04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í D-deild Alþingistíðinda. (1688)

42. mál, landhelgisgæsla

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Það er erfitt að taka afstöðu til brtt., þar sem þær koma ekki fram fyr en nú á fundinum. Jeg hefi þó reynt að bera mig saman við meðnefndarmenn mína um þær, og get jeg fullyrt, að álit nefndarinnar er, að þær sjeu ekki til bóta.

Jeg held líka, að það sje augljóst, að ekki er neitt verulegt að athuga við till. eins og hún kom frá nefndinni. Það er helst, að þeir, sem vilja forðast öll útgjöld, væru hræddir við hana, en jeg held, að sá ótti hafi ekki við rök að styðjast. Þingið verður að treysta þeirri stjórn, sem fer með málið, til þess að ganga ekki að samningum, ef kröfur um fjárframlög eru ósanngjarnlega háar. Þá hygg jeg líka, að tvísýnn sparnaður gæti það orðið að fella till. Vel gæti svo farið, og væri eigi ólíklegt, að beinar tekjur af bættri landhelgisvörn yrðu meiri en þessum útgjöldum næmi.

Önnur ástæða hefir verið færð fram gegn till., sem sje sú, að hjer sje verið að fara bónarveg að Dönum. Þessi ástæða fellur nú alveg um sjálfa sig, þegar samið er um fjárframlag. Hjer rekur því eitt sig á annars horn hjá þeim, sem eru móti till.

Með samþykt þessarar till. hygg jeg því, að vinnist tvent. Í fyrsta lagi mundu fást talsverðar tekjur fyrir landhelgissjóð, og í öðru lagi hagur fyrir alþjóð, vegna þess, að landhelgissvæðið yrði betur varið.

Jeg er því sannfærður um, að það væri stór skaði að fella till., og jeg er líka viss um, að slíkt mundi valda hinni mestu óánægju um alt land.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál.