldapóstur, sem háttv. sparnaðarmenn hafa þar fallist á. Þykir mjer því illa við eiga, að þeir skuli nú vilja lækka eftirlaun Sigurðar Jónssonar.