11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2084)

85. mál, endurskoðun fátækralaga

Jón Baldvinsson:

Mjer brá dálítið í brún, er jeg heyrði hæstv. atvrh. (Kl. J.) lýsa yfir því, að fyrverandi stjórn hefði ekkert gert í þá átt að endurskoða fátækralöggjöfina. Það er vitanlegt, að þál. 1917 skoraði á stjórnina að undirbúa breytingar á henni, og það sjest ekki á umræðum þá, að stjórnin hefði neitt við það að athuga. Þetta var svo endurtekið í fyrra, og hreyfði stjórnin þá ekki orði til andmæla. Þess vegna átti að vera óhætt að ganga út frá því, að stjórnin samþykti efni tillögunnar, og sjerstaklega mátti vænta þess af fyrverandi forsrh. (J. M.), þar sem hann ljet það í ljós í öðru máli, að hann gæti fallist á ýmsar breytingar á fátækralögunum, og ýmislegt mætti betur fara nú en 1905. Enda er það auðsætt, því að margt hefir breyst í þjóðlífi voru síðan 1905. En það er altaf verið að fitja upp á breytingum á þingi, og þau hafa verið að smátaka breytingum í mannúðaráttina, og eftir ummælum hæstv. atvrh. (Kl. J.) má búast við, að nú komist meira skrið á það.

Jeg bar fram á síðasta þingi nokkuð víðtækar breytingar, en þær náðu ekki fram að ganga vegna þess, að menn hjeldu, að þær mundu hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir sveitarsjóðina, svo og af því, að lögin höfðu ekki verið í endurskoðun hjá landsstjórninni, en það var talið heppilegra, að sú leið væri farin. En þau tóku þó stórstígum breytingum í mannúðaráttina í fyrra, er það var ákveðið í berklaveikislögunum, að styrkur, sem er veittur berklaveikissjúklingum, skuli ekki skoðaður sem sveitarstyrkur. Einnig var sú breyting gerð á fátækralögunum, að þeir menn, sem fara í sjúkrahús að læknisráði og fá styrk í því skyni, skuli ekki missa borgaraleg rjettindi. Þetta var til stórra bóta, og vænti jeg þess, að stjórnin haldi nú lengra í þessa átt og láti ómegð, slys og veikindi ekki varða rjettindamissi, enda taldi hæstv. atvrh. (Kl. J.) það mjög órjettlátt.

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) mintist á ákvæði í stjórnarskránni í sambandi við sveitarstyrki. Og hann var í vafa um, að vegna ákvæða stjórnarskrárinnar væri hægt að ákveða í lögum, að styrkur, veittur af sveitarfjelögum, svifti menn ekki kosningarrjetti. En það þarf ekki annað en benda á fátækralögin sjálf til þess að sjá, að svo þarf alls ekki að vera; t. d. er í þeim ákveðið, að styrkur við fátækraflutning skuli ekki talinn sveitarstyrkur veittur þurfaling, og hina sömu undantekningu gera berklaveikislögin og fátækralagabreytingin frá síðasta þingi, sem jeg hefi áður nefnt. Það þarf því ekki að breyta stjórnarskránni þó að slík ákvæði verði sett inn í fátækralögin.

Jeg vænti þess nú, að stjórnin taki þetta til rækilegrar íhugunar, og mjer virtist mega skilja á orðum hæstv. atvrh. (Kl. J.), að hins besta megi af honum vænta í þessu efni.