03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

15. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Þótt jeg standi upp, þá sje jeg ekki ástæðu til þess að ræða málið frekar. Það hefir ekkert verið hrakið af því, sem jeg hefi áður sagt, og háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) fær ekki háttv. þdm. til þess að greiða atkv. í ósamræmi við sjálfa sig, og er því ræða hans tilgangslaus.

Jeg vil vekja athygli á því, að það kemur betur og betur fram, að þeim er ekki alvara þessum fáu mönnum, sem hamast á móti frv. Þeir vita um afdrif frv., vita, að það verður samþykt. Þess vegna er gott að gera sig breiðan og hamast á móti því. Þetta er ágætis auglýsing, t. d. til að hampa undir næstu kosningar. Þess vegna er um að gera að tala nú eins og þeir ímynda sjer, að kjósendur vilji helst heyra.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta, en benti aðeins á það, úr því jeg stóð upp.