23.03.1922
Neðri deild: 30. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (138)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Jónsson:

Jeg vil með nokkrum orðum gera grein fyrir brtt. minni á þskj. 131, X. lið, sem fer fram á, að Ólafur J. Hvanndal sje ekki krafinn um eftirstöðvar af viðlagasjóðsláni, sem er að upphæð kr. 4334.00.

Það er vitanlegt, að þessi iðn, sem hann rekur, er ekki arðvænleg, og gengur erlendum myndamótaverksmiðjum mjög illa að bera sig, þrátt fyrir það, þó að þær hafi miklu betri aðstöðu heldur en hjer getur verið um að ræða; fyrst og fremst af því að þær hafa miklu meira verkefni, og í öðru lagi fá þær mikið af stórum myndum til þess að gera mót af, en stóru myndirnar eru þær, sem mestan arðinn gefa að tiltölu. En hjer eru mestmegnis gerð mót eftir smámyndum, og verður það því lítt arðvænlegt. Verkið er svipað, en gjaldið er greitt fyrir myndamótin eftir fersentimetrum. Hjer var nýlega sett upp önnur myndmótaverksmiðja, en hún hætti fljótlega, því að hún bar sig alls ekki.

Það er nú orðið öllum ljóst, að nauðsynlegt er að hafa þessa myndamótagerð í landinu, og því megi hún ekki leggjast niður.

Því hefir verið haldið fram, að blöðin og tímaritin ættu að kosta prentmyndagerðina. En slíkt er ekki rjett, því að tímaritin þola svo lítinn aukakostnað, því að það er enginn gróði á því að gefa þau út. Einnig flytja tímaritin venjulega svo lítið af myndum, að það er varla teljandi. Það eru mest einstakar bækur og blöð, sem nota myndamót, meðal annars til auglýsinga, og væri hart, ef tímaritin ættu að bæta á sig aukakostnaði vegna slíks. En ef þau vildu ná upp kostnaðinum með því að hækka verð mótanna, hverfur atvinnan frá þeim til útlendu verksmiðjanna.

Ef þessi myndamótun legðist niður hjer mætti búast við, að menn leituðu til útlanda með að fá þessi myndamót. Jeg vil því biðja háttv. þingmenn um að athuga þetta vel áður en þeir greiða atkvæði á móti því, því að ef þessi prentmyndagerð legst niður hjer, má búast við að margar þúsundir króna verði borgaðar út úr landinu fyrir prentmyndir. En um það eru allir sammála, að spara þurfi allar útborganir út úr landinu.