27.02.1922
Neðri deild: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vildi aðeins leiðrjetta misskilning háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á því, sem stendur í 1. gr. frv. Þar er aðeins um að ræða að skjóta á frest um 1 ár að gera endanlega skipun um seðlaútgáfuna, en alls ekki frestað inndrætti seðla Íslandsbanka, eins og hann ljet í veðri vaka. Þótti mjer auðsætt af ræðu háttv. þm., að hann hefir ekki borið frv. saman við lög þau, sem verið er að breyta.

Hvað vaxtalækkunina snertir, þá verður stjórninni varla með rjettu borið á brýn, að hún hafi ekki lækkað vextina. Það liggur, eins og menn líklega vita, ekki í hennar verkahring að stjórna bankanum, heldur bankaráðsins, sem að meiri hluta er skipað Íslendingum.

Jeg skal ekki bera á móti því, að það sje hjer um samninga að ræða — en hagkvæma samninga. Jeg vil jafnframt benda á það, að sá, sem heimtar sanngirni af öðrum, ætti helst að gera sjer það að reglu að láta sanngirni koma á móti.