01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1402 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

139. mál, fjáraukalög 1923

Stefán Stefánsson:

Jeg á hjer 2 brtt. á þskj. 484. er báðar snerta sjóvarnargarðinn á Siglufirði. Jeg flutti þær við 2. umr. fjáraukalaganna hjer í þessari hv. deild, en tók þær þá aftur, af því að hv. fjárveitinganefnd flytti þá einnig brtt., er gengu í þá átt, að framlag Siglufjarðarkaupstaðar skyldi vera helmingur af kostnaðinum. En báðar brtt. mínar miðuðust við 1/3, eins og gert var ráð fyrir í stjórnarfrv. Nú flyt jeg þær því aftur, í samræmi við það, sem samþykt var við 2. umr., þar sem ákveðið var, að Siglufjarðarkaupstaður legði fram 1/2 byggingarkostnaðar garðsins, og legg til, að kaupstaðurinn taki að sjer viðhaldið eftir sömu hlutföllum. Samkvæmt þessu fer jeg einnig fram á, að lánið til byggingar sjóvarnargarðsins sje hækkað úr 15 þús. kr. upp í 30 þús., sem er þá helmingur væntanlegs byggingarkostnaðar.

Jeg vona fastlega, að háttv. deild taki vel þessum brtt. mínum og sjái, að það er ekki frekt í sakirnar farið, þó að ætlast sje til, að landið leggi fram helming byggingar- og viðhaldskostnaðar, þegar tekið er tillit til þess, hve illa verk þetta hefir gengið, sem eingöngu má um kenna verkfræðingum þeim, er stjórnin hefir látið sjá um framkvæmdina. Þess vegna mælir engin sanngirni með því, að Siglufjarðarkaupstaður leggi meira fram en þennan umrædda helming.

Þá hefir verið minst á, að Sauðárkróksbúar þurfi að leggja meira fje fram til þess að viðhalda landi kauptúnsins. En svo er alls ekki, því enn sem komið er hafa þeir ekki þurft að leggja fram eins mikið fje til þess að viðhalda landi kauptúnsins á Sauðárkróki eins og Siglfirðingar þurfa að leggja fram til þessarar byggingar, og eftir öllum líkum að dæma, til að viðhalda landi kaupstaðarins, eða öllu rjettara til viðhalds garðinum. Auk þess eru lóðirnar á Sauðárkróki leigðar til lífstíðar, en allmargar lóðir á Siglufirði til tiltölulega skams tíma. En svo er hættan líka meiri á því, að land Siglufjarðar brotni upp en land Sauðárkróks, og þarf því sennilega margfalt meira fje til þess að verja það.

Jeg vænti því, að háttv. þm. líti með sanngirni á þetta mál og samþykki brtt. mínar á þskj. 484.