03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (571)

15. mál, útflutningsgjald

Gunnar Sigurðsson:

Af því jeg var nefndur á meðal þeirra manna, sem snúist hefir hugur í þessu máli frá í fyrra, finst mjer rjett að gera grein fyrir atkv. mínu. Fyrir mjer er það aðalatriðið að skila fjárlögunum nú sem tekjuhallaminstum. Jeg álít, að í fyrra hafi þingið verið altof stórstígt í því að ausa út fje án þess að sjá fyrir tekjum til jafnaðar. Annars er jeg á móti því „principielt“ að taka útflutningsgjald af framleiðslu landsmanna, en málið liggur alt öðruvísi við nú en í fyrra og á ekkert skylt við stjórnarskiftin. Í fyrra átti útgerðin erfitt uppdráttar, bæði hvað síld- og þorskveiðar snerti, en nú hefir úr þessu raknað, og komist Spánarmálið í góða höfn, eins og öll líkindi eru til, þá þolir útvegurinn miklu betur að bera gjaldið nú heldur en í fyrra. Jeg þykist sem sje hafa fulla ástæðu til að vona, að útvegurinn komi til með að skila talsverðum ágóða á þessu ári, og þess vegna greiði jeg atkvæði með frv.