28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1923

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi komið fram með brtt. á þskj. 153, XVII. lið, ásamt 2. þm. Árn. (Þorl. G.). Það er tekið fram í ástæðunum, hvers vegna lagt er til að auka við þessum 1000 krónum, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Það er góðkunnur maður, sem hjer á hlut að máli, og einhver af bestu vísindamönnum Íslendinga. Vita menn og, að efnahag hans er svo háttað, að full nauðsyn er á, að hann fái þennan styrk. Vona jeg að allir þeir, sem hjer eru, kunni að meta hina afbrigðagóðu og að mörgu leyti mjög svo einkennilegu rithöfundarhæfileika þessa manns, hvað sem svo um innihald ritanna er að segja. Um það verða náttúrlega ávalt skiftar skoðanir. Trúi jeg yfirleitt ekki fyr en jeg reyni það, að þessi lítilfjörlega aukning nái ekki fram að ganga. Því jeg ber það traust til háttv. þdm., að þeir láti nauðsynina og verðleika þessa manns verða þyngst á metunum og sjái sóma sinn í því að veita þennan sjálfsagða styrk eftirtölulaust.

Þá er það XXV. liðurinn á þskj. 153. sem jeg vildi líka minnast á. Það er gamall kunningi sem þar er á ferðinni og munu hv. þdm. vera kunnar allar ástæður frá því í fyrra og hafa lesið greinargerðina, sem þá fylgdi málinu. Býst jeg því við, að hv. deild hafi þegar tekið afstöðu til þessa máls.

Háttv. frsm. (B. J.) tók það fram, að nefndin hefði ekki sjeð sjer fært að aðhyllast þessa till. Get jeg að vissu leyti ekki láð nefndinni þetta, eins og á stendur, en þó hefði jeg getað vænst betri undirtekta nú, því þegar till. þessari var vísað frá í fyrra, þá gaf háttv. frsm nefndarinnar, ásamt mörgum fleiri úr nefndinni, loforð um, að ef málið kæmi aftur, þá myndi því verða betur tekið á næsta þingi. Ekki er annað hægt að segja en að hóglega sje í sakirnar farið, því hjer er aðeins farið fram á þrjá fimtu hluta af upphæð þeirri, sem með þarf, og í varatill. aðeins tvo fimtu hluta. Jeg geng þess ekki dulinn, að það eru vandræði að þurfa að koma fram með svona till., en þess er þó, eins og á stendur fyrir hlutaðeigandi sveitarfjelagi, brýnasta þörf, því þótt fjárhagur ríkisins sje ekki glæsilegur, þá er þó fjárhagur sumra hrepps- og sveitarfjelaga ennþá bágbornari. Og ef Alþingi sjer sjer ekki fært að verða við þessari beiðni, þá eru miklar líkur fyrir því, að þetta fyrirtæki sje þar með til dauða dæmt, því hreppurinn hefir ekki bolmagn til þess að bera þennan kostnað. Að svo mæltu legg jeg þessa till. undir dóm. háttv. deildar, án þess að fara frekari orðum um hana, því jeg býst við, að háttv. þdm. sjeu mjög vel kunnir allir málavextir hjer að lútandi og hafi nú þegar ráðið við sig, hvernig þeir greiða atkv. um till. þessa.