25.04.1922
Efri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

Starfslok deilda

forseti (G. B.):

Áður en jeg segi þessum fundi slitið, vil jeg í nafni okkar þriggja, sem nú víkjum af þingi, þakka fyrir góða samvinnu. Þetta tekur þó einna mest til mín, því að jeg mun vera einna elsti þm. þessarar háttv. deildar. Jeg hefi setið hjer samfleytt á 11 þingum og verið hjer forseti á 8 þingum. Mjer kemur ekki til hugar að leggja nokkurn dóm á það starf mitt, en ef mjer hefir tekist það vel, og það hefi jeg stundum heyrt utan að mjer þá er það nær eingöngu því að þakka, að jeg hefi unnið með góðum mönnum.

Það er oft sagt ýmislegt misjafnt um þingið okkar og margt er okkur fundið til foráttu, en jeg þori að fullyrða það, og standa frammi fyrir þjóðinni með þá fullyrðingu, að eins og háttv. Ed. hefir unnið nú síðari árin í þágu þjóðarinnar, á hún lof skilið, einróma lof.

Það kemur oft fyrir, að okkur hjer ber margt á milli og við höfum oft ólíkar skoðanir á ýmsum málum. Og svo á það að vera. En við höfum ávalt borið gæfu til að ræða málin illindalaust, og það þakka jeg þeim anda, sem hjer hefir ríkt, þeim anda að setja eitt ofar öllu öðru í okkar starfi, og það er — nú bið jeg ykkur að standa upp — það er okkar ástkæra fósturjörð.