10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

1. mál, fjárlög 1923

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Jeg vildi aðeins fara nokkrum orðum um 1. brtt., um hækkun á tekju- og eignarskatti um 100 þús. kr. Hefir oft áður verið á það minst hjer á þingi í ýmsu sambandi. En það, sem maður veit um þennan skatt, er það eitt, að hann er mjög óviss. Skýrslur frá ýmsum hjeruðum eru mjög óglæsilegar; lítið sem ekkert er kemur úr sumum bygðarlögum. Hjer í Reykjavík er ómögulegt fyrir skattstofuna að segja um, hve mikið komi inn. Þó býst hún við, að það verði um 700 þús. kr. Auk þess er áætlunin hvað heimturnar snertir sjerlega óviss fyrsta árið, því þá kemur til ýmsra óvissra skattaspursmála, sem geta jafnvel heyrt undir dómstólana til úrskurðar.

En það, að óvissa er fyrsta árið, kemur niður á skatttímanum í ár, en það ætti hæglega að geta unnist upp næsta ár. Held jeg að hið skárra útlit, sem nú er fyrir atvinnuvegina árið 1922, geri það að verkum, að eigi sje óvarlegt að reikna, að 1923 komi inn 900 þús., ef rjett hefir verið að áætla 700 þús. í ár. Jeg er því fyrir mitt leyti ekki á móti hækkuninni. Jeg skal að lokum taka það fram um bifreiðaskattinn, að jeg tel alveg sjálfsagt að fella hann út úr tekjuáætluninni. Ef hann er færður tekjumegin, þá verður einnig að setja sama póst útgjaldamegin, en ef það er eigi gert, þá á eigi að telja hann með í tekjunum. Jeg skal taka það fram, að jeg tel, að háttv. fjvn. hafi farið mjög gætilega í sakirnar í till. sínum og látið sjer ant um, að sem minstur halli verði á fjárlögunum.