07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (1713)

42. mál, landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil taka það fram, að jeg tala hjer vegna þess, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) er veikur og getur því ekki sjálfur borið hönd fyrir höfuð sjer. Jeg hefi ekkert að athuga við ræðu hv. þm. Snæf. (H. St.), nema þar sem hann liggur stjórninni á hálsi fyrir framkvæmdir í þessu máli. Þar verð jeg að álíta, að hann fari með órjett mál. Jeg ætla mjer ekki að fara að verja gerðir fyrverandi stjórna, heldur þeirrar, sem nú situr að völdum. Árið 1920 varð landsstjórnin að fá kol hjá varðskipinu handa skipi, sem sent var til Norðurlandsins, til þess að flytja fóðurbirgðir til varnar skepnufelli vegna harðinda. Varðskipið hlaut því að takmarka ferðir sínar til fiskiveiðaeftirlits, og jeg skil ekki, að stjórninni verði legið á hálsi fyrir þetta. Og það er mjer óhætt að segja, að þeir, sem höfðu stjórn strandgæslunnar á hendi síðastliðið ár, hafa verið samtaka og látið sjer ant um, að alt gengi sem best. Og það hefir aldrei staðið á stjórninni að sýna lipurð í þessu máli, en í því efni er einmitt þinginu áfátt, og hefði það sýnt lipurð í málinu í fyrra, mundi hafa verið óþarft að taka málið til meðferðar nú.