24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1108)

139. mál, fjáraukalög 1923

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Þá er það nú loksins komið til umræðu í hv. deild, fjáraukalagafrumvarpið fyrir 1923, og vænti jeg, að öllum háttv. þingdeildarmönnum muni skiljast, er þeir hafa sjeð till. stjórnarinnar og fjvn., að það var eigi að ófyrirsynju, að þess var krafist, að þetta frv. kæmi fyrir þingið.

Jeg þarf vart að segja mikið við þessa umræðu um þetta frv. Flestar till. fjvn. hafa verið áður ræddar í sambandi við fjárlögin fyrir árið 1924 og um þær ritað í nál. fjvn. við það frv. Vænti jeg þess, að hv. þm. verði því mjög fegnir, vegna þess hve nú er orðið áliðið dags, að umræður um þetta frv. þurfi eigi að verða mjög langar, þar eð flestallar brtt. við það eru áður kunnar hjer í deildinni.

Það mætti þykja undarlegt, að fjvn. hefir eigi látið neitt nál. frá sjer fara, en það er vegna þess, að þetta eru flestalt brtt. við fjárlagafrv., og því kunnar þaðan; enda hefði þetta orðið málinu til tafar og auk þess óþarfa kostnaður.

Vil jeg þá víkja að 1. brtt. á þskj. 353, um 5000 kr. til þess að breyta Röntgentækjum sjúkrahússins á Akureyri. Þar höfðu þessi tæki verið sett upp og fengu raforku frá mótor, en nú hefir bærinn fengið rafmagnsveitu, og er því þessi breyting orðin nauðsynleg. Tækin voru áður miðuð við 110 volta spennu, en nú er hún miklu meiri, um 220 volt, og eru því flestöll tækin óhæf til notkunar, nema mikið fje komi til, til þess að setja þar upp straumbreytara eða með öllu ný áhöld. Nú hafði verið farið fram á, að Alþingi veitti til þessa 10 þúsund krónur, en fjvn. mælir ekki með þeirri beiðni. Sjúkrahúsið á Akureyri er eign bæjarfjelagsins, og sennilega sýslufjelagsins líka, og rekið af þeim, og sá siður hefir við haldist, að þessi fyrirtæki væru styrkt að 1/3 til byggingarkostnaðar og til áhaldakaupa. Nú er það vitanlegt, að þessa sjúkrahúss njóta fleiri en Akureyrarbúar einir, og því vill fjvn. mæla með því, að styrkurinn verði alt að 1/2 kostnaðar. Jeg get getið þess, að þessar till. fjvn. eru gerðar í samráði við hæstv. stjórn og fluttar samkvæmt því.

Þá er næst styrkurinn til Benedikts Björnssonar á Húsavík; má vísa til þess, sem stendur um þetta í nál. fjvn. um fjárlagafrv. En jeg vil óska þess, ef nokkrir eru þeir háttv. þm., sem síðan hafa gleymt þessu máli, að þeir mótmæli þá þessari fjárveitingu; skal jeg þá rifja þetta upp fyrir þeim.

Þá gæti jeg og hugsað, að sumum kynni að þykja nýstárleg fjárveitingin til bifreiðaferða austur um sveitir, þar sem þetta hefir ekki verið siður áður, að styrkja slíkar ferðir. En eins og allir vita, eru allir flutningar þar austur nær eingöngu á landi, sjerstaklega allir mannflutningar. Fjvn. finst þetta ekki ólíkt og samgöngur á sjó, og er þá eðlilegt, að þessar sýslur verði teknar til greina í þessu efni, er þær njóta lítils af þeim styrk, sem veittur er til samgangna á sjó. Nefndin álítur, að óbeinan hagnað muni leiða af þessu. Ferðirnar verða reglulegri en áður, áætlunarferðir, sem koma miklu betur að notum en ella. Er til þess ætlast, að stjórnarráðið semji áætlun um þessar ferðir, um viðkomustaði, á sama hátt og gert er um strandferðir.

Þá er línuspottinn frá Reykjarfirði til Kaldrananess; er þetta því aðeins tekið upp hjer, að til er ætlast, að þetta verði gert um leið og lögð verður önnur lína þar í nánd, sem gerir þetta að miklum mun ódýrara, er það verður hvorttveggja samtímis. Þátttaka sveitarfjelagsins verður þar og meiri en venjulegt er, t. d. um flutning á öllum staurum til þessa línuspotta, og er það álíka langt frá Hólmvík, þaðan sem staurarnir verða fluttir, og hjeðan efst upp í Hvalfjörð.

Jeg vænti þess, að háttv. þm. hafi tekið eftir fjárveitingunni til eirsteypu af líkneski Hallgríms Pjeturssonar eftir Einar Jónsson. Þeir munu og vita, hvernig þessi mynd lítur út. Skáldið liggur í rúmi sínu og heldur á bók, er það les úr, en mannfjöldinn stendur að baki og hlustar hugfanginn. Mannfjöldinn, það er öll þjóðin.

Hefir þessi fjárveiting komið fyr til tals, en varð þó ekki úr, að veitt yrði. Var það ekki af mótspyrnu; en það er eins og menn þekkja, bæði með þingið sjálft og fjvn., að þessi mál falla niður, ef ekki er rekið eftir þeim af einhverjum áhugamönnum. Allir vita, að Einar Jónsson er ekki gefinn fyrir að reka á eftir þinginu í þessum efnum, og jeg þykist vita, að allir háttv. þingmenn vilji koma þessu listaverki sem fyrst upp. (StSt: Hvar á það að standa.). Það mál ætlar fjvn. ekki að láta til sín taka.

Þá er enn brtt. um sjóvarnargarðinn á Siglufirði, á þskj. 405.VIII. Hún kom frá fjvn. við fjárlögin og er um að veita helming kostnaðar við þetta verk.

Nefndin sjer ekki ástæðu til að gera þessum kaupstað hærra undir höfði en öðrum kaupstöðum, þar sem líkt stendur á. Ríkið á landið, en einstakir menn mannvirki, sem á því standa. Svo var og gert við Sauðárkrók. Fjárveitinganefnd sjer ekki fært að fara eins langt eða lengra en gert er við bryggjugerðir. Þá það sje sagt, að ríkissjóði beri að verja sitt land, eiga þá og þeir, sem á því eiga mannvirki, líka að verja þau. Þá hefir og verið sagt, að öðruvísi hagi til með Siglufjörð en Sauðárkrók; þar sjeu lóðir dýrari og leigðar aðeins til skamms tíma. Þó munu á Siglufirði vera lóðir, sem leigðar hafa verið til 99 ára, og svo er þess að gæta, að ríkissjóður hefir þegar lagt mikið fje til Siglufjarðar, og vænti jeg því, að háttv. deild fallist á þetta, er nefndin ætlar að ganga inn á till. stjórnarinnar, sem þó er hærri en nefndin hafði í fyrstu viljað veita. Nefndin er fús að veita Siglfirðingum lán, til þess að þeir geti lagt fram sinn hluta af kostnaði við þetta verk.

Um allar þær fimm bryggjur, sem hjer er farið fram á fjárveitingar til, hefir verið áður skrifað í nál. um fjárlögin. Jeg vil aðeins geta þess, að þegar búið er að byrja á slíkum mannvirkjum og þau máske langt komin, vill nefndin hjálpa til að fullgera þau, svo þau komi að fullum notum. Því það er leiðinlegt þegar slík verk stranda nær fullgerð, af því að aðeins vantar smáupphæðir, eins og stundum hefir átt sjer stað.

Næsti liðurinn er til Andakílsfossanna. Nefndin sjer ekki betur en að Alþingi verði að standa við að veita fje að sínum hluta til þessa, þó það hafi farið fram úr áætlun. Var því í fyrstu lofað, að ríkið tæki helming kostnaðar.

Þetta til Stokkseyrar er endurveiting, sem ekki ætti því að mæta mótspyrnu, þó þessarar fjárveitingar hafi eigi verið neytt enn þá.

Um Skeiðaáveituna hefir þegar verið svo mikið rætt, að vart mun þörf að gera það frekar að þessu sinni.

Þá eru víst eigi fleiri brtt. frá fjvn. En jeg hefi sjálfur borið fram tvær brtt., sem eru hinar fyrstu, sem jeg hefi í þetta sinn borið fram við frv. til fjáraukalaga eða fjárlaga í eigin nafni. Um hina fyrri er það að segja, að hún gæti í raun og veru talist frá fjvn. Hefir aðeins gleymst þar. Er það brtt. á þskj. 424, um 375 kr. eftirlaun til Sigríðar Fjeldsted læknisekkju.

Þá er fjárlögin fyrir 1924 voru til umr., var samþykt, að hún skyldi framvegis fá sömu eftirlaun og ekkjur hjeraðslækna. Virðist því öll sanngirni mæla með því, að hún fái þessi laun frá þeim tíma, er hún varð ekkja. Er þessi upphæð rjett reiknuð fyrir 10/12 parta yfirstandandi árs.

Hin brtt. er líka á þskj. 405, sjúkrastyrkur til Sigvalda Kaldalóns. 1500 kr. Við 2. umr. fjárlaganna fór jeg nokkrum orðum um þennan mann. Gat jeg þess þá, að nefndin treysti sjer ekki til að fara fram á hærri eftirlaun handa honum en 1200 kr. Vildi hún ekki innleiða þá venju að veita læknum hærri eftirlaun. En vjer hljótum að vona, að þessi maður fái aftur heilsuna og verði vinnufær. Hitt dylst væntanlega engum, að honum mun engan veginn fært að draga fram lífið í sjer og fjölskyldu sinni með 1200 kr., þó að dýrtíðaruppbót fylgi. Þess vegna hefi jeg borið fram þessa brtt., að honum verði í ár veittur 1500 kr. styrkur, til að hjálpa honum yfir örðugasta hjallann að ná aftur heilsu sinni. Jeg vona, að jeg þurfi ekki að fara mörgum orðum um þessa brtt. Hið háa Alþingi hefir svo oft áður reynst slíkum mönnum vel undir erfiðum kringumstæðum þeirra, að jeg hefi enga ástæðu til að ætla, að því farnist síður við þennan mann.

Brtt. hæstv. stjórnar eða einstakra þingmanna skal jeg ekki minnast á að svo stöddu. Jeg býst við að tala aftur við þessa umr. og vil forðast allar endurtekningar.