04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (1694)

42. mál, landhelgisgæsla

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi reynt að varast að vekja hjer deilur um þetta mál, eða rifja upp gamlar deilur um það. Jeg hygg best að láta þær liggja.

Hv. þm. Dala. (B. J.) segir, að stjórnin hafi ekki haldið það, sem hv. þm. Borgf. (P. O.) krafðist af henni. En jeg held, satt að segja, að ekki sje hægt að krefjast, að stjórnin haldi annað en það, sem hún hefir lofað.

Jeg veit alls ekki til þess, að Dönum sje það áhugamál, að Íslendingar hafi ekki strandgæslu á hendi hjer. Jeg hefi einmitt heyrt það gagnstæða, að Dönum sje ekkert fast í hendi með það. En hv. þm. Dala. (B. J.) hefir sjálfsagt eitthvað fyrir sjer í þessu, og ætti hann þá að geta fært einhverjar sannanir fyrir því.

Sami hv. þm. (B. J.) var að tala um tilboð um ódýr skip. Þetta er alveg satt. Það er enn hægt að fá ódýr skip, og það svo ódýr, að slíkt sýnist ekki vera fjárhagnum ofvaxið. Jeg tel ríkissjóði það t. d. ekki ofvaxið nú að kaupa skip fyrir 300–400 þús. krónur. En það má fá þau fyrir miklu minna. En útgerð slíks skips verður það erfiðasta, eins og jeg hefi áður drepið á.

Þar sem þessi hv. þm. (B. J.) var að tala um síld í Eyrarsundi, þá mun hv. þm. ekki vita nægilega mikið um það mál. Og jeg tel það alls ekki rjett af stjórninni að vera að hlaupa eftir allskyns lausatilboðum.

Annars er afstaða hv. þm. Dala. (B. J.) mjög svo skiljanleg í þessu máli, því hann álítur ekki þörf nema á einu skipi til strandvarna. Því er ekki von, að hann vilji kosta stórfje til að auka strandvarnirnar.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hefir oft sagt, að ekki væri áríðandi að verja landhelgina. En allar þjóðir telja mjög áríðandi að verja ekki aðeins þrjár mílur, heldur í rauninni æskilegt að mega verja miklu stærra svæði, jafnvel 15 mílur, vegna þess, að veiðin skaðar svo ungviðið.

Eftir að jeg hefi heyrt ummæli hv. frsm. (M. K.) og hv. þm. Borgf. (P. O.), get jeg ekki sjeð, að það sje svo ýkjalangt á milli þeirra, en jeg hygg, að það sje ekki óaðgengilegra fyrir hina komandi stjórn að taka við till. eins og hún er hjá hv. þm. Borgf. (P. O.).