03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (2047)

72. mál, prentunarkostnaður ríkissjóðs

Jón Þorláksson:

Jeg vil aðeins gera stutta athugasemd við niðurlagsgrein þál., þar sem vikið er að því, að stjórnin rannsaki, hvort ekki muni tiltækilegt að koma á fót prentsmiðju og reka hana fyrir ríkisfje. Jeg vil láta það koma hjer fram, að þó að till. þessi verði samþykt, þá verði hún ekki skoðuð sem yfirlýsing þingsins um það, að það vilji láta landið reka prentsmiðju á sinn kostnað. Mjer er dálítið kunnugt um rekstur prentsmiðja hjer, og jeg hygg, að enginn iðnrekstur í ríkisins höndum sje óheppilegri en prentsmiðjuiðnrekstur.

Um hitt er jeg ekki í vafa, að hvenær sem gengið verður að því með skynsemi og atorku að fá prentun fyrir ríkið með hæfilegu verði, þá muni slíkt fást, og að landið þurfi síst að sæta verri kjörum um prentun en einstakir menn. Jeg vona því, að hv. deild samþykki þessa till. og skoði hana sem bendingu til stjórnarinnar um að fá lækkaðan prentunarkostnað, en ekki sem bendingu til hennar um að brjótast í því að setja prentsmiðju á stofn, og þar með að koma á fót nýjum stöðum og embættum.