25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (1934)

25. mál, tala ráðherra

Gunnar Sigurðsson:

Hæstv. forsrh. (J. M.) er mjer og hv. þm. Dala. (B. J.) sammála um þingskjal 29, þó við hins vegar sjeum ekki á eitt sáttir um þskj. 26, þar sem jeg legg annan skilning í stjórnarskrána. Jeg er hv. þm. Dala (B. J.) samþykkur í öllum aðalatriðum, að frv. komi í bág við tilgang og hugsun stjórnarskrárinnar, og hefir hæstv. forsrh. (J. M.) ekki fært sönnur á hið gagnstæða. En því vil jeg mótmæla harðlega, sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh. (J. M.), að fara beri með grundvallarlögin, stjórnarskrána, sem önnur lög. Alt bendir á það, t. d. að taka stjórnarskráreiðurinn, að löggjafinn leggur eðlilega meiri áherslu á hana en önnur lög, enda liggur það í heitinu sjálfu.

Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), að ef ráðherra fatlaðist milli þinga, yrðu aðeins 2 ráðherrar, og mætti því ekki leggja of bókstaflegan skilning í stjórnarskrána. Sami hv. þm. virðist vera mjög hörundssár fyrir því, að hörgull myndi verða á mönnum í stjórnina, en talaði þó eins og embætti þetta væri alóþarft. Ójá, skrítin afstaða það. Sannleikanum er hver sárreiðastur.

Það kynni nú að vera hægt að ganga að því að fækka ráðherrum niður í 1, með tilsvarandi skrifstofuhaldsaukningu í stjórnarráðinu, en að fækka þeim niður í 2 er, að minni hyggju, það sama og að segja, að sá maður, sem skipaði þetta embætti, hafi verið með öllu óþarfur og alónýtur.