25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (1725)

28. mál, innlend skiptimynt

Magnús Jónsson:

Jeg skal taka það fram, að tilgangur frv. er aðeins að bæta úr þeim vandræðum, sem menn eiga nú við að búa, en mjer er sama um, á hvern hátt það er gert. Jeg hefi því ekkert á móti, að málinu sje vísað til nefndar. En hvað snertir hinar aðrar leiðir, sem hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) mintist á, þá álít jeg dálítið varhugavert að nota frímerki. Að minsta kosti væri heppilegra, að það væri þá ekki altaf verið að skifta um þau, eins og átt hefir sjer stað að undanförnu. Eins og jeg tók fram áðan, hefi jeg ekkert á móti, að málinu verði vísað til nefndar, en jeg hygg, að það sje ekki heppilegt að vísa því til viðskiftamálanefndar, því hún hefir æðimörg stórmál með höndum, og hætt er við, að málið mundi þurfa að bíða nokkuð þar. Jeg geri því að tillögu minni, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar.