25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

139. mál, fjáraukalög 1923

Sveinn Ólafsson:

Jeg vildi aðeins leiðrjetta dálítinn misskilning í ræðu háttv. frsm. fjvn, (MP). Mjer fanst hann vilja halda því fram, að gengið væri á gerða samninga, ef veittur yrði 4000 kr. styrkur úr ríkissjóði til smávitanna við Berufjörð. eins og farið er fram á í till. frá hæstv. atvrh. (KIJ ). á þskj. 405. VIII e. Þetta verður víst að skilja svo, að Suður-Múlasýsla hafi gert samning og skuldbundið sig til að byggja vitana, og gangi nú á þann sanming með því að biðja um þennan styrk. En þannig er þó málið ekki skoðað í rjettu ljósi. Að vísu hefir hjer verið gengið á gerða samninga, en ekki af hjeraðinu, heldur af skipafjelaginu, sem lofað hafði vitamálastjóra að flytja efni til byggingar vitanna á Berufirði í tæka tíð. Hjeraðið átti enga sök á þessum samningsrofum, en þau leiddu til þess, að 16 verkamenn, sem áttu að vinna að vitabyggingunni, urðu að mestu verklausir, þegar kom á vettvang, þar til sement var fengið frá fjarlægum stöðum, sem þá var líka 7 kr. dýrara tunnan en sement það, sem átti að koma frá Danmörku og nota til bygginganna. Verður nú að muna, að þetta skakkafall, verkatöfin og verðmunur sementsins, hefir verið talið sýslunni til gjalda, þótt sá kostnaður stafi af vanhöldnum samningi við vitamálastjórann, sem sýslan gat ekkert við ráðið nje gert að. Hjer verður líka að minnast þess, að sýslan gekk ekki að þessu harða skilyrði frá 1919, um að kosta byggingu allra smávitanna, fyr en í marsmánuði í fyrravetur, þegar Fiskifjelag Íslands hafði tekið að sjer að greiða kostnað þann, sem færi fram úr 18000 kr., er sýslan hafði lofað. alt að 25000 kr. En þá var vitað um verð á öllu efni og tækjum til smávitanna og talið, að þeir mundu vart geta farið fram úr 22000 kr. Útkoman varð þó svo, sem kunnugt er, að kostnaðurinn varð yfir 30 þús. kr. Stafaði það, eins og fyr er getið, af vinnutöfinni og ókjaraverði sementsins, en einnig af því, að breytt var um ljósker í Hrómundareyjarvita; settur þar gasviti í stað olíuljóss. Og nam sú breyting ein, eftir sögn vitamálastjóra, 15–29 hundr. krónum.

Ef nú á að hengja hattinn á það, að sýslan gekk að harða skilyrðinu, og láta hana gjalda óhappanna með byggingarefnið og breytingarnar á gasvitanum, sem henni var áður ókunnugt um, þá virðist lítið verða úr sanngirninni, og einkennilegt er í þessu sambandi að tala um það, að hjeraðið gangi á gerða samninga, þegar það hefir greitt hvern eyri kostnaðarins sanna, og tekur auk þess að sjer nokkurn hluta þess kostnaðar, sem af óhappinu og breytingunni stafar. Það mætti víst með sama rjetti segja, að gengið væri á samninga, þegar opinberir starfsmenn, svo sem tíðkast, biðja um launabætur eða styrk, þegar laun þeirra endast þeim ekki og ríkið hleypur undir bagga með þeim. Lögmælt launakjör þeirra og móttöku ákveðins starfs má skoða eins og samning, og starf þeirra er í eðli sínu samningsbundið verk. En enginn talar um samningsrof, þótt þeir beiðist launabóta, og því síður, þótt þeir beiðist bóta vegna óhappa, sem þeim voru ósjálfráð.

Hjer er í raun og veru um sanngirniskröfu að ræða, með styrk til vitanna, og hana lága, því að hjeraðið hefir sætt hjer þungum kjörum í almenningsþarfir, og skal jeg ekki fara lengra út í það. En á það verð jeg jafnframt að benda, að með því að veita þessa litlu upphæð er ekkert varasamt fordæmi myndað fyrir aðrar vitabyggingar. Hjer er í mesta lagi um áð ræða 1/8–l/9 hluta byggingarkostnaðar vitanna, og þætti mjer ekkert óeðlilegt, þótt ríkissjóður hlypi undir bagga að sama hlutfalli um byggingu vitanna við Eyjafjörð, sem einkum munu hafðir hjer fyrir augum, þegar talað er um hættulegt fordæmi. Annars furðar mig á, að talað er um þetta eins og varasamt fordæmi, þegar ríkissjóður er nýbúinn að leggja fram alt fjeð til innsiglingarvitanna í Sandgerði og á Hvanney, en þriðjung kostnaðar eða meira annarsstaðar. Þau fordæmi er þó öllu erfiðara að verja.

Þá eru fá orð til háttv. 2. þm. Skagf. (JS). Að vísu heyrði jeg ekki vel, hvað hann sagði, en mjer fanst hann gefa í skyn, að ófyrirsynju væri beðið um fje til greiðslu á kostnaðarafgangi húsabyggingar á Hallormsstað. Virtist honum sem ábúandinn þar nyti betri kjara en prestar, sem bygt væri fyrir, ef þetta fje væri veitt, því að prestar yrðu að greiða vexti af byggingarkostnaði á prestssetrum. Jeg veit nú ekki, með hvaða kjörum skógarvörðurinn hefir jörðina Hallormsstað; hefi ekki grenslast eftir því, en hitt veit jeg, að ríkissjóður á bæði jörðina og húsin, og mun því verða að halda þar uppi húsum. Má vera, að hæstv. atvrh. (KIJ) geti upplýst um byggingarkjör þarna.

Jeg tók eigi eftir, að háttv. þm. (JS) mótmælti þessari fjárveitingu, enda er hún vitaskuld ríkissjóðs. Mjer fanst hann vera að leita frekari skýringa á því, hversu sanngjarnleg fjárbeiðnin væri.