28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í B-deild Alþingistíðinda. (1021)

80. mál, stofnun landsbanka

Magnús Jónsson:

Það er að mínu áliti dálítið einkennilegt, að öll þau andmæli, er komið hafa fram gegn þessu frv., snúast um laun bankastjóranna eingöngu. En í því eru ákvæði um laun nokkurra annara starfsmanna bankans, og gæti það, finst mjer, miklu fremur orkað tvímælis, hvernig í þessu frv. er ákveðið um laun þeirra heldur en bankastjóranna. Á forstöðumönnunum, bankastjórunum, hvílir mikil og víðtæk ábyrgð, en á hinum ekki, þótt störf þeirra að öðru leyti geti verið að ýmsu leyti vandasöm.

Þegar við lítum á þessi launaákvæði frumvarpsins, þá hlýtur það í fljótu bragði að koma dálítið kynlega fyrir, að fjehirðir hafi hærri laun en skrifstofustjórar í stjórnarráðinu, og enn fremur þó hitt, að aðstoðarfjehirðir hafi hærri föst laun en prófessorar við háskólann. Samkvæmt reglum launalaganna ætti sambandið milli launa þessara starfsmanna að vera það, að hámarkslaun aðstoðarfje hirðis væru jöfn lágmarkslaunum aðalfjehirðis. Er það hliðstætt því, er dósentar hafa í hlutfalli við prófessora að launum við háskólann hjer. Í báðum tilfellum er um fullkomlega sjálfstæð og hliðstæð störf að ræða. Þeir launalægri vinna nákvæmlega sambærilegt verk við þá, sem launahærri eru. En launamunurinn miðaður við það eitt, að í annari stöðunni sje að jafnaði yngri maður.

Í þessu finst mjer aðalósamræmi þessa frv. liggja, þegar það er miðað við reglur launalaganna. Þessi störf við bankann eru auðvitað vandasöm og þurfa að vera rækt með alúð, en þau eru engan veginn sambærileg við þau embætti, sem jeg nefndi áður til samanburðar, hvorki að vanda. ábyrgð nje undirbúningsmentun. Og slík ákvæði hljóta því að vekja rjettmæta óánægju. Jeg get samt greitt atkvæði með þessu eftir atvikum, því að jeg tel, að heldur ætti að hækka laun embættismanna en lækka laun þessara starfsmanna.

Jeg er á móti því, sem háttv. 2. þm. Reykv. (JB) talaði um aldursbætur. Þær ættu ekki að eiga sjer stað, síst í hinum hærri embættum, t. d. biskups eða landlæknisembættunum o. fl. Í þessar stöður komast eigi aðrir en þeir, sem áður eru búnir að vera lengi í embættum og eru auk þess þektir orðnir að sjerstökum dugnaði og öðru góðu, umfram aðra embættismenn, og eru að jafnaði rosknir orðnir, svo að óviðeigandi er að láta þá fá byrjunarlaun lægri en síðar. Þetta frv. er því góð umbót að þessu leyti frá núgildandi launalögum.