03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (1458)

65. mál, sameining Árnessýslu og Rangárvallasýslu

Gunnar Sigurðsson:

Jeg þarf ekki miklu að svara hv. 1. þm. Eyf. (St. St.). Hann sneiddi fram hjá aðalatriði málsins og reyndi aðeins að snúa út úr og afbaka það, sem jeg hafði sagt. Einna lúalegast var, hve hann reyndi að hanga í mismæli, sem mjer hafði orðið, og jeg þá þegar leiðrjetti.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) sagði, að jeg þekti ekkert til á Siglufirði, en jeg hefi hjer nýjustu hagskýrslur, og þar stendur, að 1919 hafi mannfjöldinn verið þar 1175, en 1920 aðeins 1125. Þetta sýnir ljóslega, að fólkinu hefir fækkað, enda vitanlegt, að aðalatvinnuvegurinn þar er í afturför. — Þá vildi hv. sami þm. (St. St.) gera mikið úr starfi bæjarfógetans, en það er ekki meira en svo, að lögreglustjóri gæti hæglega annast það, eins og áður.

Það er að vísu satt, að í sýslunum eystra hefir fólki heldur fækkað síðustu árin, en eins og jeg tók fram áðan, eru miklar líkur til þess, að því muni fjölga að mun á næstu árum.

Þá kem jeg að mismælinu, sem hv. þm. (St. St.) varð mestur matur úr. Þótt mjer yrði á að segja, að sýslurnar mundu stækka, hjelt jeg, að enginn væri svo skyni skroppinn, að hann ekki vissi, að jeg ætti við mannfjöldann, enda leiðrjetti jeg þetta mismæli þá þegar.

Þá talaði hv. sami þm. (St. St.) um Heklugosin, og finst mjer tæplega sæmilegt að vera að minna okkur Rangæinga á þær mestu hörmungar, sem yfir sýsluna hafa dunið. Mætti í því sambandi benda á snjóflóðin á Siglufirði. Jeg man ekki betur en að þar hafi nýlega komið fyrir snjóflóð, sem sópaði burt húsum og gerði önnur spell. Það er því meira en vafasamt, hvort ætti að vinna að því að stækka kaupstað, þar sem altaf mætti búast við slíkum ófögnuði.

Það, sem hann talaði um þara í sambandi við sýslumanninn, var eingöngu marklaust hjal. — Þá talaði hann um, að mikið væri um málaferli á Siglufirði, og mun það rjett vera, því að þar eru óeirðamenn miklir, að minsta kosti á sumrum, en samt held jeg, að lögreglustjóri dugi til þess að halda þeim í skefjum. Aftur á móti er það misskilningur, sem hann sagði við 2. umr., að ekki væru miklar skipagöngur til Stokkseyrar og Eyrarbakka.

Hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) linaðist mjög í sókn sinni, er þessi brtt. kom fram. Skal jeg samt ekki ámæla honum fyrir það að vilja hjálpa Siglfirðingum, en vona, að ekki sannist á honum hið fornkveðna, að „sjaldan launar kálfur ofeldi.“

Hvað snertir brtt. sjálfa, þá get jeg fullvissað háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) um, að hún er algerlega formleg.

Viðvíkjandi kosningu á bæjarstjóra, þá mun ekki vera hægt að banna þeim það, ef þeir vilja, en jeg held, að þeir geti látið sjer nægja hreppstjóra með lögreglustjóravaldi.

Um dagskrána skal jeg taka það fram, að mjer er sama, hvort hæstv. stjórn tekur málið að sjer, eða það verður leitt til lykta hjer á hv. Alþingi.