23.03.1922
Efri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (2110)

39. mál, vegir

Björn Kristjánsson:

Háttv. samgmn. hefir nú gert till. sínar um frv. mitt til breytinga á vegalögunum. Hún hefir ekki sjeð sjer fært að leggja til að samþykkja frv., og lái jeg henni það ekki. Svo örðug er aðstaðan.

En hún hefir gert alt, sem hún gat, til að lina fjárhagsörðugleika Gullbringusýslu, og sýnt mestu sanngirni í till. sínum, og er mjer skylt að þakka fyrir það.

Af því að mjer eru örðugleikarnir ljósir, eins og nefndinni, mun jeg greiða atkv. með hinni rökstuddu dagskrá, í von um, að upp renni betri tímar og að vegalögin verði endurskoðuð á þann hátt, að hver fái sinn þjóðvegarspotta, sem haldið er við að öllu leyti af ríkissjóði.

Viðvíkjandi skekkjunni á því, hvað landssjóður hefir lagt fram á móts við sýsluna, vil jeg taka fram, að hún er ekki mjer að kenna, því jeg fór eftir brjefi því, er fyrir lá um það efni.