24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í D-deild Alþingistíðinda. (2010)

90. mál, landsverslunin

Jón Baldvinsson:

Þinginu hefir borist erindi frá allmörgum kaupsýslumönnum, þar sem þeir fara fram á það, að landsverslunin sje lögð niður. Það er ekki undarlegt, þó að þessi skoðun sje ríkjandi í þeim hóp og landsverslun álitin til ills eins, sjeð frá þeirra sjónarmiði. En á hitt finst mjer þó mega líta, hvort það yrði öllum almenningi til eins mikillar hagsældar, að landsverslunin væri lögð niður. Og jeg er ekki í neinum vafa um það, að niðurlagning verslunarinnar mundi verða til hins mesta tjóns fyrir allan þorra landsmanna.

Þetta mál hefir legið fyrir þinginu, og viðskiftanefnd hefir tekið það til rækilegrar athugunar, og liggur árangurinn af því starfi hjer fyrir. Nú vil jeg beina máli mínu að nefndaráliti og greinargerð meiri hlutans. Það fyrsta, sem jeg rak augun í við lestur greinargerðarinnar, var tónninn, sem þar ríkti og mjer fanst miður hlýlegur í garð landsverslunarinnar. Jeg á bágt með að trúa því, að allir nefndarmenn hafi gert sjer það ljóst, hvað fólst í orðum þessarar greinargerðar. En í till. sjálfri, og að þar skuli ekki vera fastara að kveðið, finst mjer þó vera óbein viðurkenning á því, að því muni ekki vel tekið hjá þjóðinni að leggja landsverslunina niður.

Greinargerð meiri hlutans byrjar á málinu eins og skilið var við það á síðasta þingi og prentar þar upp till. þá, sem þá kom fram, og notar hana svo til að færa rök að því, að ríkisstjórnin hafi ekki farið eftir þeirri till.

Sjerstaklega er það eitt, sem meiri hlutinn telur mjög vanrækt af landsverslunarstjórninni, og það er innheimta. Að vísu eru útistandandi skuldir ofurlítið hærri en þær voru við áramót 1921, en þegar það er athugað, hve afarerfitt viðskiftaár síðasta ár hefir verið, og kaupsýslumenn ættu að fara nærri um það, þá ættu menn að sjá þann sannleika, að landsversluninni hefir tekist það furðanlega vel að verjast því, að skuldirnar hækkuðu.

Í sambandi við það, sem jeg mintist á áðan, að tónninn í greinargerðinni hefði verið annað en hlýlegur, þá verð jeg að segja það, að jeg kendi þess hins sama í ræðu hv. frsm. meiri hl. (O. P.), og fanst hann nota alt að því ósæmileg orð í garð landsverslunarinnar. Hann var að fjargviðrast um það, að nefndin hefði ekki haft tíma til þess að rannsaka öll plögg landsverslunarinnar, og jeg skildi svo orð hans, að hann vildi fastlega skora á stjórnina að hefja nú alvarlega rannsókn á versluninni, alveg eins og hjer væri um einhvern sökudólg að ræða. (Ó. P.: Misskilningur þingmannsins). Nú mætti kannske virðast svo í fljótu bragði, að farið hefði verið fram á það með þál.till. frá í fyrra, að takmarka að nokkru verslunina, en í raun rjettri var þetta lagt á vald ríkisstjórnarinnar og stjórnar verslunarinnar, og í till., sem samþykt var á síðasta þingi, er einnig bætt við verslunina einni vörutegund, sem sje steinolíu. Þá vörutegund hafði landsverslunin ekki áður, en í fyrra var beinlínis ætlast til þess, að hún tæki þessa tegund. Steinolíuverslunin hefir um langt skeið verið í höndum erlends fjelags, sem að vísu hefir skreytt sig með íslensku nafni. Með rjettu hefir landsmönnum þótt erfitt að búa við það, og jeg býst ekki við því, að þeir þingmenn sjeu margir, sem vilja láta fara í gamla horfið aftur og láta taka steinolíuna af landsversluninni. Í nál. er deilt harðlega á fyrverandi stjórn fyrir vanrækslusynd, sem hún hefir átt að drýgja með því að hafa haft of lítið eftirlit með versluninni. Jeg ætla mjer ekki að fara að bera neitt blak af þeirri stjórn, en mjer hefir altaf skilist, að henni hafi ekki verið ætlað að hafa svo mjög mikið eftirlit með daglegum rekstri landsverslunarinnar, enda nýtur forstjóri landsverslunarinnar hins mesta trausts bæði þings og stjórnar, og það ætti að vera nægileg trygging. Í stærri atriðum þykist jeg þó vita það, að forstjórinn hafi borið sig saman við stjórnina. Jeg veit ekki betur en það væri álitið heppilegast hjer á þingi fyrir nokkrum árum að draga sem mest yfirstjórn og eftirlit með landsversluninni út úr stjórnarráðinu, og þá var, að tilhlutun Alþingis, skipuð sjerstök stjórn fyrir verslunina. Mjer er það óskiljanlegt, að menn skuli nú vera að heimta það, sem áður þótti óhæfa og í alla staði óheppilegt.

Eitt er það, sem nefndarmönnum var þyrnir í augum, og það var það, að kolareikningurinn hefði sýnt tekjuafgang. Og í greinargerðinni vill meiri hlutinn láta verðfallið á kolum koma á þennan reikning, og að það hefði ekki komið fram 129 þús. kr. hagnaður, heldur hefði reikningurinn sýnt ca. 200 þús. kr. halla. En jeg tók ekki eftir því, að hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) mintist þess, hvernig þetta verðfall á kolum væri til komið, og hefði hann þó átt að gera það, ef hann vill, að sannleikurinn komi fram í þessu máli. Verðfall þetta er sprottið af því, að þegar kolaverkfallið breska lá fyrir dyrum 1920, þá rjeðst ríkisstjórnin — en ekki stjórn landsverslunarinnar — í það að láta flytja hingað allmikið af kolum, sem þá voru í háu verði. Margar fleiri þjóðir en við brendu sig á þessu sama, því flestir bjuggust við því, að kolaverkfallið þá mundi standa lengi. Hefði þetta ekki verið gert, þá er jeg sannfærður um, að látið hefði hátt í tálknunum á máltólum kaupmannaliðsins. Kolin fjellu í verði skömmu síðar. Þannig er þetta kolatap til orðið. Þetta var sjálfsögð bjargráðatilraun, og jeg hefi, sannast að segja, ekki orðið var við, að það hafi verið lastað. Jeg hefi ekki við höndina nákvæmt yfirlit yfir þetta verðfall á kolunum, en það mun hafa verið eitthvað um 1200 þús. kr. Þetta hefir landsverslunin unnið upp á síðastliðnum tveim árum, og ef maður bætti þessari upphæð við varasjóð hennar — sem rjett væri, því ef landsverslun hefði ekki verið til, hefði þetta verðfall komið beint á ríkissjóðinn — þá væri varasjóðurinn nú um 3 milj. kr. Landsverslunin hefir flutt mikið af kolum inn þetta ár og lagt undir sig að mestu smásöluna til almennings hjer í bænum, og sýnir það, að almenningur telur sjer hagnað að því að skifta við hana.

Það lítur helst út fyrir, eins og meiri hluti nefndarinnar sje beinlínis ergilegur yfir því, að landsverslunin skuli hafa grætt á genginu, og það er eins og hann harmi það, að þetta skuli ekki hafa snúist upp í tap, og kallar það óvenjulegt happ, sem hafi „hent“ verslunina. Jeg hefi verið að spyrjast fyrir um þetta atriði og fengið þær upplýsingar, að þetta væri ekki eins mikil tilviljun og virðist, heldur sje það sprottið af því, hversu góð sambönd verslunin hafi erlendis og hve hentuga samninga hún hafi gert um greiðslu erlendra skulda.

Þá ætla jeg örlítið að minnast á það, þar sem meiri hluti nefndarinnar er að tala um peninga í sjóði. Virðist hann gefa það í skyn, að þeir peningar, sem landsverslunin á í sjóði, sjeu sama sem útistandandi skuld. Jeg spurðist líka fyrir um þetta og fjekk það svar, að mestur hlutinn af þessari upphæð hefir greiðst í janúarmánuði — aðeins um 40 þús. kr. hafa komið síðar — og er það víst algengt að halda opnum kassa svo lengi, jafnvel hjá þeim kaupmönnum, sem telja sig fyrirmynd í öllum verslunarsökum.

Mjer skilst svo á nál., að aðstandendur þess sjeu undrandi og óánægðir yfir því, að rekstrarkostnaður hafi hækkað. En er þetta ekki eðlilegt? Húsaleiga og mannahald hefir hækkað að miklum mun, og ýms annar kostnaður, en vörur aftur lækkað, og ætti því öllum að vera það skiljanlegt, að rekstrarkostnaður við verslunina sje hærri, í hlutfalli við veltu, en áður. Enda mun svo vera alstaðar.

Jeg mintist á steinolíuverslunina áðan. Um hana hefir mikið verið rætt undanfarið, og reynt af hinum og þessum tylliboða-„spekúlöntum“ að þyrla upp moldviðri um steinolíuverslun landsins, til þess að gera hana tortryggilega. En það er það merkilega, að í öllum þessum gauragangi hefir aldrei verið minst á steinolíufjelagið, heldur aðeins á landsverslunina. (Einhver þm.: Hvað kemur steinolíufjelagið þessu við?). Það kemur eigi lítið málinu við, ef menn með því gætu haft lag á að þyrla ryki í augu landsmanna og koma því til leiðar með því, að landsverslunin yrði látin hætta steinolíuversluninni. Það hefir mikið verið skrifað um steinolíutilboð og steinolíutylliboð, í málgagni kaupmannastjettarinnar. En lítið hefir orðið úr þeim framkvæmdum, að þessir menn, sem hæst hafa látið, hafi komið með steinolíu þessa á markaðinn og selt hana lægra verði.

Hinn rjetti samanburður í máli þessu er vitanlega sá að bera saman hið raunverulega útsöluverð steinolíufjelagsins við útsöluverð landsverslunarinnar. Það er hvorttveggja sannanlegt. Í þeim samanburði veit jeg, að landsverslunin sigrar. Hefi jeg það frá góðum heimildum, að hingað til hafi verðlag landsverslunarinnar verið 10–20 kr. lægra á hverri tunnu en verðlag steinolíufjelagsins. Nú sem stendur lætur nærri, að það sje 16 kr. lægra. Steinolíufjelagið fjekk nýjan farm nú fyrir skömmu, og er sagt, að það selji kg. á 55–57 aura. Landsverslunin á innan skamms von á farmi og kemur til með að selja sína olíu á 44–46 aura kg. Sýnir þetta, að landsverslunin hefir altaf verið fyrir neðan steinolíufjelagið, og bendir það óneitanlega á það, að landsverslunin sje landinu hagstæðari verslun, og því sjálfsagt að fela henni einkasölu á þessari vörutegund. því hvaða ástæðu skyldi líka landsverslunin, sem háð er eftirliti þings og stjórnar, hafa til þess að útvega landsmönnum eigi eins ódýrar vörur og henni er frekast unt? Jeg skil eigi hugsanagang þeirra manna, sem halda fram því gagnstæða, og hvaða rök þeir geta rakið til þess. Hins vegar skil jeg vel, að ef úr landsversluninni verður dregið, þá muni steinolíufjelagið færast í aukana, og efalaust mundi það eigi horfa í 100 þús. kr. kostnað eða svo, til þess að undirbjóða landsverslunina, ef það gæti orðið henni að falli. Slíkt mundi margborga sig fyrir fjelagið, en ekki fyrir landið.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) var í ræðu sinni að reikna skatta þá, sem steinolíufjelagið hefði greitt í bæjar- og ríkissjóð, og komst að þeirri niðurstöðu, að það mundi vera um 6 kr. á hverja tunnu. Þó að þær væru dregnar frá verði landsverslunarinnar, þá mundi samt verða eftir sú fúlga til landsmanna, er næmi hundruðum þúsunda.

Verslun landsverslunarinnar með almennar vörur hefir og verið landinu og landsmönnum mjög í hag, enda neitaði hv. frsm. (Ó. P.) því ekki, að verðlag hennar hefði verið fyrir neðan verðlag kaupmanna, og það svo mikið, að nema mundi stórfje, ef það væri lagt á allan innflutning landsins.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) afsakaði þennan mismun á verðlagi með því, hvað landsverslunin hefði betri aðstöðu. Getur verið, en sá munur, sem hún selur lægra verði en kaupmenn, er meiri en munurinn á aðstöðu. Er skemst frá því að segja, að nú undanfarið hafa kaupmenn selt sykur á 1 kr. 5 aura til 1 kr. 10 aura kg., en nú hefir landsverslunin fengið sykur, er hún selur 10 aurum ódýrari kg., og er það nokkuð mikið á slíkri vöru. Í hvert skifti, sem landsverslunina hefir þrotið að einhverri vörutegund, þá hefir nær undantekningarlaust sú vörutegund hækkað í verði hjá kaupmönnum, svo þess vegna er allur þessi gauragangur skiljanlegur. Þeir njóta sín sem sje ekki, kaupmennirnir, hennar vegna.

Hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.) ásakaði landsverslunina fyrir það, að hún skyldi ekki hafa hafist handa um kolakaup í fyrra sumar, en virtist þó í ræðu sinni annað veifið mótfallinn vörukaupum landsverslunar. Virðist mjer þar kenna nokkurs ósamræmis hjá honum. Hann fjölyrti enn fremur mjög um útistandandi skuldir verslunarinnar, hvernig þær væru til komnar og hverjum þær væru lánaðar. Skal jeg eigi fara út í það mál hjer, því bæði er það, að jeg er eigi svo kunnugur þeirri hlið málsins, að jeg geti sagt nokkuð um það með vissu, hefi sem sje eigi kynt mjer skuldalistann nægilega, og því eigi dæmt um, hvort skuldunum hefir verið forsvaranlega ráðstafað, og eins er hitt, að hjer munu vera menn, sem eru færari en jeg til að svara þessu atriði. Hygg jeg þó, að eigi hafi þessu verið óvarlegar ráðstafað en ástæða var til.

Hv. þm. (Ó. P.) leit svo á, að þjóðin væri mótfallin því, að landsverslunin hjeldi áfram. Vitnaði hann, máli sínu til sönnunar, í ýmsa þingmálafundi, er samþykt hefðu ályktun, er færi í þá átt. Jeg fyrir mitt leyti legg eigi svo mikið upp úr samþyktum slíkra þingmálafunda, því það er sannast mála, að á slíkum fundum, og þó sjerstaklega úti um land, er það oftast vilji eins manns, sem er ráðandi. Það er einnig alkunnugt, að það er áhugamál kaupmanna, að landsverslunin sje lögð niður, og er því eigi að undra, þótt þeir ættu óskertan þátt í slíkum samþyktum.

Það var auðheyrt á niðurlagsorðunum í ræðu hv. frsm. meiri hl. (Ó. P.), að það mundi verða verslunarstjettinni kærkomin afmælisgjöf, ef landsverslunin yrði lögð niður. Jeg trúi því vel. Jeg býst einnig við, að það yrði haldið röggsamlega upp á afmælið, ef verslunarstjettin fengi svo heppilega gjöf frá þinginu. En jeg er ekki eins viss um, að þjóðinni þætti vænt um það, að landsverslunin yrði lögð niður, því almenningur kann að meta það gagn, sem landsverslunin hefir unnið honum. Jeg býst eigi við, að þjóðin yrði þakklát því þingi, sem slíkt gerði. Og mjer þætti það undarlegt, ef þm., og það ef til vill meiri hluti þeirra, vildi ljá sig til þess, þegar landsverslunin nú einu sinni enn er leidd á höggstokkinn af kaupmannaliðum, að veita henni banahöggið. Skil jeg eigi, hvernig þeir ætla að afsaka sig, er heim í hjerað kemur.