22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 845 í B-deild Alþingistíðinda. (999)

89. mál, aðflutningsbann á áfengi

Magnús Guðmundsson:

Þegar jeg las þetta frv., datt mjer í hug sagan um verkhyggna manninn, sem þurfti að senda til Hafnarfjarðar úr Reykjavík, en sendi fyrst upp á Akranes eftir manni til þess að senda hann til Hafnarfjarðar, en datt ekki það snjallræði í hug að senda manninn beint til Hafnarfjarðar. Og ástæðan til þess, að mjer datt þetta í hug, var sú, að frv. þetta er heimild fyrir hæstv. stjórn til þess að fá gefna út konunglega tilskipun, er heimili, að reglugerð sje sett um vín undir 21%. En jeg leyfi mjer að spyrja: Til hvers er þessi konunglega tilskipun? Hví má ekki hlaupa yfir þennan millilið? Hví má ekki fara beinustu og skemstu leið? Hví má ekki heimila stjórninni í lögunum að gefa út reglugerð um þetta efni, til þess að konunglega tilskipunin, þessi óþarfi milliliður, falli burtu? Þessi aðferð, sem hjer er notuð, um heimild til útgáfu tilskipunar, er ekki notuð nema þegar óvíst er um, hvert innihald tilskipunarinnar skuli vera, en svo er ekki hjer, því að innihald hennar er í öllu tilgreint í þessu frv. og alt það, sem nú er nokkur vafi á í þessu máli, verður í reglugerðinni. Þetta er í sjálfu sjer ekki mikilsvert atriði, en það er vissulega nauðsynjalaust og fer í raun og veru fremur í bága við anda vorrar stjórnarskipunar, að fela konungsvaldinu meiri þátttöku í löggjafarvaldinu en þörf er á, og hjer er ekki um neina þörf að ræða. Það er alveg nægilegt að heimila stjórninni útgáfu reglugerðar um þetta efni. Enga tilskipun þarf. Jeg get ekki ímyndað mjer neina aðra ástæðu fyrir þessu tiltæki viðskiftamálanefndar en þá, að hún hafi litið svo á, að með þessu yrði málið dregið á langinn og lengra liði þangað til Spánarvínin færu að flytjast inn; en þá var annað ráð til, miklu einfaldara, og það var að setja ákveðið tímatakmark um hvenær lögin gengju í gildi, t. d. 1. ágúst í sumar. Það hlaut að vera rjettmætt, þar sem uppsagnarfrestur á Spánarsamningunum er 3 mánuðir. Jeg sje ekki fært að koma með brtt. um þetta, því að hún gæti tafið þingið, sem nú er að ljúka við síðustu málin, sem það ætlar að fara með, en jeg vildi benda á þetta til þess að sýna smíðagallana á frv.

Að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til að ræða þetta frv. verulega. Jeg er þeirrar skoðunar, að ekki sje fært annað en samþykkja það, en jeg geri það með því beina fororði og skilyrði, að háttv. viðskiftamálanefnd og hæstv. stjórn ábyrgist, að næsta þing eigi kost á, ef það vill, að fá framlengingu á samningunum við Spánverja með alls engu lakari kjörum en nú eru í boði. Þetta tek jeg fram vegna þess, að um þetta atriði er ekkert sagt í nál., en ekki af því að jeg í raun og veru efist um, að þetta verði gert, enda er hætt við, að að öðrum kosti yrði þung ábyrgðin, á hverjum sem hún lenti.

Jeg get ekki stilt mig um að benda á það, að í nál. er það viðurkent af nefndinni allri, að við samningsgerðina hafi málstaður okkar verið fluttur með öllum þeim rökum, sem hægt virðist að finna, og öllum hælt á hvert reipi, sem við þá hafa fengist, nema fyrverandi stjórn. Þetta er nú líklega fyrir þá sök, að nefndin hefir álitið, að ekki mætti nefna snöru í hengds manns húsi, að það væri óhæfa að hæla nýfallinni stjórn, en jeg vil nota þetta tækifæri til þess að slá því föstu, að þótt nál. segi það ekki, þá hlýtur hin fráfarna stjórn að eiga töluverðan þátt í lofinu, því að vitaskuld komu fyrirskipanir og ályktanir frá henni. Og það er nú líka upplýst af frsm. (M. J.), að nefndin hefir verið þessarar skoðunar, þótt það af vangá hafi fallið burtu úr nál. En svo vænt sem mjer þykir um þetta, þá þykir mjer þó eiginlega eru vænna um þá uppreisn, sem sendimaður vor á Spáni, Gunnar Egilson, fær í nál., því að hann hefir af fjölmennum flokki manna verið borinn þeim sökum, að undarlegt má telja, að slíkt skuli geta komið fram. Það hefir sem sje komið fram, að skylt væri að tortryggja hann. Með öðrum orðum að drótta að honum föðurlandssvikum, því að annað er það ekki, ef útsendur maður af okkar hálfu bregst skyldu sinni.

Það er rjett, sem segir í niðurlagi nál., að alt hafi verið reynt í þessu máli nema að hleypa því í strand. En þar sem nefndin tekur það fram, að hún geti ekki ráðið til að hleypa málinu nú í strand, vildi jeg leyfa mjer að spyrja hana, hvort í þessu felist það álit, að rjett hefði verið að hleypa því í strand síðastliðið sumar. Jeg þykist reyndar vita fyrir svar nefndarinnar, en af því að þetta orðalag er grunsamlegt, er gott af fá skýrt svar við þessu. Jeg þykist þess sem sje fullviss, að fyrst nefndin sjer ekki fært að hleypa málinu í strand nú, hafi það verið enn ófærara þá, á erfiðasta viðskifta- og framleiðsluárinu, sem yfir okkur hefir gengið, auk þess sem þá var ekkert annað fyrir þetta látið en að lofa að leggja frv. til breytingar á bannlögunum fyrir þetta þing, án nokkurrar skuldbindingar um samþykt þess. Í raun og veru hefir því ekki annað gerst hjer en að hin fráfarna stjórn lofaði að fara, ef þingið vildi ekki ganga að frv., en hún þurfti ofan hvort sem var. Jeg skil ekki, hvað vantað hefir á undirbúning þessa máls, og væri gott að fá skýringu á þessu atriði, ef undirbúningnum þykir ábótavant. Jeg tek þetta fram af því, að það hefir oft verið látið í veðri vaka, að við hefðum verið orðnir bundnir á höndum og fótum, og þingið gæti því ekki annað en tekið við frv. Þetta er ósatt mál. Gamla stjórnin gerði aðeins þær ráðstafanir, sem ekki voru bindandi fyrir þingið, eins og flestum hv. þm. mun nú kunnugt.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) talaði þannig um þetta mál, að mjer gat ekki dottið annað í hug en að hann væri frv. algerlega mótfallinn. Mjer kom því á óvart, er hann í ræðulok sagðist mundu greiða atkv. með því. Hann kvaðst með skýringum sínum hafa bygt brú til hins hluta viðskiftamálanefndar, en jeg verð að segja það, að jeg vildi ekki leggja út á þá brú með honum.

Hann kvaðst leggja aðaláhersluna á það, að hægt væri að útvega markað fyrir Spánarfisk annarsstaðar en á Spáni, og hjelt, að á 1 ári mundi mega útvega slíkan markað. Jeg verð nú að segja það, að hæstv. stjórn veit hvað hún hefir að gera, ef hún ætlar að útvega þann markað, og jeg geri mjer ekki miklar vonir um, að það takist svo nokkru nemi. En þó er það sýnu sanngjarnara en sú krafa, að fráfarin stjórn átti að gera það á hálfu ári.

Hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) taldi, að þetta frv., ef samþykt yrði, mundi hafa ill áhrif á gengið. Þetta er ekki fráleit skoðun, því að eins og hv. þm. tók fram, gæti af því leitt nokkur óvissa, sem aftur gæti haft áhrif á gengið. En svo framarlega sem það er fulltrygt, að við sætum eigi verri kostum hjá Spánverjum á næsta ári, á þó engin slík hætta að geta komið til greina, því að ef nefndin og þingið samþykkja frv. nú með miklum meiri hluta, er næsta ólíklegt, að atkv. falli ekki nokkuð líkt á næsta ári, nema þá verði komið fram eitthvað það, sem geri það að verkum, að við getum sjeð okkur borgið án þess.

Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) heldur, að ekki hafi verið lagt nógu fast að Dönum að fylgja oss fast í þessu máli. Jeg get nú ekki gert að því, hvað þessi hv. þm. heldur, en hann veit, hvað fram hefir farið í málinu, og jeg vil aðeins leyfa mjer að vísa til viðskiftamálanefndar, að hún taldi ekki gerlegt að fara lengra í umleitununum en gert var, og jeg verð að líta svo á, að það sje meira virði, sem 12 manna nefnd lýsir yfir að vandlega rannsökuðu máli, en hitt, sem einn þm. heldur, án þess að hafa kynt sjer öll gögn málsins.

Sami hv. þm. (J. B.) hjelt því og fram, að betra væri að afnema bannið með öllu en samþykkja þetta frv. Hvers vegna kemur hann þá ekki með brtt. í þá átt? Því eins sárt og honum er um bannmálið, ætti hann ekki að geta verið aðgerðalaus, ef ætti að færa það í verra horf en ef ekkert bann væri. Jeg veit, að ýmsir háttv. þm. mundu verða því fylgjandi að afnema bannið alveg, en jeg er þó ekki einn þeirra manna og mundi telja það mesta glapræði, ef svo væri gert. Því að jeg tel það hinn mesta misskilning, að ekki sje hægt að setja takmarkanir um sölu víns í landinu, sem hamli því, að það verði misbrúkað, og þá einkum á þeim vínum, sem við samkvæmt samningunum yrðum neyddir til að flytja.