01.04.1922
Neðri deild: 38. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

15. mál, útflutningsgjald

Jón Þorláksson:

Jeg sje mjer þann kost nauðugan að greiða atkvæði með þessu frv. Jeg hefi hjer fyrir framan mig landsreikninginn frá árinu 1920 og sýnir hann, að þær skuldir, sem eiga að greiðast af sköttum og tollum og öðrum tekjum ríkisins, hafa á því ári hækkað um 200000 króna. 1919 voru þær um 9¾ miljón en 1920 nálægt 11¾ miljón króna. En hver slík miljón, sem þannig bætist við, hefir í för með sjer 100000 krónur í árleg útgjöld í hjer um bil 20 ár í vexti og afborganir. Þó að menn geri sjer nú von um, að þessi skuldahækkun muni nú stöðvuð, vegna þeirra skatta, sem koma frá nýju skattaálagningunni, þá er það þó aðeins ágiskun, en engin vissa, og því varlegra að greiða þessu frv. samþykki, svo búskapur þjóðarinnar geti staðist 1923, þó að tekjurnar af nýju sköttunum reyndust ónógar til þess að stöðva tekjuhallann. En ef tækist nú betur til með þessa nýju skatta en menn hafa þorað að treysta, er enn tími til að ljetta þessu gjaldi af á Alþingi 1923. ef fært þykir, því að þá verður ekki byrjaður útflutningur á afurðum ársins 1923 svo nokkru nemi. Með því fororði mun jeg greiða atkvæði með frv.