13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

139. mál, fjáraukalög 1923

Sigurður Stefánsson:

Jeg get ekki tekið undir það með þeim háttv. þm., sem síðast talaði, að jeg sje þakklátur hæstv. stjórn fyrir frv. þetta. Hún hefir þar að vísu látið af hendi rakna 12000 kr. til viðgerðar brimbrjótsins í Bolungarvík. Eftir orðum hennar áður að dæma, hefði jeg frekar getað búist við 24 þúsundum, enda myndi ekki veita af því. Fyrstu skemdirnar, sem brimbrjóturinn fjekk, áætlaði hreppsnefndin að myndi kosta um 12 þús. kr. En síðan hafa meiri skemdir orðið á garðinum hvað eftir annað. Hreppsnefndin kveðst hafa tilkynt verkfræðingnum þetta, og mun hann varla hafa þagað um það við hæstv. stjórn. (Atvrh. KIJ: Hann hefir ekkert tilkynt stjórninni um þetta). Það er þá hans sök. Það hefði þó ekki verið ofverkið hans, þess heiðursmanns, að tilkynna stjórninni þetta. Nú er svo komið, að miklu meira fje þarf til viðgerðarinnar en þessar 12 þúsundir. Jeg býst því við, að jeg verði tilneyddur að koma fram með brtt. þess efnis, og vona jeg, að hæstv. stjórn verði henni ekki mótfallin.