01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

15. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Mjer kom það, satt að segja, dálítið á óvart, þegar tveir hv. þm. snerust öndverðir gegn þessu frv. í gær. Jeg hafði búist við því, að þetta mál gengi umræðulaust gegnum hv. deild, því það sýnist ekki vera vel viðeigandi, að þm. með löngum ræðum sjeu að ala á óánægju skattgreiðendanna í landinu.

Jeg skrifaði hjá mjer í gær ýmislegt af því, sem þessir hv. þm. sögðu og færðu fram gegn þessu frv. En nú sje jeg, við nánari athugun, að þessar ástæður eru ekki svo mikils verðar, að ástæða sje til að taka þær til meðferðar. Það er yfirleitt mjög erfitt að deila um þetta, vegna þess, að í raun og veru eru allir sammála um það, að æskilegast væri að komast hjá þessu gjaldi. En það, sem líta verður á í þessu máli, virðist mjer aðallega vera tvent:

1. Hvort ríkissjóðurinn þarfnist þessara tekna;

2. Hvort þetta gjald er jafnósanngjarnt og sumir háttv. þm. hafa viljað halda fram.

Jeg hygg, að ekki sje ágreiningur um það, að ríkissjóður þurfi í raun og veru þessara tekna, því þó ýmsir háttv. þm. hafi haldið því fram, að fjárhagurinn væri sæmilegur, þá er það þó aðeins á pappírnum. Menn vita ekkert um það með vissu, nema ýmsir tekjuliðir fjárlaganna reynist lægri en nú er áætlað.

Þá skal jeg víkja örfáum orðum að háttv. þm. Str. (M. P.). Hvers vegna beitti hann sjer ekki gegn þessu máli í fjvn.? Það hefði verið rjettara og vænlegra til sigurs en að rísa upp nú hjer í háttv. deild. Jeg veit ekki einu sinni til þess, að hann hafi gert nokkra tilraun til þess að fá þessu breytt í nefndinni. Þessvegna held jeg, að honum geti ekki verið alvara og að þetta sje bara leikaraskapur.

Þá kem jeg að hinum liðnum, hvort þetta gjald sje jafnósanngjarnt og af er látið. Ef maður athugar, hvernig þetta gjald kemur niður á hinar ýmsu atvinnugreinir, þá kemur það í ljós, að gjaldið er hvorki mjög tilfinnanlegt nje órjettlátlega skift. Á meðalbónda í sveitum kemur ca. 10 kr. gjald; á mótorskip með sæmilegum afla ca. 200–300 kr., og á botnvörpung, þegar ritgerðin gengur sæmilega, 3000–4000 kr. Það sýnist því vera hreinn óþarfi að mála þessa hlið málsins jafnsvarta og háttv. þm. Str. (M. P.).

Þá er og ekki ætlast til, að þessi lög standi til eilífðar, þótt þau nú verði framlengd. Strax og fjárhagur landsins batnar, munu þau verða afnumin. Annars sje jeg ekki ástæðu til að eltast við einstakar mótbárur gegn þessu máli. Býst við, að háttv. þm. sjeu þegar ráðnir í því, hvernig þeir muni greiða atkvæði. Árás háttv. þm. Str. (M. P.) mun jeg ekki svara í þetta sinn; það yrði aðeins til að vekja nýja deilu. Jeg kýs því heldur að bíða með það svar, þangað til hann gefur mjer enn frekara tilefni.