04.03.1922
Neðri deild: 14. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (1696)

42. mál, landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (M. G.):

Það er aðeins lítið eitt, sem jeg ætla að segja. Út af þessu tilboði um strandvarnarskip, sem hv. þm. Dala. (B. J.) er altaf að tala um að hafi legið fyrir í fyrra og liggi fyrir enn, skal jeg geta þess, að jeg hefi hvorki sjeð það þá nje nú. Jeg get ekki heldur kallað það, að tilboðið liggi fyrir, þó að þessi hv. þm. (B. J.) hafi það geymt niðri í skúffu hjá sjer uppi á Lindargötu, eða hvar það nú er sem hann á heima. Auk þess er það ekki til annars en að slá ryki í augu manna að tala um, að tilboð liggi fyrir, þegar búið er að geyma það í þrjú ár, og ekkert er líklegra en að skipið sje löngu selt.

Jeg skal geta þess, að mjer virðist till. hv. þm. Borgf. (P. O.) aðgengileg. Hún heimilar stjórninni að gera samkomulag um mál þetta með sem bestum kjörum. Jeg skildi það á ræðu hans, að ef fje þyrfti til þessa, þá yrði það greitt af sektafjenu, og álít jeg það rjett, því að fje er ekki fyrir í ríkissjóði til þess.