15.04.1922
Neðri deild: 48. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (1320)

40. mál, hæstiréttur

Magnús Jónsson:

Mjer virtist, að hv. frsm. allshn. (J. Þ.) legði fullmikla áherslu á það, hversu andvíg bæði lagadeildin og hæstarjettardómendur væru þessu frv., og hefðu því talið alt til, sem á móti getur mælt. Mjer finst þvert á móti, að ástæða hefði verið til, að þeir menn, sem í þessum stöðum eru, hefðu verið með sameiningunni í hjarta sínu, því að hún getur orðið þeim til hagsmuna persónulega, og það ber því vott um mikla ósjerplægni og umhyggju fyrir landsheill, að þeir skuli samt hafa lagt á móti. En þá er þess ekki neitt sjerstaklega að vænta, að þeir hafi verið svo nákvæmir í upptalningu þess, sem á móti mælti, eins og hv. frsm. (J. Þ.) sagði.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) tók af mjer ómakið að minnast rækilega á, hversu afaráríðandi það er, að dómstóllinn njóti fulls traust út á við.

Sökum þess að við erum smáþjóð, verður það að vera okkar eina vörn, að rjettarmeðvitund annara þjóða hafi ekkert út á æðsta dómstól vorn að setja. Þýðir hjer ekkert að vitna til Ameríku. Er hvorttveggja, að um slíka samsteypu er þar ekki að ræða, sem hjer er farið fram á, og svo hitt, að stórveldin geta haldið uppi sínum dómum, enda þótt aðrir geti fett fingur út í skipulag þeirra og fyrirkomulag, en fyrir okkur, smáþjóðina, er alt undir því komið, að dómarnir sjeu sem sannastir og tryggastir og fyrirkomulag dómstólsins svo, að enginn efi geti kviknað um áreiðanleik hans.

Er og enn þess að gæta, að dómaskipunin í Bandaríkjunum þykir lítil fyrirmynd, einkum sökum þess, að dómendur eru þar kosnir. Hafa hæstarjettardómar þar margir verið mjög vefengdir.

Um það, hvort kenslan er umboðsstarf, held jeg að sje svo augljóst, að ekki taki því að þrátta um það.