15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Björn Kristjánsson:

Hingað til hefir það verið venja mín, þegar bankafrumvörp hafa verið fyrir þinginu, að skýra frá því sannasta og rjettasta, sem jeg vissi um slík mál. Öll afskifti mín utan þings og innan hafa lotið að því að reyna að fræða menn um það, sem mjer áður var kunnugt um, að þingheimur ekki þekti í þessum málum. — En ávalt hefi jeg unnið fyrir gýg. Jeg hefi staðið sem „sá hrópandi á eyðimörkinni“ vegna eiginhagsmuna-áhrifa manna og stofnana utan þings. Og enn bólar á því sama, því að aldrei hefi jeg lagt öllu betri gögn fram heldur en í þetta sinn, bæði í ræðu hjer á þingi og í Morgunblaðinu.

Og gögnin voru svo auðsæ, að jeg hefi orðið þess var, að jafnvel almannarómur viðurkennir, að jeg hafi rjett fyrir mjer, hvað þá fjármálamenn. En sú viðurkenning nær ekki lengra en að þinghúsdyrunum.

Það er auðsjeð af tillögum háttv. meiri hluta í þessu máli, að hann hefir ekki heyrt hróp mitt, hvorki fyr nje síðar. Og verð jeg því að líta svo á, að hann telji sig fróðari en jeg er um seðlabankafyrirkomulag. Og þá er það ekki nema sjálfsagt, að jeg leiti fræðslu hjá meiri hlutanum um þau málefni, sem snerta þetta frv., og um frv. sjálft.

Meiri hlutinn heldur fast við, að 2. málsgrein 1. gr. verði látin standa, um að gefa ríkisstjórninni ótakmarkaða heimild til að gefa út fleiri seðla en nú er heimilt að gefa út samkvæmt bankalögunum frá síðasta þingi, og sem þessi sami meiri hluti þá samþykti. Og lögin, sem þetta heimila nú, eiga að ganga í gildi „1. dag þess almanaksmánaðar, sem næstur fer á eftir staðfestingu þeirra“, sem sennilega yrði þá 1. júní eða 1. júlí þ. á. En á tímabilinu frá því lögin ganga í gildi til 31. okt. í haust getur stjórnin veitt bankanum heimild til að gefa út seðla eins og hún vill. Hvers vegna eru þá þessi lög ekki látin ganga í gildi t. d. 1. nóv.?

Frv. þetta raskar einkarjetti Íslandsbanka til að gefa út seðla samkvæmt 1. gr. laga nr. 6, 31. maí 1921. Hefir meiri hlutinn tryggingu fyrir því, að aðalfundur og aukafundur Íslandsbanka samþykki að Landsbankinn setji fleiri seðla í umferð en þá ¾ miljón krónur, er hann nú má setja í umferð? Það er sýnilegt af 2. málsgrein 1. gr., sem er aðeins 6 línur, að Landsbankinn á ekki að fá að gefa út meira af ríkissjóðsseðlunum en ¾ miljón kr., sem nú eru gefnar út fyrir ríkissjóðs hönd.

Hvaða seðla ætlar bankinn þá að nota?

Eru það Íslandsbankaseðlar?

Og með hvaða kjörum verða þeir þá afhentir Landsbankanum? Er samið um það?

Gæti það ekki rekið sig á óþyrmilega „tekniska“ örðugleika í framkvæmdinni að nota þá, t. d. þegar útlendir bankar taka að krefja bankana hjer um borgun á seðlum, sem þeir kaupa t. d. í Danmörku, Svíaríki eða Noregi, þegar seðlarnir líta eins út?

Ef þessir seðlar eiga hvorki að vera ríkissjóðsseðlar eða Íslandsbankaseðlar, hverskonar seðlar eiga þeir þá að vera? Á þá að gefa út nýja seðla, þriðju tegundina? Og hvað kostar sú útgáfa og hver á að bera kostnaðinn?

Í þessari sömu málsgrein er gert ráð fyrir því, að seðlarnir megi vera annaðhvort málmtrygðir eða ómálmtrygðir. Hvers vegna er önnurhvor leiðin ekki ákveðin?

Og er meiri hlutanum alveg sama um það, hvort gefnir eru út málmtrygðir eða ómálmtrygðir seðlar ofan á 8 miljóna kr. seðlaútgáfu Íslandsbanka 31. okt. og ¾ milj. seðlaútgáfu ríkissjóðs?

Hver á að ákveða, að frekari seðlaútgáfa sje óhjákvæmileg vegna viðskifta innanlands?

Eiga bankarnir að gera það eða stjórnin? Eða á nefnd óháðra bankafróðra manna utan bankanna að gera það?

Vill meiri hlutinn fræða mig um það með ljósum líkum, að fleiri seðla þurfi eftir 31. okt. í haust til þess tíma, er þing kemur saman að ári, en 8¾ miljón krónur?

Hefir meiri hlutinn borið þetta mál undir bankafróða menn eða fjármálamenn utan bankanna, t. d. prófessor Eirík Briem, sem var um mörg ár „Autoritet“ þingsins í þessum efnum, og það með rjettu? Hann hefir enn óskerta andans krafta, og mætti því vel leita álits slíks manns í þessu máli.

Hefir svo háttv. meiri hluti gert sjer grein fyrir því, hvaða áhrif þessi heimild mundi hafa á gengið? Eða hvort traustið í nágrannalöndunum til peningastofnana vorra myndi aukast við aukna útgáfu ómálmtrygðra seðla?

Það er venja þessa þings og annara þinga að gera lögin svo ljós, að almenningur skilji þau. Þessi málsgrein er ekki nema 6 línur, og gefur hún þó áreiðanlega tilefni til allra þessara spurninga og enn fleiri. Hvers vegna er hún ekki látin segja það, sem hún á að meina?

Jeg skaut því fram við 1. umræðu þessa máls, hvort háttv. þingmönnum sýndist ekki rjettast að fresta að gera út um, hvernig seðlaútgáfunni yrði fyrir komið framvegis til þingsins 1924. Jeg get ekki neitað því, að eigingirni liggi þar á bak við.

Ef þessi lagasetning fer fram á næsta þingi, þá mun jeg neyðast til að vera þar, ef jeg hefi líf og heilsu, og mun jeg þá verða að horfa upp á, hvernig háttv. meiri hluti leggur síðustu hönd á þann smíðisgrip, pinnann í líkkistu fjárhagslegs sjálfstæðis Íslands, pinnann nr. 2. Pinnann í líkkistuna nr. 1 smíðaði fráfarin stjórn svo meistaralega, að allir skynbærir menn sjá hann nema þeir, sem hafa einangrað sig á eyðimörkinni.

Verði þessi lagasmíð ekki framkvæmd fyr en á þinginu 1924, þá vonast jeg til að geta verið laus við að horfa beint upp á starfsemi hins háttv. meiri hluta í þessu máli.

Jeg mun nú hlusta á svör háttv. meiri hluta og alla þá fræðslu, er hann kann að veita mjer, ef jeg endist til. En það vil jeg segja honum fyrir fram, að jeg ætla engu að svara. Ef jeg segi eitthvað, þá verður það ósk um frekari fræðslu eða svör við fleiri spurningum.

Um 2. gr. get jeg verið fáorður. Jeg mun greiða atkvæði með henni, ef tillaga háttv. minni hluta verður samþykt, en annars á móti.

En um eitt vildi jeg mega enn þá spyrja háttv. meiri hluta; hvort þingið ætlar hjer eftir að ákveða vextina í Íslandsbanka og hvort bankaráð hans er afsett.

Ef svo færi, að meiri seðlaútgáfu þyrfti óhjákvæmilega, þá er stjórninni heimilt samkvæmt stjórnarskránni að gefa út ný bráðabirgðalög á sína ábyrgð. Gerði fráfarin stjórn það tvisvar, ef jeg man rjett. Þótt þetta frv. yrði því ekki samþykt, er þó altaf fær leið, ef meiri seðla þarf.