25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (1930)

25. mál, tala ráðherra

Jón Þorláksson:

Jeg þarf litlar athugasemdir að gera við ræðu hv. samþm. míns (Jak. M.). Jeg geri ráð fyrir, að við lítum báðir líkt á það, hvernig hentugast sje að haga æðstu stjórn landsins. Við erum báðir svo kunnugir verkahring ríkisstjórnarinnar, að okkur má vera ljóst, að ekki er unt að komast af með einn ráðherra, nema með því móti, að einhver maður sje til, sem komið getur í stað ráðherra í forföllum hans. Það gerði landritari, meðan það skipulag var haft, og jeg álít, að breytt hafi verið til hins verra, þegar horfið var frá því ráði. Dæmið, sem hann tók, um það, að erfiðara væri að fá úrlausn mála, ef ágreiningur er, ef ráðherrarnir eru tveir, var óheppilega valið. Þar ræddi um mál, sem fjell undir tiltekinn ráðherra, og átti hann því rjett á að ráða því máli. Svo mun og fara eftir tillögu okkar; sá ráðherrann, sem ber ábyrgð á stjórnarathöfnunum í sinni grein, ræður úrslitum, en forsætisráðherrann getur gert breytingu á ráðuneytinu, ef hann unir því ekki að verða undir.

Ekki get jeg sjeð, að nokkur sparnaður sje fólginn í brtt. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), umfram okkar till. Ef ráðherrann er einn og svo landritari, þá verður sparnaðurinn lítill, því að ekki verður verulegur munur á launum ráðherra og landritara. Það er því ekki ástæða til þess að samþykkja brtt. hans vegna sparnaðar.

Þá skal jeg snúa mjer að ræðu hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Hann byrjaði nú með því að vitna í lög, er ákvæðu, að ráðherrarnir skyldu vera þrír, og samþykt voru með 3 mótatkv. hjer í þinginu. En honum láðist að geta þess, að lög þessi eru eldri en stjórnarskráin og fallin úr gildi með henni, svo það er þýðingarlaust að vera að vitna í þau.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) tók af mjer ómakið, með að sýna fram á það, að það færi ekki í bága við stjórnarskrána að hafa ráðherrana tvo. Það er líka beint tekið fram í aths. stjórnarinnar fyrir 11. gr., að orðalag hennar sje haft þannig, að unt sje að hafa þá tvo. Þetta þing hefir nú átt setu í hálfa aðra viku, og engum þm. hefir komið til hugar, að skipun sú, sem konungur gaf um stjórnina á þessum tíma, færi í bága við stjórnarskrána. Og sje það ekki stjórnarskrárbrot nú, að þeir sjeu tveir, þá sje jeg ekki, að það verði það frekar, þótt því verði haldið áfram.

Þá vitnaði hv. þm. (Gunn. S.) í 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar. í 13. gr. stendur: „er einhver ráðherranna óskar“, en í 14. gr.: „fyrir hönd hinna ráðherranna“. En þetta orðalag er eðlilegt, því að höfundar stjórnarskrárinnar ætluðust til, að ráðherrarnir væru tveir eða fleiri. Þó að ráðherrarnir sjeu ekki nema tveir, þá hygg jeg, að hægt sje að framfylgja öllum efnisfyrirmælum stjórnarskrárinnar. En það er hins vegar ekki hægt, ef einn er; þá fjellu t. d. fyrirmæli 13. gr. alveg niður.

Jeg er ekki svo lögfróður, að jeg vilji skera úr því, hvort brtt. á þskj. 29 fari í bága við stjórnarskrána, en hygg þó, að það stappi nærri því, en hitt þori jeg að fullyrða, að okkar till. gerir það ekki, og er því óhætt að samþykkja hana þess vegna.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) ljet sjer sæma að koma með getsakir um það, hvers vegna þessi till. væri fram borin, og kvað það vera mundu af því, að núverandi stjórn hefði ekki haft handbæran mann í sess atvinnumálaráðherrans, er hann losnaði. Jeg verð nú að segja það, að trúi því hver, sem trúað getur, að nú sje svo komið hjer á þessu landi, að ekki sje hægt að fá mann í ráðherrasess. Annars vil jeg minna þm. (Gunn. S.) á það, að svipaðri till. og þessari hefir verið hreyft utan þings af mönnum, sem ekki eru sammála stjórninni, og ekki mun það þaðan komið af „uppdiktuðum“ hvötum þessa þm. (Gunn. S.). Annars held jeg, að ef fara ætti að geta til um hvatir manna, þá væri ekki fjarri sanni að leiða getur að því, hvers vegna hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) og aðrir leggjast á móti þessari till., en jeg tel það þó ekki sæmandi, að minsta kosti meðan ekki er kveðið fastar að úr hinni áttinni.

Þá sagði sami hv. þm. (Gunn. S.), að ekki væri tilhlýðilegt að taka ákvörðun í þessu máli án þess að bera það undir kjósendur. En jeg verð að segja, að þá er fátt, sem taka má ákvörðun um án þess að leita til kjósendanna, ef ekki má leggja niður óþarft, hátt launað embætti, sjerstaklega þegar sætið er autt, og engum manni gert mein með sparnaðinum.