08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í C-deild Alþingistíðinda. (1621)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Frsm. meiri hluta (Magnús Jónsson):

Háttv. frsm. frv. þess, sem hjer liggur fyrir (Sv. Ó.), var hálfundrandi yfir því, að meiri hluti viðskiftanefndar skyldi skrifa nefndarálit um þetta mál. En þar sem hann upplýsti nú sjálfur, að hæstv. stjórn ætti þátt í frv., þá má nærri geta, að hún hefir ekki komið með það til minni hlutans eins, á næturþeli, heldur lá það fyrir nefndinni í heild. Og af því að minni hlutinn hefir nú tekið það til fósturs, getur meiri hlutinn ekki gengið fram hjá því þegjandi fyrir sitt leyti. Hann hefir því gefið út nefndarálit um það og valið sjer framsögumann af sinni hálfu.

Eins og vita mátti frá því fyrir alllöngu, var skoðanamunur talsverður á þessum málum, og beitti einn flokkur og eitt blað sjer fyrir því, að innflutningshöft væru sett hjer á nú, til þess að frelsa ættjörðina, eða, sem rjettara mun að segja, til þess að geta eignað sjer og sínum ráðstöfunum þá frelsun ættjarðarinnar, sem allir vonast eftir að nú sje í vændum. Öðruvísi verður það varla lagt út að koma einmitt nú með slíkar ráðstafanir, þegar vitanlegt er öllum, að þær ástæður, sem á sínum tíma áttu að rjettlæta innflutningshöft, eru að hverfa eða horfnar, og sá móralski styrkur, sem bak við slíkar ráðstafanir verður að standa, svo sem fordæmi annara þjóða, höft og erfiðleikar í viðskiftum undanfarið og sú þolinmæði, sem menn á stríðstímunum og fyrst þar á eftir höfðu gagnvart þvingunarráðstöfunum, eru úr sögunni.

En látum nú hvern um sínar hvatir. Þar kann enginn að rannsaka hjörtun og nýrun, en hitt er þá nær, að athuga, hve mikið af skynsamlegu viti, framsýni og viðskiftahyggindum, lýsir sjer í því, sem lagt er til.

Ef litið er þá fyrst alveg alment á málið og það, hve hyggilegt og hve gerlegt sje að koma nú á innflutningshöftum, þá er á það að minnast, hve mikil stefnufesta kemur fram í þessu máli. Á þinginu í hitt eð fyrra, 1920, voru sett heimildarlög fyrir stjórnina til að banna innflutning á óþarfa varningi, 8. mars. Á þeim grundvelli reisti svo stjórnin hina fögru byggingu, sem viðskiftanefnd var kölluð og menn munu tæplega gleyma á næstu árum. Gaf stjórnin út bæði reglugerð og bráðabirgðalög, er lutu að þessu, og átti nú eitthvað undan að láta. Bæði átti nú að spara allan óþarfa, svo að landið losnaði úr skuldaklípunni við útlönd, og svo líka til þess, að skipin, sem til landsins sigldu, væru ekki svo hlaðin óþarfa, að landslýðurinn sylti í hel af matvöruskorti.

Því skal nú engan veginn neitað, að ástandið, sem blasti við mönnum á þingi 1920, var ekki álitlegt, og alt öðruvísi var það þá en nú, og miklu meiri vorkunn, þótt menn vildu þá grípa til slíkra ráðstafana. Þá var líka þessi stefna uppi hjá frændþjóðum vorum og nágrönnum, og vorkunn, þótt litla barnið taki ýmislegt eftir stóra bróður. Þá var ekki heldur reynslan búin að reka skýjaborgunum þann löðrung sem nú, svo að menn lifðu í sælli og bjartri pappírsborg. Í þessa nefnd völdust góðir menn, sem fullkomlega var hægt að treysta.

Svo kom reynslan, en reynslan er, eins og menn þekkja, ekki æfinlega leiðitöm við hugmyndasmiðina. Og óánægjan, sem fljótt kom í ljós, var besti votturinn um það, hve ómögulegt ofurefli hjer var við að etja. Til þess að gera langa sögu stutta, þá mátti svo heita, að eftir ársstarf sæist hvergi árangur haftanna. Og jafnvel meðhaldsmenn þeirra játuðu það, en sögðu, að það væri ekki að marka, því að það væri þeirra eðli, að þau gætu ekki komið að haldi fyr en alllöngu eftir á. Nefndin hefði einmitt verið búin að gera undirbúningsstarf sitt, og ávextirnir hefðu farið að koma í ljós, þegar hún var látin hætta.

Það er svo um höftin, það er eilíft hefði, hefði. En eins og maður veit, þá stoðar það ekki baun. Það er vel til, að innflutningsnefndin hefði getað starfað með meira árangri næsta ár. En hvers vegna? Langmest vegna þess, að þá voru viðskiftin, alveg af sjálfu sjer, að færast í rjettara horf. Jeg efast ekki um, að hefði viðskiftanefndin starfað fram að þessu, þá væri alt það, sem nú hefir kipt úr innflutningnum, verið eignað hennar blessunarríka starfi.

Þingið í fyrra ljet nú hætta þessu. Það lagði ekki sitt nauðsynlega samþykki á bráðabirgðalögin frá 15. apríl 1920, og stjórnin ljet viðskiftanefndina hætta. Það kom úr dánarbúinu firn af skýrslum, órækur vottur um elju og starf þessara góðu „kontór“-manna, sem þar unnu, en þau ótemjulæti, sem menn hjeldu að hlaupa mundu í allan innflutning, komu ekki. Það var annað og miklu sterkara afl, sem hjelt í taumana, og það var viðskiftalögmálið. Kaupmenn hafa ekki mikla löngun til þess að flytja inn firn af óþörfum vörum, þegar markaðsverð er lækkandi, svo að hver, sem síðar kaupir, getur undirboðið hinn, og kaupgeta fólksins er lítil. Þegar fólkið fer að velta peningunum þrisvar, áður en það kaupir, þá veltir kaupmaðurinn því jafnan oft við í höfði sjer, hvað honum sje óhætt að flytja inn, svo að hann sleppi skaðlaus.

Þarna voru nú tvö þing búin að fara hvort ofan í annað í þessu máli, þar sem mest ríður á beinni stefnu. En viti menn! Á þriðja þinginu í röðinni vilja menn svo breyta um enn og snúa nú aftur, eins og ritningin segir, „til spýju sinnar“ frá því í hitt eð fyrra. Og svona á þá væntanlega að „krusa“, eins og skip undan kafbát, fyrst um sinn.

Í fyrra var hægt að byggja á undirbúningsstarfi viðskiftanefndarinnar. Og þá voru menn með höftin á fótunum. En þá var það ráðið af að fella þau niður. En nú, þegar búið er að gera alt starf nefndarinnar ónýtt, og þegar búið er að láta verslunina vera nokkurn veginn frjálsa í ár, þá á að fara að hefja starfið á nýjan leik.

Fyrst verður nú þá að byrja á ársundirbúningi; það er nú það minsta. Það er byrjað á því að skrafa um væntanleg höft, til þess að allir, sem geta, skuli vera varir um sig og birgja sig sem best. Mjer kæmi ekki á óvart, þótt þetta skraf, þessi urðarmáni á viðskiftafestingunni, væri búinn að gera viðskiftajöfnuðinum meira tjón en höft nokkru sinni gætu bætt upp. Svo ættu nú höftin sjálf að koma. Nú eru kaupmenn vafalaust búnir að gera langsamlega megnið af innkauparáðstöfunum sínum fyrir árið. Ekki getur komið til mála að ónýta slíkar ráðstafanir, því væntanlega yrði það ekki til þess að auka viðskiftalegt álit vort út á við, eða bæta fyrir oss þar, að neyða kaupmenn til þess að brigða orð sín eða ganga á gerða samninga.

Þetta, hve alt í þessu efni er seinvirkt, sýnir ljóslegast, hve mikil firra það er að hringla sitt árið í hverja áttina í þessum málum. Jafnvel þótt viðskiftahöft væru annars heilbrigð, þá verða þau það aldrei með því lagi. Þess vegna get jeg svo vel skilið, að þeir, sem í fyrra voru á móti því að fella úr gildi bráðabirgðalögin og þar með viðskiftanefndina, þeir sjeu nú jafneindregnir á móti því að fara að setja höftin á aftur. En hina sálarfræðina á jeg dálítið erfiðara með að skilja, að vera með afnámi haftanna í fyrra og ónýtingu alls, sem unnið hafði verið, en vera nú með því að tjasla því upp af nýju úr slitrunum.

Þá er hitt, sem ekki er minna virði, hve miklu erfiðara er að fá menn til að sætta sig við slíkar þvingunarráðstafanir eftir að þær hafa einu sinni verið afnumdar. Ættu menn að muna reynsluna í því efni frá því, þegar átti að fara að taka upp aftur seðlaskömtun, en reyndist alveg ógerningur, af því að einu sinni hafði verið hætt. Svo mundi og verða í þessu efni, nema hægt væri að benda á alveg sjerstakar, knýjandi ástæður, og þær nýjar. Það er ekki nóg að þyrla upp mekki af almennum slagorðum um ilt ástand og mannfjölda hjer á götunum! Það verður að sýna samband þess við þetta mál. Meðalið þarf að hafa tvo kosti: Það þarf að eiga við sjúkdóminn, og það má ekki gera sjúklingnum stórskaða að öðru leyti. Hitt er skottulækning.

Þá er fyrst að líta á og gera upp fyrir sjer viðskiftaástandið. Allir munu geta fallist á, að það sje ekki gott, og langt frá því. En það ástand er arfur frá fyrri árum. Árið 1918, sem var gott ár fyrir atvinnuvegina að því er afurðasölu snertir, lokkaði menn út í stórkostlegar framkvæmdir og undirbúning framkvæmda á árinu 1919, sem fyrir ýmsra hluta sakir má kalla ógegndarárið. Framtakssama menn dreymdi gulldrauma, og lánin voru mjög laus fyrir, utan lands og innan. Alt var á hátoppi hvað verð snerti, en menn höfðu von um, að afarverð hjeldist á afurðunum. En margt brást. Má fyrst nefna síldarútgerðina. Hún var rekin með ægilegum kostnaði. Fullsöltuð síldartunna mun hafa kostað að meðaltali 60–70 krónur, og framleiðslan varð mjög mikil. En salan brást svo, að það mun ýkjulaust, að á þeirri einu atvinnugrein hafi tapast um 10–12 miljónir króna. Auðvitað kom það tap ekki alt niður á verslunarjöfnuðinum við útlönd beinlínis, en þó var það mjög tilfinnanlegt, og meiri parturinn af því mun hafa skilað sjer í þeirri mynd, beinlínis og óbeinlínis. Þá brugðust mönnum og vonir um hin stórfeldu skipakaup. Milli 10 og 20 miljónir hafa farið út úr landinu fyrir skip, stærri og smærri, en mörg þeirra komu ekki fyr en tækifærið til að græða á þeim var um garð gengið, og ekkert þeirra náði í nema skottið á gróðanum. Það þarf því enginn að standa undrandi yfir því, þótt hagurinn væri ekki góður. Auk þess fylgdi þessu afarmikil og góð atvinna, svo að menn höfðu alment mikið fje handa milli, og kaupgetan óx og verðið hækkaði, og innflutningslöngunin óx að sama skapi. Undir slíkum kringumstæðum verður verslunarjöfnuðurinn ekki góður, þegar afurðasalan bregst samtímis.

Það getur því varla komið neinum mjög á óvart, þótt viðskiftaskuldir við útlönd væru í marsmánuði 1921 undir það 34 miljónir kr. umfram inneignir.

Nú er viðskiftaástandið það, að um áramót voru viðskiftaskuldir umfram inneignir um 23 miljónir. En þá lágu óseldar afurðir, sem innlendir menn áttu, fyrir um 4 miljónir, en þær eru nú víst seldar, og andvirði þeirra má reikna frá þessum skuldum, en þá verða eftir 19 miljónir. Ef nú er bætt við þetta um 4 milj. af enska láninu, sem líklega mun rjett, ef gera á upp við sig viðskiftareikningana fyrir árið, þá eru þær skuldir, sem sambærilegar eru við þessar 34 miljónir í fyrra, nú 23 miljónir, eða 11 miljónum minni en í fyrra. Þetta ætti þá að sýna nokkurn veginn verslunarjöfnuðinn á árinu. Og jafnvel þótt enn væri af þessu slegið, og það allverulega, þá verður þó aldrei hægt að fara svo með reikningana, að ekki verði útkoman sú, að á árinu 1921, sem var þó að mörgu leyti erfitt ár, hafi verið borguð allveruleg upphæð af eldri skuldum, en það þýðir sama sem að verslunarjöfnuðurinn hafi verið hagstæður. Það má ef til vill segja, að útgerðin hafi grætt á ósamkomulagi Spánverja og Norðmanna, en ekki vil jeg leggja mikið upp úr slíku, en hitt er víst, að það aðfengna efni, sem útgerðin starfaði með, var langtum dýrara en framvegis þarf að vera, og um landbúnaðinn vita allir, hve óhagstæða afurðasölu hann bjó við. En samt hefir verið borgað það, sem aðfengið var, og talsvert mikið umfram.

Því miður hefir maður ekki skýrslur til að byggja á í þessu efni, til þess að sýna, hvernig þessi verslunarjöfnuður er á kominn. En þó má sjá það, að árið 1920 hefir yfirleitt verið lægra en 1919 með innflutning, og þó hygg jeg, að öllum muni koma saman um, að árið 1921 hafi verið til muna lægra með innflutning en 1920, og á því byggist þetta að miklu leyti. Hjer í höfuðstaðnum hygg jeg að fá mætti óræka vitnisburði um það, hve verslun öll hefir verið miklu minni en árin á undan, og alt gengið treglegar út, en það ræður vitanlega mestu um það, hve mikla áherslu kaupmenn leggja á það að nálgast vöruna, því þótt sumum virðist það ekki ljóst og haldi, að kaupmenn vilji helst hrúga inn birgðum á birgðir ofan, ef verslunin sje frjáls, þá þarf ekki nema heilbrigða skynsemi til þess að sjá, hve fjarstætt slíkt er. Allur fjöldinn, eða allir rjettara sagt, þurfa lán til vörukaupa, en auk þess, hve erfitt er um að fá lán, þá er það ekki bein freisting fyrir kaupmenn að leika sjer að því að liggja með birgðir upp á tugi þúsunda og borga af því milli 8 og 9%. Nei, úrkippur í kaupgetu fólksins leiðir af sjer á augabragði úrkipp í innflutningi, — nema menn eigi von á innflutningshöftum, og kem jeg að því atriði síðar.

En svo er annað, sem veldur því, að innflutningurinn 1921 hefir numið minna en á undan, og það er stórlækkað innkaupsverð. Það er ekki nóg að líta á tonnatalið, því það er sitthvað, hvort borgaðar eru 150 krónur fyrir hlutinn eða 100.

Ef oss þykir ótrúlegur hinn góði verslunarjöfnuður ársins sem leið og leitum að orsökum hans, þá eru þær því í raun rjettri auðsæjar strax á því að athuga innflutninginn, bæði magn vörunnar og verð.

Hinar 3 eðlilegu orsakir til takmörkunar á innflutningnum eru þessar:

1. Sparnaðarviðleitni hjá þjóðinni.

2. Kaupgetuleysi, sem stafar af því, að peningar verða fastari fyrir.

3. Lækkandi vöruverð, sem hvetur menn til þess að geyma innkaup sín í lengstu lög.

Þessar ástæður eru nú þegar farnar að starfa, og þær hafa gert það, sem löggjafarvaldinu mistekst, og hlýtur að mistakast að gera með bolatökum.

Ef vjer lítum svo á horfurnar, sem nú eru fram undan, þá verður ekki sagt, að þær sjeu neitt illar hvað snertir atvinnuvegina. Auðvitað má segja, að alt slíkt sje spádómur, og jeg skal ekki fara að taka hjer þátt í þessum deilum, sem orðið hafa hjer í þessari háttv. deild um gildi slíkra spádóma, árekstur sólkerfa og bráðan bana allra og annað slíkt, sem getur ruglað alt rím, en jeg hygg þó, að það verði jafnan erfitt fyrir hið háa Alþingi að komast alveg hjá því að meta horfur og miða ráðstafanir sínar að nokkru við þær. Og það er ekki neitt skynsamlegt vit, sem segir manni, að afkoma ársins 1922 muni verða lakari en ársins 1921.

Jeg hygg því, að það verði nokkuð erfitt að finna því stað, að ætla nú að fara að gera slíkar ráðstafanir, sem hjer er um að ræða, ráðstafanir, sem ekki verða rjettlættar með neinu nema alveg sjerstökum og nýjum voðahorfum.

Þá er að líta á hitt atriðið, sem jeg drap á áður, að meðalið yrði að eiga við sjúkdóminn og að það mætti ekki gera sjúklingnum annan og verri skaða.

Jeg þykist nú hafa sýnt, að hjer er ekki neinnar skottulækningar þörf. Náttúrunnar læknandi máttur er farinn að starfa, og hann mun, ef látinn er afskiftalaus, verða einhlítur. En setjum nú svo, að menn vildu óvægir nota meðalið og segðu eins og í sögunni: Það skal í hann! Hvaða áhrif hefði það? Hvaða áhrif mundu viðskiftahöft þau, sem frv. gerir ráð fyrir, hafa? Við skulum um fram alt horfa á það með opnum augum og berum, en hvorki blundandi nje gegnum neinar litarbrillur.

1. Það er þá fyrst, að bann eða höft á vörum mundu valda verðhækkun, sem engin stjórnarvöld, nefndir nje reglugerðir mundu ráða við, enda játaði hv. frsm. minni hl. (Sv. Ó.) það í vissu falli. — Horfum aðeins með berum augum á verðlagsráðstafanir vorar á undanförnum árum. Það er von, þótt menn villist í fyrsta sinni, og það er afsakanlegt í annað sinn. En það er óafsakanlegt, að geta aldrei lært af reynslunni. Þegar samkepni er útilokuð, og jafnvel hætta á þurð, þá hækkar varan. Við getum eins vel gert lagaráðstafanir til þess, að ekki hækkaði í sjónum um aðfall, eins og í þessu efni.

En svo er líka annað. Er það afsakanlegt, þegar verðlag fer lækkandi á erlenda markaðnum, að banna innflutning á þeirri nýrri vöru, en vernda okurverð á því, sem flutt er inn undir óhagstæðari skilyrðum.

Vjer lendum altaf í sama feni, og ef við viljum hafa innflutningshöft, þá eigum við að taka þau með þessari vissu fyrir augum, en ekki ljúga að sjálfum oss, til þess að friða flokkssamviskuna.

2. Í nánu sambandi við þetta er önnur afleiðing haftanna, en hún er sú, að vörukaup almennings glæðast og aukast strax þegar bann eða höft koma á vöruna, og slá höftin þar sjálf sig löðrung. Vonin um verðlækkun, sem er langsterkasta aflið til sparnaðar, er þá tekin burt, og í stað hennar kemur óttinn við, að varan hækki eða fáist alls ekki, sem hefir þær afleiðingar, að menn reyta sig til þess að ná í vöruna. Við það eykst eftirspurnin, og verðið hækkar, og þegar varan er þrotin, er tekið að knýja á með undanþágur, og þá er ekki dregið af upphæðunum, til þess að vera viðbúinn afslættinum. Þó að slík nefnd skeri pantanir manna niður í 1/3 eða ¼, þá er það engin sönnun fyrir því, að nefndin hafi í raun og veru heft innflutninginn um nokkra ögn, því að kaupmenn miða pantanirnar við þekkingu sína á niðurskurðarhæfileikum nefndarinnar. Höftin vekja þannig beina tilhneiging til aukins innflutnings. En sje nú alveg bann á viðkomandi vöru, þá verður freistingin afarmikil að afla hennar á óleyfilegan hátt, en eftirlitið hjer þekkja allir, og það um bannvöru, sem sterkara afl stendur á bak við og gerir vart við sig með afleiðingum sínum á töluvert skýrari hátt en t. d. gullhringur eða silkipjatla. Nei, ekki skulum vjer heldur í þessu efni loka augunum og svíkja oss sjálfa.

3. Þetta er sparnaðarráðstöfun fyrir heildina, segja menn. Öllum getur komið saman um það, að ástand vort lagist ekki, nema með því að hætta að kaupa meira en við getum borgað. Það er ósköp einfalt mál, og ekkert deilt um það, þó að haftamenn haldi, að þeir hafi einhverskonar „patent“ á þessum sannleika. En það, sem deilt er um, það er, hvort innflutningshöft sjeu nauðsynleg í þessu efni, og hvort þau verki. En þá er að líta á það, að þessi sparnaður fyrir heildina verður að ósparnaði fyrir flesta einstaklinga þjóðarinnar. Þetta verður með tvennum hætti. Fyrst með því að sprengja upp vöruverðið, eða í besta falli koma í veg fyrir verðlækkun. En svo er líka á annað að minnast. En það er það, að ríkissjóður mundi missa allverulegar tekjur við innflutningshöftin, ef þau yrðu nokkuð annað en kák. Og reyndar kannske að sumu leyti þótt þau væru kák, að svo miklu leyti sem þau hlaða undir viðleitni manna til leynilegs innflutnings. Fyrir þessu tekjutapi yrði að gera jafnframt því, að höftin væru sett á, og skil jeg raunar ekkert í því, hvers vegna háttv. flm. frv. hafa ekki jafnframt bent á leið til þess. Það hefir kannske verið litið svo á, að það mundi ekki afla frv. vinsælda. Því sje það oftraust á stjórn, að fela henni það vald, sem í frv. felst, þá er það þó enn meira oftraust að fela henni skattalöggjöf um leið. En jeg býst við, að fjeð í ríkisfjehirslunni verði, því miður, ekki of mikið, þótt skattstofnar þeir, sem nú er bygt á, verði ekki snertir. — Hvar ætti nú að bera niður til þess að ná þessu fje? Tekjuskatturinn býst jeg ekki við að heimtist of vel, eins og hann er. Nei, ætli það yrði ekki að flýja til tollhækkunar á því, sem frjálsastur væri innflutningur á, sem sje nauðsynjavörunum? En þá er það auðsætt, að sparsemdarmaðurinn, sem neitar sjer um óþarfann, hann er neyddur til að bera hlutfallslega meira af skattabyrðinni en rjett er, og sparnaður hans gerður að sama skapi erfiðari og árangurslausari.

4. Þá vil jeg nefna það með ókostum slíkra ráðstafana, að svifta hóp manna atvinnu fyrir það, að atvinna þeirra byggist beinlínis eða óbeinlínis á innflutningi óþarfavöru. Þessir menn hafa rekið atvinnu sína án þess að þeir eða aðrir hafi nokkru sinni talið það óheiðarlegt eða skaðlegt fyrir landið. Gullsmiðurinn hefir t. d. rekið sína atvinnu nákvæmlega jafnt undir lögum landsins eins og bakarinn. Menn hafa varið miklu til þess að koma atvinnugrein sinni upp, og það er alósýnt, að þessir menn hlaupi þegar inn í aðra atvinnu, sem þeir geta lifað af. Jeg skal láta, að jeg tel þetta ekki með stærsta böli haftanna, en jeg tel það samt alveg óforsvaranlegt að gera fjölda manna slíkan usla fyrir dægurþyt, sem ef til vill er á næsta ári liðinn hjá, því hver veit nema þessir sömu hv. þm. verði orðnir alls annars sinnis á næsta þingi. Þeir geta alveg eins skift um skoðun nú, milli þinga 1922 og ’23, eins og milli þinganna 1921 og ’22. En þá eru menn hraktir frá atvinnunni, og ósýnt, að þeir geti tekið hana upp aftur.

5. Þá má minnast á það, að inn- flutningsbann er alls ekki ávalt sparnaður. Á sumum vörum er það sparnaður, t. d. á tóbaki og slíku, sem menn nota jafnóðum og brúka ekki meira af síðar, þótt þeir spari þetta árið. En þetta er alls ekki svo um allar vörur. Viðvíkjandi mörgum vörum verka innflutningshöft í rauninni eingöngu eða að mestu sem frestun. Hún getur verið góð í sjálfu sjer, en hún er ákaflega varasöm í vissu efni. Það er eins og að stífla vatnsrás. Vatnið verður ekki að engu, heldur safnast fyrir. Þegar stíflan er svo tekin úr, getur flóðið gert miklu meiri usla en nokkru sinni fyr. Það er ekki mín skoðun eingöngu, eða meiri hl. nefndarinnar, heldur og margra ágætra manna, sem jeg hefi talað við, að þegar höftin verði af tekin, (og það verður væntanlega einhvern tíma, og það kannske fyr en varir), þá hljóti, svo framarlega sem höftin hafi verkað, að komast á mjög illur verslunarjöfnuður fyrst í stað, með öllum sínum afleiðingum, einmitt þessum afleiðingum, sem nú á að frelsa þjóðina frá.

6. Og hvað munu svo aðrar þjóðir halda um þessar ráðstafanir? Það er einróma álit, að oss ríði á að vernda lánstraust vort og fjárhagslegt álit út á við. Á því veltur svo afarmikið fyrir öll viðskifti, og (svo að maður minnist á það eitt) fyrir gengi okkar krónu. En hvað mundu menn draga af þessu, að vjer förum nú að tildra þessu upp, sem bæði við sjálfir og aðrar þjóðir eru áður búnar að afnema, til þess að sýna, að fjárhagsafkoman sje að komast í lag. Og hvernig væri litið á þessi síkubbuðu verslunarsambönd við Ísland? Höftin mundu áreiðanlega, bara í álitshnekki einum, eta upp alla nytina sína fyrir þjóðina.

Og þá er loks að minnast á þessa nýju ástæðu, sem á að rjettlæta það, að demba öllu þessu böli yfir, en það er hið lága gengi íslenskrar krónu.

Gengismálið var hjer til umr. í þessari hv. deild í gær, svo að jeg get farið þar fljótt yfir sögu, og jafnframt því að vitna í nál. meiri hl. gert að mínum orðum útreikninga hv. frsm. gengismálsins (Ó. P.), því að reikningum og áliti okkar mun að mestu bera saman, enda ekki um að villast samkvæmt þeim skýrslum, sem fyrir liggja frá hagstofunni. Það var líka játað í gær, í sambandi við gengismálið, einmitt af hv. frsm. þessa frv. (Sv. Ó.), að verslunarjöfnuður síðasta árs hefði verið góður, þó að hann reyndi, að ástæðulausu, að draga úr því. Útlendu viðskiftaskuldirnar eru 15 miljón krónum lægri nú en í fyrra. Og af þeim eru að minsta kosti 10 miljónir, sem beinlínis hafa verið borgaðar og sýna afgang þjóðarbúskaparins. Og af þessum viðskiftaskuldum, sem eftir eru, eru það einar 4–5 miljónir, sem áhrif þurfa að hafa á gengið, sje lagt kapp á að festa þær skuldir, sem festar verða. — Það er ekki til neins að berja höfðinu við steininn og segja, að við þurfum viðskiftahöft til þess að laga gengið. Og jeg vil miklu heldur segja, að höft gætu haft skaðleg áhrif, ef þau hefðu nokkur áhrif. Þau gætu sem sje valdið því, sem er skaðlegast af öllu, og enn þá skaðlegra en fast lágt gengi, sem sje óeðlilegum sveiflum, fyrst upp og svo niður aftur.

Þá verð jeg að minnast ofurlítið á gjaldeyrisráðstafanir þær, sem gert er ráð fyrir í frv. Það er umsjónarrjettur og ráðstöfunarrjettur, sem stjórninni er heimilaður.

Í greinargerð frv. er ekkert vikið að framkvæmd þessa eða fyrirkomulagi, og er það ekki nærgætnislegt um jafndularfult atriði sem þetta, jafnnýstárlegt og órannsakað mál, sem umfram alt þyrfti að hugsa út í æsar. Sama þögnin hvíldi yfir þessu í framsöguræðu hv.

1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). En af ræðu eins háttv. þm. í gær, sem reyndar er ekki flytjandi þessa frv., en mun vera því mjög hlyntur, skildist mjer það, að ein ástæðan til slíkra ráðstafana væri sú, að útlendir menn keyptu svo mikið af fiskframleiðslu vorri og fengju þannig í hendur erlenda gjaldeyrinn. Þeir keyptu svo íslenskar krónur mjög lágu verði, sem þeir svo notuðu hjer og dræpu alla samkepni með. Já, gott og vel. Það er nú fyrst og fremst ekki víst, að þetta þurfi að vera svo afarmikið til baga. En sleppum því. Það er bara spurningin, hvaða bót frv. ræður á þessu. Hvorki það nje nokkur okkar lög geta náð gjaldeyrinum úr höndum þessara manna. Frv. gerir ekkert annað en gefa þessum útlendingum yfirtökin algerlega, þar sem þeir geta valsað með sinn erlenda gjaldeyri, en Íslendingar verða að telja sinn gjaldeyri fram eða jafnvel afhenda hann til ráðstöfunar. Beina afleiðingin af þessu ákvæði væri því sú, að öll framleiðslan yrði seld þessum útlendingum fyrir íslenskar krónur, og við eignuðumst alls engan erl. gjaldeyri til ráðstafana. — En fyrir utan það, þá er þetta svo stimplað pappírsgagn sem mest má verða, því hvernig ætlar stjórnin að fara að troða upp í allar þær smugur, sem menn geta notað til þess að smjúga fram hjá þessum ákvæðum? Nei, hjer er ekkert á ferðinni nema ein af þessum óteljandi syndum gegn tilverunni, eins og hún er í raun og veru, þessi bolatök, sem menn halda að hægt sje að beita við tilveruna. Eina heilbrigða leiðin er sú, að vinna að því, að bankarnir geti rækt yfirfærslustarf sitt óhindrað og án þvingunarráðstafana við framleiðendur, og þá verða þeir, eins og á öllum eðlilegum tímum, sá farvegur, sem gjaldeyririnn streymir um. Það verður að ná sólskininu inn í kofann með því að opna því eðlilega leið, en er ekki til neins að ætla, eins og Molbúar, að ausa því inn með skjólum eða öðrum ílátum. Og það er víst, að það sem er viðskiftaástandi voru nú óþarfast af öllu, það er slíkur hugsunarháttur, að vilja þvinga alt og neyða þvert ofan í eðlileg viðskiftalög.

En svo er loks að minnast á það, sem náttúrlega er mjög notað, að þetta sjeu aðeins heimildarlög. Jæja, það er þó gott, að háttv. flm. finna sjálfir, að það er kostur við frv., að það kemur líklega aldrei til framkvæmda. Jeg skal fallast á það, að ef þetta frv. yrði að lögum, þá væri það þess helsti kostur, að það væri ekki skylda að brúka þau.

En hinu má ekki þar fyrir gleyma, að slík heimildarlög eru alls ekki skaðlaus, jafnvel þótt þau væru aldrei notuð, heldur væru þau beinlínis háskagripur, og alveg óverjandi af Alþingi að setja þau, með það fyrir augum, og alveg óverjandi af nokkurri stjórn að taka við slíkum bögli. Það má fullyrða, að umtalið eitt um væntanleg viðskiftahöft er nú þegar búið að gera landinu stórskaða, eins og jeg mintist á áður. Þetta frv., bara í frv.-formi, gerir skaða á hverjum degi, sem það fær lífi að halda. Og þó væru lögin sjálf auðvitað miklu sterkari í þessu efni, jafnvel þó að þau væru geymd niðri í skrifborðsskúffu stjórnarinnar. Þetta er svo einfalt mál, að það ætti ekkert slíkt barn að sitja á þingi, sem ekki sjer það í hendi sjer.

Þegar vöruverð er lækkandi á heimsmarkaðinum, eins og nú hefir verið og er, þegar lán eru vandfengin og dýr, eins og nú, þegar kaupgeta fólks er lítil, eins og nú, þá má eiga það víst, að enginn kaupmaður með viti (jeg á hjer ekki við æðisgengna braskara og svikara), enginn kaupmaður með viti flytur inn meira af vörum en hann hefir nokkurn veginn vissu um að geta selt fljótt, og hann reynir að stilla þannig í hóf kaupunum, að hann þurfi sem minst veltufje og geti jafnan notið hverrar verðlækkunar. — En þessi verslunaraðferð byggist á því, að verslunin sje frjáls. Hún getur ekki þrifist undir eilífri haftabliku á lofti. Þegar kaupmenn heyra sífelt tal um væntanlegt innflutningsbann, þá taka þeir þann kostinn, sem þeir mundu annars ekki láta sjer detta í hug, að birgja sig að vörum, til þess að vera ekki slyppir, ef óveðrið skyldi skella á. Nú þegar hafa þeir vafalaust margir gert ráðstafanir miklu víðtækari en þeir hefðu gert, ef óttinn við höft á atvinnu þeirra hefði aldrei verið til. Fyrir bragðið verðum við að hafa vörur með óhagstæðara verði. 8–9% á lánum til vörukaupa koma vitaskuld niður á vöruverðinu því meira, sem þeir taka meiri birgðir og umsetja sömu peningana sjaldnar. Lakari innkaup koma líka ver niður, bæði á kaupendunum og á verslunarjöfnuði ársins. Ef á að fara að samþykkja slík heimildarlög sem þessi, án þess þau sjeu brúkuð (og það veit jeg að engin stjórn leggur út í), þá er það beinlínis að gera gyllingar til þess að spilla verslunarhag vorum inn á við og út á við, með því að örfa bæði kaupendur og kaupmenn til óþarflega mikilla vörukaupa, með þessum yfirvofandi höftum. Lögin verkuðu eins og grýla, sem hræddi menn til eyðslusemi. Og þá væri tilgangur laganna kominn laglega upp í loft. En þetta er nú sannleikurinn. Jeg álít því, að það sje hrein og bein skylda þingsins, að fella þetta frv. nú þegar frá 2. umr., eða sem fyrst.

Þá uppfyllist líka sú von frsm. meiri hl., að þingið dragist ekki vegna þess fram á sumar.