18.02.1922
Efri deild: 4. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

10. mál, verslunarskýrslur

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg geri ráð fyrir, að háttv. deildarmönnum sje kunn nauðsynin á því, að gott lag sje á söfnun verslunarskýrslna, þ. e. skýrslna um innfluttar og útfluttar vörur. Ennfremur hygg jeg, að allir, sem það mál hafa kynt sjer, muni vera samdóma um, að söfnun verslunarskýrslna hjá oss hefir gengið alt of seint, og hefir það oft komið sjer illa. Þess vegna var það, að stjórnin skipaði svo fyrir frá 1. jan. 1921, að skýrslum þessum skyldi safnað jafnóðum og vörur væru fluttar til landsins og úr því, svo að hægt væri t. d. að segja um inn- og útflutning mánaðarlega, en áður hafði þeirri reglu verið fylgt, að kaupmenn gáfu eina skýrslu eftir á fyrir hvert ár. En hagstofustjórinn hefir kvartað yfir því, að söfnun skýrslnanna gangi ekki eins greiðlega og æskilegt væri, vegna þess, að bein lagafyrirmæli vanti í sumum atriðum. Til þess að bæta úr þessu er frv. þetta borið fram, eins og hagstofustjórinn hefir lagt til, og býst jeg ekki við, að háttv. deild hafi miklar athugasemdir að gera við það, heldur sjái og finni nauðsynina á því að reyna eftir föngum að greiða fyrir innheimtu skýrslna þessara.

Mál þetta mun eftir eðli sínu heyra undir allsherjarnefnd, og legg jeg því til, að frv. þessu verði vísað til þeirrar nefndar að lokinni þessari umr.