05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (1787)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) gerði þá fyrirspurn til nefndarinnar, hvort henni þætti ekki ráðlegt að hverfa aftur til tóbaksböðunarinnar. Jeg hygg, að það muni reynast dýrara en að nota bestu baðlyf, sem menn nú þekkja. Að tóbakslyf var notað, er síðasta útrýmingarbað fór fram, stafaði eingöngu af hinni óbifandi trú þess manns, sem böðunina hafði á hendi, á því lyfi. En nú er komið á daginn, að álit dýralæknisins þá, að ekki væri hægt að útrýma kláðanum með einni böðun, var alveg rjett. Það er því sjálfsagt að viðhafa tvær baðanir, en með því móti yrði tóbaksböðun óhæfilega dýr, svo maður ekki segi ókleif, enda engin ástæða til hennar, þegar til eru önnur ódýrari og jafngóð baðlyf.

Nefndin leggur áherslu á, að ekki verði notuð önnur baðlyf en þau, sem full trygging er fyrir að komi að haldi, og hefir dýralæknir talið kreólín best.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) hjelt, að ekki mundi verða við komið að byrja böðunina næsta haust. Get jeg fallist á það, og vil engan veginn draga úr því, að undirbúningurinn sje sem allra bestur.

Þá talaði hæstv. atvrh. (Kl. J.) um, að það þyrfti að breyta gildandi lögum um útrýmingarböðun, og er það rjett, eins og jeg tók fram áður. En nefndin gerir ekki tillögu um það á þessu þingi, þar sem líkurnar eru litlar fyrir, að byrjað verði næsta haust. Enda myndi þá stjórnin gera þar um bráðabirgðalög.

Hv. 2. þm. N.-M. (B. H.) sagði, að það hefði verið flanað út í útrýmingarböðunina, sem framkvæmd var 1903–1904. Er ekki til neins að fara að deila um það, en jeg get ekki sjeð, að þá hafi verið um neitt flan að ræða; til þess var fenginn sá útlendingur, sem best þótti hafa vit á þessu efni, en auðvitað er nokkru öðru máli að gegna að útrýma kláðanum hjer eða í Noregi. Meðal annars eru hjer alt öðruvísi húsakynni og þurfa meiri sótthreinsunar við; auk þess er ein böðun alls ekki einhlít.

Viðvíkjandi þessu atriði get jeg sagt hið sama og hæstv. atvrh. (Kl. J.), að nefndin vill ekki ráðast í þetta fyr en nákvæm rannsókn hefir farið fram.

Þá sagði hv. sami þm. (B. H.), að fjárkláðinn gerði misjafnlega vart við sig á hinum ýmsu stöðum, og er það rjett, en þó mun ekki vera hægt að segja nokkurn stað á landinu alveg lausan við fjárkláða, enda þótt hægt sje ef til vill að halda honum niðri með góðum þrifnaðarböðum. Ástandið er verst á Suður- og Vesturlandi, og kveður þar sumstaðar svo ramt að, að kláðinn hefir beint drepið fjeð.

Þá talaði sami hv. þm. (B. H.) um, að þetta mundu þykja þungar búsifjar, að bændur kostuðu alveg baðlyfin, en það er þó ekki eins mjög og virðist í fljótu bragði, því það má ganga út frá, að bændur leggi eitthvað í kostnað við þrifaböðunina, og þó að blöndunin verði hjer að sjálfsögðu sterkari og baðið því nokkru dýrara, getur kostnaðurinn þó aldrei munað mjög miklu. En eins og mönnum er kunnugt, er hagur ríkissjóðs svo erfiður, að það má ekki íþyngja honum meira en nauðsynlegt er.

En ef ætti að sleppa einhverjum hjeruðum, yrði það að vera gert eftir ráði dýralæknis. Jeg hefi átt tal við hann um þetta atriði, en hann kvað ekki vera hægt að telja nokkurn stað ugglausan, að þar gæti ekki fundist fjárkláði.