25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (1777)

93. mál, lagasetning búnaðarmála

Jón Þorláksson:

Jeg ætla að minnast lítið eitt á það atriði, sem orðið hefir til þess að hrinda þessari tillögu af stað. Það á nefnilega rót sína að rekja til þess, að Búnaðarfjelagi Íslands var ekki falin forstaða Flóaáveituverksins og að vissir menn voru óánægðir með þetta.

Jeg skal þá byrja með því, að jeg álít, að best verði að koma á því skipulagi, að allar stærri vatnavirkjanir sjeu í höndum þeirrar framkvæmdastjórnar, sem hefir fyrir vegamálunum að segja, og ætti forstjóri þeirrar greinar þá að heita vega- og vatnamálastjóri. Hins vegar hygg jeg, að best væri, að allar smærri áveitur væru í höndum Búnaðarfjelags Íslands, og að það hefði þá í þjónustu sinni menn, sem gætu undirbúið slíkar framkvæmdir. Þarf sjaldnast verkfræðinga við slík störf, en hins vegar gott að njóta þar að búnaðarfróðra manna. Alt öðru máli er að gegna um stærri áveitufyrirtæki, sem ef til vill hafa breytingu á farvegi stærri vatna í för með sjer. Slíkar framkvæmdir eru einar þær vandasömustu, sem verkfræðingar hafa á hendi, og samfara þeim eru venjulega margvísleg mannvirki, sem óhjákvæmilegt er að verkfræðiþekking á mörgum sviðum komi til. Er hjer alt öðru máli að gegna en um skurða- og garðagerð þá, sem smærri áveitur hafa í för með sjer. Auk þess er þessum stærri vatnsveitum þannig farið, að þær eru oft óviðráðanlegar með fræðiþekkingu einni saman, en útheimta meiri reynsluþekkingu en flestar aðrar verklegar framkvæmdir.

Fyrir nokkrum árum var samkvæmt tillögum mínum byrjað á að koma þessum málum í þetta horf, sem jeg nefndi. Í 16. gr. fjárlaganna var tekin upp sjerstök fjárveiting til vatnsvirkja og umsjón þeirra mála lögð í hendur verkfræðings landsins, sem þá var, og bætt við einum aðstoðarverkfræðingi, svo að þeir urðu tveir. Nú er svo komið, að vegamálastjóri hefir einungis einn aðstoðarverkfræðing, og þótt hann hafi enn þá nokkra umsjón vatnsvirkja, t. d. forstöðu Skeiðaáveitunnar, þá gefur að skilja, að þegar tveir verkfræðingar eiga að hafa á hendi vega- og brúargerðir um alt landið, þá geta þeir ekki varið miklum tíma til vatnsvirkja. Enda er nú svo komið, að ráðinn hefir verið sjerstakur maður til að standa fyrir Flóaáveitunni. Mjer virðist þetta mál vera komið inn á skakka braut, og myndi síst um batna, þótt farið væri að blanda þessum stærri vatnsvirkjum saman við þær smærri áveitur, sem Búnaðarfjelagið á að hafa með höndum. Vil jeg nú beina því til hæstv. stjórnar, að hún haldi áfram í sömu átt og byrjað var, og leggi þetta undir þá skrifstofu, sem hefir vegamálin með höndum. Jeg hefi fyrir nokkrum árum fært ástæður fyrir þessari skoðun minni í brjefi til stjórnarinnar. Taldi jeg þá höfuðástæðurnar tvær. Er önnur sú, að þessi störf eru svo skyld, að víst sje, að þeir verkfræðingar, sem hafa næga þekkingu til annars starfsins, hafa hana líka til hins, því að þessar greinar verkfræðinnar eru látnar fylgjast að í öllum verkfræðiskólum. Hin ástæðan er sú, að með því að skifta forstöðu verklegra framkvæmda niður á fleiri hendur, þannig, að hver hafi sína sjerstöku grein, þá verður ekki hjá því komist, að ferðalög verkfræðinga um landið verði miklu meiri en nauðsyn ber til. Þegar einn verkfræðingur á að rækja störf í öllum landshlutum sama sumarið, fer mestur tíminn í ferðalög. Heppilegast er því að sameina sem mest af skyldum verkfræðistörfum undir einni forstjórn, og þá skiftir forstjórnin að sjálfsögðu þannig verkum milli aðstoðarmannanna, að hver þeirra hafi sinn hluta landsins til yfirsóknar og vinni öll þau verk, er þar koma fyrir það sumarið. Vildi jeg nota tækifærið til að vekja athygli hæstv. landsstjórnar á þessu.