01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í C-deild Alþingistíðinda. (1585)

26. mál, heimild til sölu þjóðjarðarinnar Sauðár

Frsm. (Jón Þorláksson):

Eins og nál. ber með sjer, hefir nefndin fallist á þetta mál með þeirri breytingu, að söluheimildin gangi í gildi við ábúendaskifti.

Það hefir verið leitað samninga milli Sauðárkrókshrepps og ábúanda um, að hann stæði upp af jörðinni, og hefir hann fallist á það með ákveðnum skilmálum. En innan hreppsins munu vera skiftar skoðanir um það, hvort nauðsynlegt sje að fara samningaleiðina, og hvort ekki muni mega finna útbyggingarsakir á hendur ábúanda, ef hreppurinn ætti jörðina.

Nefndin áleit rjett að orða till. svo, því hún vill með engu móti eiga neinn hlut að máli um það, hvort byggja megi núverandi ábúanda út. En eins og ábúðarlögunum er nú háttað, er hætt við, að ábúandi brjóti í einhverju bókstaf þeirra, svo finna megi ástæðu til þess að byggja honum út, ef jarðeigandi leggur kapp á það. Auk þess virðist tilboð hans alls ekki innifela neina afarkosti, ef hreppsbúar á annað borð telja sjer umráð jarðarinnar nauðsynleg.

Ef till. nefndarinnar verður samþ., getur það orðið samningsatriði, að ábúandinn standi upp af jörðinni, en nefndin álítur ekki rjett að ganga hart að ábúandanum, sem hefir setið um 40 ár á jörðinni og nú er orðinn háaldraður.