01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1384 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

139. mál, fjáraukalög 1923

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er í raun rjettri óþarfi fyrir mig að taka til máls út af þessum 2 brtt., sem jeg á, því að þær hafa fyr komið til umræðu, og þá tók jeg alt það fram, sem með þurfti. Þar að auki hefir háttv. frsm. (MP) lýst því yfir, að hann og nefndin væru meðmælt þessum brtt. Jeg skal því ekki lengja umræðurnar að neinum mun. Jeg vil þá fyrst minna á, að skýlið austur á Meðallandssöndum er alveg að falli komið, en þetta hefir verið dregið í efa. Jeg tók áður fram, að samkvæmt áliti vitamálastjóri gæti þetta hús ekki staðið til lengdar. Síðan hefi jeg spurt hann um það á ný, og sagði hann þá, að eftir sinni skoðun væri húsið svo hrörlegt, að það þyldi ekki mikla storma, og gæti því fokið þá og þegar, svo það má ekki draga að endurreisa það. Það yrði okkur til skammar, ef það fjelli niður, og ódýrast væri að gera alt í einu, endurbyggja húsið og endurnýja stauraraðirnar.

Það hefir verið kvartað yfir því að þýsku stjórninni, að leiðbeiningarmerki fyrir sjómenn væru hjer ekki til, og þótt þau væru til á einstaka stöðum, þá væri þeim ekki haldið við. Jeg verð nú að segja, að þótt slík merki sjeu ekki eins víða og vera þyrfti, þá hlýtur þetta að stafa af röngum fregnum, sem stjórninni hafa borist til eyrna frá einhverjum, sem hafa verið í siglingum í kringum landið, en lítið þekt hjer til.

Hin brtt. mín fer fram á, að Þorvaldi stúdent Árnasyni sjeu veittar 3000 kr., til að hjálpa honum að ljúka námi við ullarverksmiðju á Englandi. Fyrst hafði jeg komið fram með brtt. við fjárlagafrv. 1924, að upphæð 8000 kr., því það var sú upphæð, sem Þorvaldur fór sjálfur fram á og taldi nauðsynlega til að geta lokið námi við skólann. Jeg get ekki neitað, að jeg varð fyrir vonbrigðum, er sú tillaga var feld, því jeg hafði ástæðu til að ætla, eftir ummælum ýmsra þm., að hún hefði góðan byr. Jeg bygði á því, að þessi maður hefir ágætt próf, hin bestu meðmæli, og hins vegar hefir komið fram í deildinni sterkur áhugi fyrir því að fá sem fyrst að minsta kosti eina fullkomna verksmiðju hjer, sem auðvitað væri æskilegast að Íslendingur stjórnaði, altjend með tímanum. Jeg varð því fyrir vonbrigðum, er tillagan fjell, en ýmsir þm. komu til mín eftir á og tjáðu mjer, að þeir væru í rauninni þessari fjárveitingu samþykkir, en þeim þætti upphæðin fullhá. Þótt jeg geti ekki verið sammála þeim í því atriði, hefi jeg þó fært upphæðina niður um 2000 kr. Önnur mótbára þeirra var sú, að óþarfi væri fyrir styrkþega að fá upphæðina alla greidda í einu lagi, og væri rjettara, að hún skiftist niður á tvö ár, þannig að aðeins helmingur hennar kæmi nú til greina í aukafjárlögum fyrir 1923. Í þessu atriði er jeg þeim fullkomlega sammála, og þess vegna standa aðeins 3000 kr. í tillögu minni. Verði svo þessi till. samþykt í dag, hefi jeg hugsað mjer að koma fram líkri upphæð í fjárlögunum fyrir næsta ár, þegar þau koma aftur til umræðu í þessari deild. Aðalástæðan fyrir því, að jeg treysti mjer að færa upphæðina niður um 2 þús. kr., var sú, að jeg hefi átt tal við kaupmann þann hjer í bænum, sem einkum mun hafa kostað þennan mann það, sem af er, og hefir hann látið í ljós, að fengi Þorvaldur svona öfluga hjálp hjá Alþingi, væri von um, að það, sem á vantaði, fengist annarsstaðar frá. Vænti jeg því þess, að deildin taki nú vel undir brtt. mína, þannig úr garði búna, og samþykki hana.