18.02.1922
Neðri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (1349)

8. mál, kennaraskóli

Bjarni Jónsson:

Það átti víst að vera hnúta til mín, að nefndin hefði eigi þörf neinna upplýsinga frá mjer.

Jeg var nú eigi að bjóða mig fram sem neinn upplýsara, heldur vildi jeg aðeins sem þm. láta uppi skoðun mína, þó einhverjum kunni að sýnast hún lítilfjörleg. Sýnist mjer, að nú, þegar fjöldi nefnda er settur til þess að fækka starfsmönnum ríkisins og koma fram með ýmiskonar bjargráðatillögur, sje síst úr vegi að benda á eitthvað, sem til sparnaðar mætti verða um heilan skóla.

Skal jeg nú gera það betur og benda t. d. á það, að óþarfi er að hafa við skólann nema 1–2 æfingakennara. Kensluna í uppeldis- og sálarfræði, sem mest er þörfin á að vel sje kent, getur háskólinn annast. Þar kenna 2 ágætir kennarar þessi fræði, og mundi þeim báðum ljúft að kenna kennaraefnunum, enda gætu eigi undan því skorast, þótt þeir vildu. Mætti því spara alt nema æfingakensluna, og fá þó betri niðurstöðu.