07.03.1923
Neðri deild: 14. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Eins og hin framkomnu nefndarálit bera með sjer, hefir fjárhagsnefnd ekki getað orðið sammála um meðferð þessa frv., og skal jeg í fám dráttum skýra frá rökum meiri hluta nefndarinnar.

Fyrst er þá þess að gæta, að meiri hl. er algerlega mótfallinn þeirri stefnu um endurskoðun laganna, sem komið hefir fram hjá hæstv. fjrh. (MagnJ), að breyta ekki í einu lagi öllu, sem ábótavant þykir eða reynslan hefir leitt í ljós að er óheppilegt. Hið versta er vissulega að vera altaf að grauta í lögunum á hverju þingi. Afleiðingin verður sú, að fæstir geta fylgst með um, hvað gildir, og það mundi verða mjög óheppilegt fyrir störf skattanefndanna. Nú hefir meiri hl. nefndarinnar það fyrir satt, að t. d. skattstjórinn hjer í bænum, sem vitanlega hefir meiri kynni af þessu en nokkur annar maður á landinu, líti svo á, að ýmislegt fleira þurfi að laga en stjórnin fer fram á, og er það næsta merkilegt, að hæstv. stjórn skuli ekki hafa leitað tillagna hans.

Þessar röksemdir liggja til þess, að nefndin er á einu máli um, að rjettast sje á þessu þingi að breyta ekki öðrum ákvæðum en skattstiganum og frádráttarreglunum, sem standa í nánu sambandi við skattstigann. Ennfremur verður að breyta endurskoðunarákvæðum laganna, og jeg verð að álíta rjettara að endurskoða lögin 1924 en 1925, enda er vafasamt, að nokkurt þing verði 1925. sbr. frv. það, er nú er fram komið um fækkun þinga.

Um breytingar þær á skattstiganum og frádráttarreglunum, sem nefndin stingur upp á, er þess að geta, að meiri hlutinn gat og getur ekki felt sig við, að enginn munur sje gerður á einhleypum og giftum að því er frádrátt snertir. Ennfremur þykir oss það mesta undarlegt og ótilhlýðilegt, að allar tekjur undir 1000 kr. skuli vera skattfrjálsar, en 5 króna skattur strax og tekjurnar verða 1000 kr. eða meira. Úr því að 999 kr. eru skattfrjálsar, þá þykir oss þessi eina króna, sem fyllir á þúsundið, verða skattgreiðanda ærið dýr og gæti leitt til undandráttar í skattaframtali.

Fyrir meiri hl. nefndarinnar vakir, að tekjuskatturinn skuli vera almennur, en það getur hann eigi orðið eftir stjórnarfrumvarpinu, því að í mestum hluta landsins mundi einhleypt fólk að miklu leyti sleppa við skattinn. Aftur á móti liggur heilbrigður hugsunarháttur á bak við það, að hver og einn leggi einhvern skerf til alþjóðarþarfa, og jeg er þess fullviss, að ef gagnstæður hugsunarháttur er ekki beinlínis uppalinn af ásettu ráði, hefir almenningur ekki á móti því.

Um hinn nýja skattstiga meiri hluta nefndarinnar að öðru leyti skal jeg geta þess, að auk þess, sem heimilaður er frádráttur á aukaútsvörum, er skattstiginn lækkaður um sem næst 20% á lægstu tekjunum. Þegar ofar dregur, minkar frádrátturinn smátt og smátt, uns hann hverfur alveg, þegar komið er upp að 13000 kr. tekjum. Eftir það er skattstiginn hærri en eftir gildandi lögum, en þegar tillit er tekið til þess, að aukaútsvörin dragast frá — en þau eru einmitt mjög há af háum tekjum — mun skattur af háum tekjum að líkindum verða svipaður því, sem nú er, eða dálítið hærri.

Samskattur barna og foreldra hefir í ýmsu reynst ósanngjarn, og leggur meiri hl. því til, að hann falli niður. Þá er eitt meginatriði í brtt., að frádráttur fyrir börn hækki úr 300 kr. upp í 500 kr. Þessi breyting er mjög mikilsverð fyrir barnamenn, en það eru einmitt þeir, sem eiga erfiðast með að greiða tekjuskatt. Maður með konu og 5 börn hefir eftir tillögum meiri hl. leyfi til að draga 3500 kr. frá tekjum sínum. Ef um fátækan verkamann er að ræða. myndi hann að líkindum verða skattfrjáls. En eftir frv. stjórnarinnar fengi hann að draga frá 2500 kr. og ekki meira, það er að segja, ef tekjur hans nema 1000 kr. eða meira umfram þessar 2500 kr., greiðir hann skatt af þeirri upphæð, sem umfram er, en annars ekki neitt.

Um hinar aðrar breytingar, er stj.frv. ráðgerir, er það að segja, að sumar þeirra eru rangar að áliti allrar nefndarinnar, svo sem 2. mgr. 3. gr., að 3. mgr. 13. gr. laganna falli burt; þá brtt. hefir enginn nefndarmanna getað felt sig við. Aðrar breytingar stjórnarinnar virðast til bóta, og gæti verið rjett að samþykkja þær, ef lögin í heild sinni væru endurskoðuð. En engar þeirra virðast svo áríðandi, að nokkru máli skifti, hvort þær nái fram að ganga nú eða eftir 1 eða 2 ár.

Jeg skal geta þess, að í brtt. meiri hl. á þskj. 54 hefir slæðst inn prentvilla í síðustu línu skattstigans: 26% í stað 27%. Jeg geri ráð fyrir, að verði brtt. meiri til, samþyktar, munum við koma okkur saman um að bæta við síðustu málsgr. í 2. gr. stj.frv., um að fastákveða lágmarksgjald af tekjum útlendinga. Um þetta var rætt í nefndinni, en hefir gleymst að taka það upp í till. meiri hl.

Í fundarbyrjun var útbýtt brtt. á þskj. 67. frá hv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Jeg hefi ekki haft tíma til að athuga þær og skal því geyma mjer að tala um þær þangað til hv. flm. (JÞ) hefir mælt fyrir þeim. Þessar brtt. fara fram á allmikla lækkun og eru því varhugaverðar af þeirri ástæðu, að þær eiga að öðlast gildi þegar á þessu ári, en þar sem gengið hefir verið frá fjárlögunum, getur það komið sjer mjög illa að lækka tekjurnar. Þar sem hæpið er, að nokkuð komi í staðinn.