27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Gunnar Sigurðsson:

Jeg hjó eftir einni setningu hjá háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Hann talaði um dýra reynslu af of mikilli seðlaútgáfu.

Það er satt, að Íslandsbanki gaf um eitt skeið of mikið út af seðlum, en það sannar ekki, að nú sje rjett að draga seðlana inn. Það er þvert á móti. Á svona fjárkrepputímum er mjög varhugavert að draga mikið inn af seðlum. Það verður til þess, að eignir landsmanna falla óeðlilega í verði, en það er aftur til ógagns fyrir þjóðarheildina, og auðvitað bankana líka. Jeg flutti í fyrra þál.till. um það að skora á landsstjórnina að hlutast til um, að bankarnir færðu niður vextina. Landsbankinn hefir nú gert þetta, en ekki Íslandsbanki. Jeg er því frv. þessu í öllu fylgjandi og ber það traust til hæstv. stjórnar, enda þótt jeg treysti henni lítt, að hún hafi nægilegt eftirlit með þessu. Fyrir mjer er það aðalatriðið, að þjóðin græði við þetta. Græði bankinn líka við það, er það ekki nema gott eitt.