25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (1553)

32. mál, aðflutningsbann á áfengi

Jón Baldvinsson:

Jeg skil hvorki, að hv. þm. nje hæstv. forsrh. (J. M.) hafi getað skilið orð mín svo, að jeg væri að ásaka sendimann landsins, hr. Gunnar Egilson. Jeg sagði aldrei, að hann hefði ekki gert alt það, sem hann gat. En mjer virtist, og virðist enn, þrátt fyrir ræðu hæstv. forsrh. (J. M.), að óheppilegt hafi verið að velja hann til þessa starfa, vegna afstöðu hans hjer heima, þar sem hann hafði verið allmjög riðinn við deilurnar um bannlögin. Og varla getur þó hjá því farið, að mönnum detti bannlögin í hug í sambandi við þetta Spánartollsmál, hvað sem hæstv. forsrh. (J. M.) segir.

Jeg sje ekki, að það þurfi neitt að seinka úrslitum þessa máls, þótt þetta frv. sje felt. Samningsmálið er eftir fyrir því, þótt frv. falli, og jeg tel einmitt þá aðferð líklegasta til þess að góður árangur fáist á samningunum.

Og þó að alt um þrotni, þá er altaf hægt að taka málið upp aftur í öðru sniði. Og jeg held nú nærri því, að jeg gæti fremur greitt atkv. með hreinu afnámi bannlaganna en þessu frv., sem hjer liggur fyrir.