06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (1841)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Kennari sá, sem nafngreindur er í þessari till., hefir nú starfað að kenslu í 30 ár. Samt fór svo, þegar sett var í kennarastöðurnar eftir nýju lögunum fyrir tveimur árum, að honum var ekki fengin kennarastaða, enda þótt hann sækti og fengi meðmæli skólanefndar. Nú hefir hann kvartað til Alþingis um þetta, og þykir sem sjer hafi verið órjettur ger. Fylgir þessari kvörtun umsögn 14 manna, og það sumra mætra manna, svo sem síra Janusar Jónssonar og Árna prófasts í Görðum, og próf. Guðm. Finnbogasonar. Nú hafði nefndin ekki getað athugað þetta mál svo, að hún gæti tekið ákvörðun. Þess vegna fer hún fram á, að stjórnin verði látin rannsaka málið.

Þetta er þann veg vaxið, að það er ekki dómstólamál. Maðurinn á enga kröfu að lögum, en hann virðist eiga sanngirniskröfu, þótt jeg hins vegar vilji hvorki dæma nje afsaka þá menn, sem hjer eiga hlut að máli. En fjárveitinganefnd virðist, sem allir þeir, er til þingsins leita, eigi að ná rjetti sínum. En þar sem þingið getur ekki lagt dóm á málið sjálft, þá verður það að fela stjórninni rannsókn málsins. Þess vegna vona jeg, að enginn hv. þm. mæli gegn því, að hæstv. stjórn rannsaki þetta mál, sem hjer um ræðir, og bæti, ef brotið hefir verið.