25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

80. mál, stofnun landsbanka

Hákon Kristófersson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við frv. þetta á þskj. 447.

Ástæðan til þess er sú, að jeg varð að nokkru leyti fyrir vonbrigðum, þegar jeg sá brtt. nefndarinnar. Jeg bjóst við, að hún mundi koma með brtt. við frv., er færu í líka átt og mínar. en að svo varð ekki, kemur líklega til af því, að henni hefir ekki unnist tími til þess, því mjer er kunnugt um, að sumir nefndarmenn, og þar á meðal báðir háttv. flm., eru þeim ekki ósammála.

Fyrri breytingin í till. mínum er sú, að fastákveða það, að gjaldkerar við bankann skuli vera tveir.

í 4. gr. laga frá 28. nóv. 1919 er svo fyrirmælt, að aðstoðarfjehirðir skuli skipaður, ef „þörf krefur“, og það lagt á vald bankastjórnarinnar, hve nær hún álíti þetta nauðsynlegt. Þegar þessi lög voru samþykt á þingi 1919, var búið að skifta gjaldkerastarfinu í tvent, því það mun hafa verið gert 1. júlí 1919, enda taldi bankastjórnin þá þetta starf orðið ofvaxið einum manni. Og með þetta fyrir augum var þessi heimild sett í lögin 1919. Nú eru bráðum liðin 31/2 ár síðan þau lög gengu í gildi, en enn hefir bankastjórnin ekki notað þessa heimild, og þó hefir þetta starf verið starfrækt þennan tíma, og maðurinn, sem hefir gegnt því, tekið laun og mistalningarfje samkvæmt launaákvæði laganna. Það sýnist því eigi vera ástæða til annars en fastákveða það, að fjehirðarnir skuli vera tveir, eins og þeir nú eru, og báðir sjeu stjórnskipaðir. Það segir sig líka sjálft, að það er mjög óviðfeldið fyrir manninn, sem hefir gegnt þessu starfi alla tíð síðan það var stofnað — og mjer er óhætt að fullyrða, að hefir áunnið sjer vinsældir og traust viðskiftamanna bankans fyrir kurteisi og lipra framkomu — að starfið sje svo árum skiftir hvorki fugl nje fiskur, ef svo mætti að orði kveða, og hann vilji því fá veitingu fyrir því, sem vitanlega er sjálfsagt, að hann fái. Og í þessu sambandi þykir mjer rjett að minnast á það, að jeg tel einnig sjálfsagt, að hann fái hæstu laun strax, eins og hinn gjaldkerinn og bókarinn fær, því á starfsaldri þessara þriggja manna bankanum mun mjög litlu muna — þeir eru búnir að vinna þar í 13–14 ár — og þó hann hafi eigi verið sem sjálfstæður gjaldkeri nema í tæplega 3/2 ár, þá ber þess að gæta, að hann var búinn að vera aðstoðarmaður gjaldkerans áður í 4 ár, og hefir mjög góðan vitnisburð frá honum fyrir trúa og dygga þjónustu. Og á þeim árum gegndi hann gjaldkerastarfinu oft aleinn, í fjarveru og forföllum gjaldkerans. Þetta hygg jeg líka vera tilætlun háttv. fjárhagsnefndar, og komi engin athugasemd frá henni eða öðrum um, að þetta sje ekki rjett, lít jeg svo á, að bæði háttv. nefnd og háttv. deild sjeu þessu áliti mínu samþykkar, að þessi maður fái strax hæstu laun eins og aðrir.

Af þeim ástæðum, sem jeg hefi nú fram tekið, vænti jeg, að háttv. deild geti fallist á þessa fyrri brtt. mína.

Síðari brtt. mín tekur upp þá breytingu á launum og mistalningarfje, sem felst í brtt. hv. fjhn., og er að því leyti þeim alveg samhljóða. En í henni felst samt sem áður mikilsverð breyting, sem sje sú, að hún fer fram á, að stjórnin, að fengnum tillögum bankastjórnar, ákveði, hvernig mistalningarfjenu skuli skift á milli gjaldkeranna, í stað þess, að bankastjórnin ákveði þetta ein. Þessi breyting finst mjer í alla staði eðlileg og sjálfsögð, úr því sú tilhögun er feld niður, sein verið hefir í bankalögunum alla tíð síðan bankinn var stofnaður, að ákvæði þetta væri í lögunum sjálfum. Báðir þessir menn eiga að vera skipaðir af stjórninni, og hún á að ákveða verkaskiftingu á milli þeirra, að fengnum till. bankastjórnar, og stjórnin ákveður sömuleiðis dýrtíðaruppbót þeirra; þá ætti hún einnig að sjálfsögðu að hafa æðsta úrskurðarvald um það, hvernig mistalningarfjenu milli þeirra er skift, vitanlega að fengnum tillögum bankastjórnar. Það liggur í augum uppi, að það er afarmikilsvert fyrir gjaldkerana, að þessi skifting sje sem allra sanngjörnust, því báðir bera þeir vitanlega ábyrgð á mörgum tugum miljóna króna, er árlega fara í gegnum þeirra hendur, og því virðist mjer það miður heppilegt fyrirkomulag, að aðeins eitt úrskurðarvald, innan bankans, hafi fullnaðarvald til að skifta mistalningarfjenu. Jeg er engan veginn með þessu að vantreysta bankastjórninni, og geri ráð fyrir, að hún í tillögum sínum um skiftinguna verði svo sanngjörn og rjettlát, að stjórnin fallist algerlega hennar tillögur, en ef óánægja ætti sjer stað viðkomandi ráðstöfunum hennar í þessu falli — og það getur vitanlega ætíð komið fyrir, þó jeg vilji helst ekki gera ráð fyrir því, — þá finst mjer sjálfsagt, að veitingarvaldið, sem hefir skipað gjaldkerana, eigi æðsta úrskurðarvald um þann ágreining, og mjer skilst ekki betur en gjaldkerarnir eigi líka kröfu á því. Það fyrirkomulag, að láta bankastjórnina skifta þessu fje upp á eindæmi, getur að mínu áliti haft ýmsa mjög verulega annmarka í för með sjer; og sá fyrsti er, að með því yrðu þeir fjárhagslega háðir bankastjórninni, þegar þeir eiga að sækja ábyrgðarfje sitt alleina í hennar hendur, ef svo mætti segja. Slíkt gæti leitt til ýmislegs, sem miður heppilegt væri, og hygg jeg, að jeg þurfi ekki að útskýra það frekar: það hlýtur að liggja öllum í augum uppi.

Annar annmarkinn er sá, að þetta gæti leitt til sundurþykkju og úlfúðar í bankanum sjálfum innbyrðis, og er vissulega ástæða til að forðast alt slíkt, því til þess eru vond dæmi að varast þau. Þá má og minnast á þriðja annmarkann, þann, sem oft hefir orðið okkur Íslendingum að fótakefli á ýmsan hátt — því miður — í okkar fámenna þjóðfjelagi, sem er skiftar skoðanir á viðkvæmum málum, t. d. pólitík. Við höfum mörg dæmi — því er nú ver — fyrir því, að hún hefir gert vini að óvinum og breytt rjettu í langt. Alla slíka ásteytingarsteina tel jeg rjett að forðast eins og heitan eld, og eigi hvað síst í stofnun eins og Landsbankanum, þar sem mjög mikið ríður á, að allir starfi saman í friði og eindrægni. Annars tel jeg rjettast og sjálfsagðast að skifta jafnt störfum milli þessara manna, og láta þá svo hafa jafnt mistalningarfje, en á hætta þeirra fer vitanlega mjög eftir því, hvað mikið þeir hafa að gera, hvað margar afgreiðslur þeir hafa á dag, hver um sig, en ekki eftir umsetningu. Því þótt t. d. 500 þúsund króna víxill sje framlengdur, fylgir því engin áhætta, nema taka á móti rjettum vöxtum af honum, en hann eykur þó umsetninguna um 1 miljón kr.

Með alt þetta fyrir augum, sem jeg hefi nú tekið fram, vænti jeg þess, að hv. deild geti einnig samþykt síðari till. mína.

Viðvíkjandi breytingu á heiti gjaldkeranna, aðalfjehirðir og fjehirðir, í stað fjehirðir og aðstoðarfjehirðir, er það að segja, að heitið aðstoðarfjehirðir er að mínu áliti ekki rjett, því báðir starfa sjálfstætt, á eigin ábyrgð, og er því hvorugur aðstoðarmaður hins.

Aðalfjehirðir og fjehirðir er því að jeg held rjettara, og í fullu samræmi við t. d. aðalpóstmeistara og póstmeistara.

Annars skal jeg ekki fjölyrða um frv. að öðru leyti. Jeg er að ýmsu leyti sammála hv. 1. þm. Skagf. (MG) um það, að bankastjórastöðurnar við Landsbankann og Íslandsbanka sjeu ekki sambærilegar að því er launakjör snertir, án þess að jeg vilji þó á nokkum hátt segja, að Landsbankastjórarnir eigi ekki að vera launaðir. Jeg hefi með þessum fáu orðum aðeins viljað gera stutta grein fyrir brtt. mínum og vona, að hv. deildarmenn hafi af því sannfærst um, að hjer sje um rjett og sanngjarnt mál að ræða.